Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:50:29 (4801)


[17:50]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég hef fylgst með henni á þessu síðdegi og undraði mig kannski á því hversu hvöss hún varð á tímabili því ég er sannfærður um að þeir sem hafa um þetta mál rætt eiga það sameiginlegt að vilja sjá árangur í náttúruvernd og ýmsum þeim málum

sem að því lýtur í landinu.
    Ég get sagt það hér að í meginatriðum sýnist mér að þetta frv. sem hér er lagt fram sé eðlilegt framhald af því sem gerst hefur og mikilvægt í framhaldi af stofnun umhvrn. Mér sýnist að margt í frv. sé þess virði að fá þinglega meðferð og muni gera þessi mál markvissari í framtíðinni en þau hafa verið hingað til. Mér finnst því að hér sé lagt fram af hæstv. umhvrh. gott efni til umfjöllunar í nefndinni og vænti þess að þeir menn sem unna náttúru landsins og vilja sjá árangur nái saman um málið og það verði afgreitt á þessu þingi.