Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 14:02:13 (4817)


[14:02]
     Frsm. minni hluta samgn. (Jóhann Ársælsson) (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Mér þykir miður hvernig hefur tiltekist með stjórn fundarins í þessu efni vegna þess að ég taldi að það væri full ástæða til þess að nefndin fengi tækifæri til að fara yfir þessa brtt. og brtt. sé talin lítil þá er samt verið að leggja til að Hafnabótasjóður geti beitt sér í því að styrkja sveitarfélög til sameiningar og ég tel fulla ástæðu til þess að nefndinni sé gerð full grein fyrir því hvaða fjármunir eru í Hafnabótasjóði til þess að gera þessa hluti, með hvaða hætti eigi að standa að þessu. Það voru samþykkt afbrigði fyrir því að taka brtt. á dagskrá, og mér finnst að hér sé ekki nægilega vel að málum staðið. Að segja þingmönnum að það sé ekki ráðrúm eða tími til að nefndin geti komið saman svo það sé hægt að gera mönnum grein fyrir því hvað standi á bak við tillögu sem er dreift hér mínútunni áður en fundur hefst finnst mér ekki boðlegt. Ég vek athygli á því að allt þetta mál hefur gengið svona fram. Það er búið að leggja hér fram 30 breytingartillögur við málið og þegar á síðan að fara að ljúka við 3. umr. þá er komin brtt. í lokin og það er ekki einu sinni hægt að kalla nefndina saman til að ræða hana, það er ekki einu sinni haft samband við nefndarmenn um þessa brtt. Mér finnst þetta engin framkoma. Ég get sagt það alveg eins og er. Ég er ekki þar með að segja að ég komi ekki til með að samþykkja þessa tillögu að lokum. Það er ekki það sem um er að ræða. Svona eiga menn bara ekki að fara að við störf þingsins.