Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:48:58 (4800)


[17:48]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega ekkert á þessu stigi málsins sem varðar þennan þjóðgarð sem segir það að Náttúruverndarráð verði sniðgengið. Ég vek athygli hv. þm. á því að það er umhvrh. sem samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar skipar formann þessarar nefndar og þangað til hann sér hver verður formaður þeirrar nefndar, þá held ég að hann ætti að spara sér hin stóru orð.
    Síðan mætti rifja það upp fyrir hv. þm. að það hafa áður verið gerðar tilraunir til þess að búa til þjóðgarð á einmitt þessu svæði fyrir mörgum árum. Þær strönduðu. Nú hefur þessi umhvrh. m.a. til þess að auðvelda málið rætt við hluta af landeigendum þarna sem voru erfiðir á sínum tíma og ekki síst vegna þess að úr þeim hópi komu jákvæð orð, þá var ráðist í þessa tillögugerð. Ég tel alveg nauðsynlegt að það komi hér fram. Síðan má líka geta þess að nú er þetta svæði breytt að því leyti til að það er innan eins sveitarfélags sem gerir þetta allt miklu betra.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, bara segja það að ef hv. þm. hefur þótt ég vera fullæstur í ræðu minni áðan, þá er það svo að mér þykir að mér vegið þegar frumkvöðull í náttúruvernd á Íslandi kemur í þennan stól og heldur því fram að mér gangi það eitt til með þessari tillögu að búa mér til merkimiða. Ég þarf engan merkimiða.