Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:29:58 (4796)


[17:29]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að bæta hér nokkru við vegna þess sem hér hefur fram komið í umræðum og aðeins að nefna viss atriði í frv. sem ekki vannst tími til að víkja að og verður þetta þá allt í

kröppu formi tímans vegna að sjálfsögðu.
    Í fyrsta lagi þetta með stjórnskipuðu nefndina. Ég skal ekki vera að spinna þann lopa mikið meira en ég held að hæstv. ráðherra eigi eftir að íhuga það hvort það hafi ekki verið heldur óheppilegt að standa svona að verki. Ég ítreka það að hér var allt unnið undir forustu ráðherra og ráðuneytis sem skipaði nefndina og formann hennar og varaformann þannig að umhvrn. verður náttúrlega að tala við sjálft sig um þetta mál þar sem það veitti þessu starfi forustu. Síðan gerðust ýmsir skrýtnir hlutir í tengslum við málið sem ráðherrann nefndi. Hann fékk drög að frv. tekin saman af aðila sem hafði aldrei nálægt nefndinni komið en þó sent inn af formanni. Ég kann engar skýringar á vinnubrögðum ráðuneytisins eða trúnaðarmanna þess í þessa átt. Þetta er allt hið kynlegasta mál satt að segja. Ég gerði ítarlega grein fyrir því í bréfi til ráðherra 14. okt. sl. þar sem ég frábið mér alla ábyrgð á þeirri afurð sem var kynnt fyrrv. umhvrh.
    Ég ætla aðeins að koma að þeim þætti málsins sem snýr að friðlýsingarmálum sem ráðherrann hefur gert hér að umtalsefni og ber verulega fyrir brjósti. Allur áhugi í þeim efnum þykir mér lofsverður en ég vil í fyrsta lagi minna á að það er ekki svo að þessi mál hafi ekki verið á ábyrgð ráðuneytis áður en umhvrn. var stofnað. Þá var þessi málaflokkur undir menntmrn. Það var í rauninni ekki gert neitt í þessum efnum við stofnun umhvrn. annað en að færa umsýsluna sem var í menntmrn. varðandi friðlýsingarmál yfir í umhvrn. Þetta var því á forræði menntmrh. áður en umhvrn. kom að. Menn láta í umræðum um þetta eins og þetta hafi bara verið að gerast úti í bæ og þessi mál hvergi komið ráðuneyti við. Það er nú eitthvað annað.
    Breytingin sem hæstv. ráðherra er að leggja til er að taka þetta verkefni inn á borð ráðuneytis sem er þannig hlúð að í sambandi við þessi efni, eins og stendur í yfirliti sem ég fékk fyrir fáeinum dögum frá ráðuneytinu, að í náttúruverndar- og vísindadeild umhvrn. undir umhverfisskrifstofu þess er einn einasti starfsmaður og síðan ráðherrann. Þessir aðilar eru að taka til sín friðlýsingarmálin sem frumkvæðisaðilar og benda síðan á þrjá aðila úti í bæ eftir hugmyndum ráðherrans því að hann lítur greinilega á Náttúruverndarráð sem aðila úti í bæ. En tillögurétt og umsagnarrétt um þessi efni hafa síðan stjórn Landvörslu ríkisins, Náttúruverndarráð og Náttúrufræðistofnun Íslands sem dregin er inn í þetta frv. á nokkrum stöðum, sem er hægt út af fyrir sig að setja spurningarmerki við en ég ætla ekki að ræða hér sérstaklega. Þetta er mjög þýðingarmikil rannsóknastofnun sem á að renna stoðum undir málasvið náttúruverndar og sjálfsagt að athuga það efni sérstaklega. En þetta er ekki skynsamlegt og ég tel að embættisferli hæstv. ráðherra að því er varðar hugmyndina um þjóðgarð undir Jökli beri einmitt vott um að þetta gengur ekki upp svo vel fari. Ráðherrann er með ósæmilegum hætti í sambandi við þá tillögu að ganga fram hjá Náttúruverndarráði sem lögum samkvæmt á að gera tillögur um stofnun þjóðgarða, hafa frumkvæði að því. Það er ekki búið að breyta þessum lögum, hæstv. ráðherra. Hvað stendur ekki í viðkomandi grein náttúruverndarlaga, sem 25. gr. í þeirri útgáfu sem ég hef undir höndum, svo ég leyfi mér að vitna í það:
    ,,Sé landsvæði sérstætt um landslag, gróðurfar eða dýralíf eða á því hvíli söguleg helgi þannig að ástæða sé til að varðveita það með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum getur Náttúruverndarráð lýst það þjóðgarð, enda sé svæðið ríkiseign.`` Síðan segir um þá aðstöðu sem þar skal koma upp og að þar skuli starfa þjóðgarðsvörður.
    ( Forseti (GHelg) : Með leyfi forseta.)
    Með leyfi forseta, ég bið velvirðingar. Enn ætla ég, með leyfi forseta, að vitna til frásagnar af tillögugerð hæstv. umhvrh. um þjóðgarð undir Jökli í Morgunblaðinu 23. febr. Þar er nú ekki verið að biðja Náttúruverndarráð um tillögur, ó nei, sem lögum samkvæmt er ætlað að sinna þessu hlutverki heldur segir í þessum tillögum:
    ,,Með tillögunni er ég líka``, segir ráðherrann ,,að standa við yfirlýsingu í hvítbók ríkisstjórnarinnar um að þjóðgörðum verði fjölgað á kjörtímabilinu. Formaður undirbúningsnefndarinnar verður tilnefndur af umhvrh., einn verður tilnefndur af samg.- og landbrh., einn af forsrh. og tveir fulltrúar úr héraði.``
    Náttúruverndarráð er hvergi nefnt á nafn. En hvað segir Náttúruverndarráð um þetta efni sem hæstv. ráðherra er að vitna til og mætti ætla að hugmyndin um þjóðgarð undir Jökli sé sprottin út úr höfðinu á honum og tengd ágætum áhuga hæstv. umhvrh. á Vesturlandi, sem er vissulega lofsverður. Ég er alveg viss um að ráðherrann á eftir að hlaupa oft upp á Snæfellsjökul á næstunni til þess að innsigla þetta. Ég vona bara að hann sjái til þess að það verði meiri friður en nú ríkir á Jökli. En um þetta segir framkvæmdastjóri, vel að merkja Náttúruverndarráðs í bréfi til mín 28. febr. Ég tel rétt að það komi hér fram vegna þessarar umræðu:
    ,,Undanfarin ár hafa málefni svæðisins undir Jökli verið til umfjöllunar hjá friðlýsingarnefnd Náttúruverndarráðs. Hafa nefndarmenn m.a. haft hug á því að stækka svæðið miðað við lýsingu í náttúruminjaskrá. Friðlýsingarnefnd fjallaði um till. til þál. um friðlýsingu svæðisins undir Jökli sem lögð var fram á 113. löggjafarþingi, 457. mál.`` --- Ég man ekki betur en það sé 117. sem stendur yfir. --- ,,Voru nefndarmenn sammála um að notfæra sér þann meðbyr sem var á Alþingi og leggja meiri áherslu á undirbúning friðlýsingar svæðisins.
    Í framhaldi var haft samband við náttúruverndarnefnd svæðisins og óskað eftir umsögnum um mögulega friðlýsingu þess. Náttúruverndarnefnd Snæfellsness- og Hnappadalssýslu fjallaði um málið á fundi sínum 27. ágúst 1991 og var þar samþykkt að lönd býla vestan Snæfellsjökuls frá Dagverðará að Skarðsvík og Móðulæk að norðan yrðu lýst friðland. Umhvrn. spurðist fyrir um hvort Náttúruverndarráð teldi

ráðlegt að stefna að friðlýsingu á svæðinu undir Jökli í samræmi við ályktun Náttúruverndarráðs frá 1972.`` --- Það er raunar fyrsta ráðið sem starfaði eftir breytingu á gildandi lögum. --- ,,Náttúruverndarráð svaraði því til að unnið væri að friðlýsingu á svæðinu undir Jökli. M.a. fylgdi bréfi ráðsins gömul tillaga um friðland undir Jökli sem lögð var fyrir Náttúruverndarráð 30. júní 1977.
    Að ósk ráðherra`` --- það mun vera núverandi umhvrh. --- ,,var væntanlegt þjóðgarðssvæði undir Jökli kortlagt og gagna aflað um eignarhald og fleiri þætti sem hér skipta máli, þar á meðal upplýsingar um landeigendur og fasteignamat jarða og mannvirkja samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins og sýslumannsembættinu í Stykkishólmi.``
    Já, m.a. upplýsingar um landeigendur og fasteignamat. Við skulum vona að þetta frumkvæði í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins verði til þess að það fé verði framreitt sem þarf lögum samkvæmt til þess að kaupa þær landareignir í einkaeigu sem eru á þessu svæði sem ráðherrann hefur fengið stuðning við í ríkisstjórn að verði lýst þjóðgarður. Við skulum vona það þó að hér sé gengið fram hjá þeim aðilum sem lögum samkvæmt er ætlað að véla um þetta efni, þ.e. Náttúruverndarráði sérstaklega sem samkvæmt gildandi lögum er algerlega gengið fram hjá í þessari tillögugerð.
    Virðulegur forseti. Mér finnst það hvernig að þessu er staðið ekki vita á gott um þá nýskipan sem hæstv. ráðherra er að innleiða í sambandi við friðlýsingarkafla laganna. Ég óttast, eins og hv. 14. þm. Reykv. nefndi, að það gæti verið að reynt yrði að hrista eina og aðra tillöguna fram úr ermi hjá ráðherrum sem vilja safna sér merkimiðum á ágæt mál hér og þar um landið, en gæta ekki að því að standa að því máli með þeim hætti sem auðvitað er nauðsynlegt og m.a. að tengja þetta skipulagi, sem virðist ekki vera mjög ofarlega í huga ráðherrans miðað við það að frv. til laga um skipulagsmál hefur ekki verið endurflutt á þinginu.