Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 18:08:55 (4806)


[18:08]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég fagna þessu frv. og held að það horfi til bóta. Að vísu má finna sitthvað í því sem hægt er að reka hornin í en ég efast ekki um að það sé samið af góðum hug. Það eru miklir heimsvaldasinnar í umhvrn. og ég tel að þeir hafi gætt þess í þessu frv. að styrkja umhvrn. Það er þörf á því. Þetta er ungt ráðuneyti og sett upp í miklum átökum á Alþingi þar sem Sjálfstfl. barðist daga og nætur við að reyna að hindra stofnun þessa ráðuneytis, barðist um á hæl og hnakka og gekk svo langt að hæstv. núv. frú forseti Alþingis las upp bókina ,,Raddir vorsins þagna`` í efri deild til þess að reyna að tefja málið, ekki bara að fara með fallegan og góðan texta.
    Það er verið að búa hér til nýja stofnun undir umhvrn., Landvarsla ríkisins heitir sú silkihúfa, og það er ágætt í atvinnuleysinu því það eina sem dafnar í þessu þjóðfélagi er eftirlitsiðnaðurinn og þarna er verkefni fyrir allmarga ef vel er á haldið.
    Ég verð að játa að persónulega finnst mér Náttúruverndarráði enn þá falið helst til mikið hlutverk. Undanfarið hefur það starfað fyrst og fremst sem stimpilstofnun fyrir þá sem hafa viljað vinna hervirki á náttúrunni. En þá er komið upp til hliðar við Náttúruverndarráð öðru apparati og vonandi að það reynist betur en Náttúruverndarráð og gæti tekið við hlutverki þess þegar fram líða stundir. Ég vænti þess að hv. umhvn. líti vandlega á þetta mál og e.t.v. skilar hún um það einhverjum brtt. Væntanlega ekki 27 eins og síðasta frv. hæstv. utanrrh. --- umhvrh. --- Þetta er alveg dæmalaust, þetta er alveg dæmalaus forsögn. (Gripið fram í.) Mér er eiginlega ómögulegt að nefna hæstv. umhvrh. sínu rétta starfsheiti. Mér verður alltaf á að kalla hæstv. umhvrh. utanrrh. nema ég hugsi mig alveg sérstaklega um. Þetta hlýtur að vera ,,freudískt slipp.``
    En ég vonast eftir því að þetta frv. verði heldur til að laga ástandið og það er sannarlega ekki vanþörf á.