Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:22:44 (4792)


[17:22]
     Auður Sveinsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég sé mig tilneydda til að koma hér upp í ræðustól og skýra aðeins nánar hluta af ræðu minni sem ég er ekki viss um að ráðherra hafi alveg skilið. Ég hef að öllum líkindum ekki tjáð mig nógu skýrt fyrir hann. Hann segir að ég leggi til að Náttúruverndarráð verði lagt niður og ég hafi gert það opinberlega. Það er alveg rétt. Ég legg til að það verði gert með tilliti til þessa frv. sem hér er á ferðinni. Vegna þess að eins og því er búið hlutverk í þessu þá tel ég það ekki eiga rétt á sér. Ég er ekki þar með að segja að Náttúruverndarráð geti ekki haft einhverju hlutverki að gegna en ekki samkvæmt þessu frv. Og þess vegna vil ég bara leiðrétta það og vona að umhvrh. mistúlki ekki þessa skoðun mína.

    Ég fagna því hins vegar ef hann túlkar þetta þannig að Náttúruverndarráð verði þá vettvangur fyrir frjáls félagasamtök sem geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri eins og hann segir. En þá spyr ég: Það hlýtur að vera mögulegt fyrir önnur náttúruverndarsamtök að fá hliðstæð framlög frá ríkinu? Því á það að vera einkaréttur Náttúruverndarráðs að fá það ef þetta er fyrst og fremst vettvangur fyrir almenning? Ég get því ekki skilið hvort það á að vera einhver einkaréttur þeirra. En þá hljóta önnur náttúruverndarsamtök líka að geta fengið hliðstæðan stuðning.