Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:25:04 (4793)


[17:25]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Samkvæmt þessu frv. er það alveg skýrt að Náttúruverndarráð er ekki náttúruverndarsamtök, alls ekki. Heldur er um það að ræða að það er vettvangur ýmissa náttúruverndarsamtaka sem starfa í landinu, það er samnefnari. Þess vegna er eðlilegt að það njóti sérstakrar þjónustu af hálfu ríkisins í formi þessarar fyrirgreiðslu til þess að stuðla að því að þessum samnefnara takist að rækja sitt hlutverk. Ég vildi líka geta þess af því að hv. þm. og reyndar fleiri þingmenn sem hér hafa rætt í dag hafa talið þetta vera hið versta frv. þá mega menn ekki gleyma því að sjálft Náttúruverndarráð samþykkti stuðning við þetta fyrirkomulag. Þannig að ekki telja þeir sem núna sitja í Náttúruverndarráði að þetta sé af hinu vonda eins og hér hefur komið fram. Það er líka rétt að geta þess að Hið íslenska náttúrufræðifélag, sem hefur lengst allra íslenskra félagasamtaka starfað að náttúruverndarmálum, það hefur í meginatriðum tekið undir þau sjónarmið sem frv. byggist á og leggur sérstaka áherslu á hlutverk Náttúruverndarráðs sem óháðs tillögu-, umfjöllunar- og eftirlitsaðila. Þannig virðist það bara vera afskaplega fámennur hópur nokkurra þingmanna sem finnur þessu allt til foráttu. Ekki þeir sem um þetta véla í landinu.