Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 18:05:03 (4804)


[18:05]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil af tilefni ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar segja það að ég hef ekki fundið þann þátt í þessu frv. sem lýtur að sérstakri styrkingu umhvrn. sem slíks. Ég flutti í upphafi míns máls í dag einmitt ádrepu um það hver nauðsyn það væri alveg sérstaklega að styrkja innviði umhvrn. þannig að það ráðuneyti geti orðið sú stjórnstöð í yfirstjórn umhverfismála með tengingu inn í aðra stjórnsýslu sem brýn þörf er á. Ég vakti athygli á því að við höfum einmitt séð að það skortir eðlilega talsvert á það að ráðuneytið í rauninni valdi því sem við þurfum að ná fram með störfum þess.
    Síðan bætist við þegar lesin er umsögn um fjármálaþátt málsins er þar ekki að finna neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þar á bara að halda áfram sömu sveltistefnunni. Þegar stórvaxandi þörfin er á að auka fjárveitingar til umhverfismála þá les fjmrn., án þess að athugasemdir séu við það frá hæstv. umhvrh., að það eigi að búa við hið sama og áður. Það er nú öll uppskeran.