Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:41:06 (4798)


[17:41]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég fyrir mörgum árum fór að hafa afskipti og efla með mér áhuga um náttúruvernd, þá var það ekki síst vegna þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem þá var yngri maður en hann er núna, hafði kvatt sér hljóðs á vettvangi þjóðarinnar með bók um náttúruvernd, bók sem mun væntalega og heldur nafni hans á lofti. Þetta var góð bók sem reif til fylgis við náttúruverndarstefnu margt æskufólk eins og sjálfan mig. Og ég spyr sjálfan mig, virðulegi forseti: Hvað er orðið um þann mann sem skrifaði þá bók? Þegar í stól umhvrh. er sestur maður sem hann ef til vill gróðursetti fyrsta fræið í til þess að vinna náttúruvernd í landinu vel og þegar sá hinn sami tekur sig til eftir að Náttúruverndarráð og fleiri aðilar hafa árum saman haft á sinni stefnuskrá að stofna þjóðgarð á utanverðu Snæfellsnesi, en ekkert hefur gerst, og fær eftir ærið erfiði samþykki ríkisstjórnar til þess að hrinda því máli af stað, þá kallar hann það að safna merkimiðum um landið.
    Virðulegi forseti. Ég segi það bara að þessi málflutningur hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar er honum til vansa. Það er honum til vansa að ætla umhvrh. eða einhverjum öðrum sem er af góðum hug að reyna að vinna þessum málum vel að annarlegar hvatir liggi þar að baki. Það er nákvæmlega það sem þessi hv. þm. gerði hérna áðan. Aftur og aftur kom hann að því en þó skýrast með því að nota þetta orð ,,merkimiðar``. Og hann kom að því að sá ráðherra sem hérna stendur og er allur af vilja gerður til að efla náttúruvernd í landinu og þykist hafa sýnt örlítil merki um það er ekki að gera það af einskærum áhuga eða góðum vilja. Nei, virðulegi forseti. Hann er að safna sér merkimiðum. Hvers konar málflutningur er þetta og það frá þeim manni sem hefur staðið í fylkingarbrjósti náttúruverndar í landinu, sem hefur haft forgöngu um það á mörgum náttúruverndarþingum að koma fram með hugmyndir, m.a. um þjóðgarða þó að á öðrum svæðum sé? Góðar hugmyndir. Ekki ætla ég hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að einhverjar undarlegar hvatir liggi því til grundvallar að hann hefur góðu heilli aftur og aftur vakið athygli á því að til að mynda í hans kjördæmi eru fjölmörg svæði sem nauðsynlegt er að friðlýsa. Ég hef hingað til talið að bæði ég og hv. þm. stjórnuðumst af sömu hvötum, einlægum vilja til náttúruverndar. Ég er hissa á þessum málflutningi. Ég get ekki sagt annað.
    Það er alveg af og frá þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson heldur því fram að í því máli sem varðar þjóðgarð á Snæfellsnesi hafi verið gengið fram hjá Náttúruverndarráði. Hversu oft á ég að þurfa að tyggja upp aftur og aftur þann feril sem málið hefur farið í gegnum? Ég upplýsti hv. þm. um að hugmyndin að þessari tillögu sem var samþykkt í ríkisstjórninni kom fram í samtali mínu og formanns Náttúruverndarráðs. Ég man því miður ekki dagsetninguna. Þaðan er hugmyndin komin. Er það að hundsa vilja Náttúruverndarráðs? Ég skrifaði Náttúruverndarráði, og hv. þm. getur fengið afrit af því bréfi, á þjóðhátíðardag síðasta árs og spurði: Hvaða forgangsverkefni hefur ráðið?
    Breiðafjörður. Utanvert Snæfellsnes. Þetta kom fram í samtölum mínum við formenn og starfsmenn Náttúruverndarráðs oftar en einu sinni. Þetta mál hefur oft borið á góma. Hitt er rétt að ég hef ekki

mikla nennu til þess að sitja á mínum afturenda og skrifa skýrslur eða bíða eftir því að einhverjir aðrir skrifi skýrslur og samþykki tillögur. Ég bað um áætlun. Hún kom ekki. Þá hrinti ég málinu sjálfur af stað. Er eitthvað að því? Er það ekki bara það sem við viljum báðir? Ekki minnist ég þess að þegar hv. þm. sat í stóli iðnrh., þá hafi hann orðið frægur fyrir að gera ekkert annað en skrifa skýrslur og skýrslur. Hann kom mörgu góðu til leiðar eins og menn vita.
    Varðandi friðlýsingar og breytt friðlýsingarvald, þá segi ég: Það er einboðið þegar komið er umhvrn. með umhvrh., þá sé valdið hjá honum. Ekki bara staðfestingarvald eins og er í dag heldur geti hann haft frumkvæði að því. En ég vek athygli á því að það kemur mjög glögglega fram í frv. að Náttúruverndarráð, sem vettvangur hinna frjálsu félagasamtaka í landinu, getur komið með allar þær tillögur sem það vill. Og það er eðlilegt að Náttúrufræðistofnun Íslands komi að þessu máli. Eins og hv. þm. veit, hann sat í nefnd sem samdi lög um Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem henni er gefið aukið vægi og hún á að rannsaka náttúrufar Íslands, hefur engin stofnun innan stokks vísindalegt atgervi sem er betur í stakk búin til að mynda til að gera tillögur að friðlýsingu örvera, jurta eða dýra sem kunna að vera í bráðum háska eða jafnvel ekki einu sinni bráðum. Ég vil líka að það komi fram, virðulegi forseti, að hluti af þessum tillögum felst í því að Náttúrufræðistofnun, sem þessi ráðherra hefur unnið að því að efla og er að gera enn þá með tillögum sem hv. þm. á eftir að sjá, er auðvitað best í stakk búin til þess að lýsa náttúru Íslands. Henni ber að gera það. Það sem hefur skort á hjá Náttúruverndarráði vegna fjárskorts og mannfæðar er einmitt lýsingarþátturinn. Hann hefur legið eftir á hinum friðlýstu svæðum. Ég ætla mér með þessari verkaskiptingu að fá Náttúrufræðistofnun til þess að sinna honum. Þar eru þeir menn sem best þekkja, enda hefur þar verið gerður að forstjóra hámenntaður náttúrufræðingur sem ég veit að við hv. þm. Hjörleifur Guttormsson berum fullt traust til báðir.