Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 13:43:58 (4814)


[13:43]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þessar athugasemdir hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, 3. þm. Vesturl., eru afskaplega óvenjulegar hér í þingsölum og satt að segja hef ég aldrei fyrr heyrt jafnástæðulausa beiðni fyrir því að fresta umræðum. Málið er alveg þrautrætt.
    Ástæðan fyrir því að þessi brtt. mín er flutt er sú að nú er rætt um að sameina sveitarfélögin á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal en áður hafði verið rætt um það þeirra á milli að stofna þar hafnasamlag og höfðu umræður farið fram á milli samgrn. og sveitarfélaganna þar um þetta efni. Ég hygg, hæstv. forseti, úr því að þessum hv. þm. er svo mjög í mun að drepa niður möguleikana fyrir því að hægt sé að semja við sveitarfélögin þar fyrir vestan um að þau megi njóta þeirrar sömu fyrirgreiðslu við sameiningu sveitarfélaganna eins og gert yrði ef um hafnasamband yrði að ræða, þá hygg ég að það sé alveg sjálfsagt nú meðan umræður halda áfram hér í dag um þetta mál, ég tók eftir því að það hafa afskaplega margir þingmenn stjórnarandstöðunnar kvatt sér hljóðs af þessu litla tilefni, að athuga það sérstaklega hvort nægilegar heimildir séu ekki fyrir hendi þó svo þessi brtt. sé tekin til baka. ( ÓRG: Til baka?) Ég sagði til baka. Ef þessi brtt. er svo flókin eins og mér heyrðist á flokksbróður hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að erfitt sé fyrir hann að skilja hana í einni svipan og það þurfi kannski að fresta málinu til haustsins til þess að hv. þm. geti skilið það, þá má vel vera að það sé ýmislegt annað í þessu frv. sem veldur því að ástæða sé til þess að lögfesta. (Gripið fram í.)
    En hér er um mjög einfalt mál að ræða. Ég hygg, hæstv. forseti, að það sé einsdæmi að jafnástæðulaus beiðni er fram sett. (Gripið fram í). Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er málþola nú og (Forseti hringir.) ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég er feginn því að hann skuli grípa svona fram í fyrir mér því að hann hafði ekki kvatt sér hljóðs og ég var hræddur um að fá ekki að heyra í honum í dag. Það eina sem ég mest óttast, hv. þm., er að hann tali ekki nægilega hátt til að þeir sem hlusta í viðtækjum sínum á heimilunum fái að heyra unaðsblíða rödd þingmannsins. En þeim til mikilla vonbrigða verð ég þó að segja að þó að röddin heyrist, þá verða áhorfendur samt sem áður að sætta sig við að sá sem hér stendur er ekki jafnvel greiddur og sá sem hér yrði ef hv. þm. væri hér í stólnum. Þannig er nú það mál vaxið. Má þó vera að einhvers staðar leynist greiða ef vel væri að gáð. (Forseti hringir.)
    Hæstv. forseti. Ég tel ástæðulaust að fresta þessari umræðu núna og legg áherslu á að henni megi ljúka hér í dag. ( Gripið fram í: Maður fer nú að kannast við gamla takta frá því ráðherrann var stjórnarandstöðuþingmaður.)