Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 13:41:34 (4812)


[13:41]
     Frsm. minni hluta samgn. (Jóhann Ársælsson):
    Hæstv. forseti. Með samþykkt þeirra afbrigða sem voru veitt hér áðan til að taka á dagskrá brtt. á þskj. 693 er verið að taka nýja hugmynd inn í breytingarnar á hafnalögum sem hafa verið til umfjöllunar lengi. Ég vil snúa mér til hæstv. forseta og fara fram á það að þessari umræðu verði frestað og að nefndin fái tækifæri til þess að ræða þetta mál og fara yfir það. Það hafa ekki farið fram neinar umræður í nefndinni um þá tillögu sem hæstv. ráðherra hefur nú lagt fyrir og ég óska eftir því að forseti svari því og ég fái síðan að fresta ræðu minni þangað til afgreiðslu þessa máls verður haldið áfram hér í þinginu eftir að nefndin hefur tekið til umfjöllunar þessa nýjustu tillögu.
    ( Forseti (SalÞ) : Það eru fleiri á mælendaskrá en hv. þm. hefur möguleika á að tala í annað sinn ef málinu verður frestað eða hvort sem er. Forseti vildi spyrja hv. þm. hvort hann þurfi þá að fresta ræðu sinni, hvort hann geti ekki lokið þessari ræðu.)
    Hæstv. forseti. Ég tel að það sé kannski ekki ástæða til að eyða tíma þingsins í það að ræða þetta mál. Ef umræðunni verður frestað, þá er tíma þingsins betur varið til annars en fara að ræða þetta mál áfram áður en nefndin tekur til starfa að nýju. Ég óska eftir því að fá svar við því hvort þessu máli verði frestað.