Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 14:06:38 (4819)


[14:06]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að viðbrögð þriggja aðila hér hafi verið ákaflega sérkennileg við þeirri sjálfsögðu og eðlilegu ósk að tími gæfist til að skoða efni brtt. sem lögð er fyrir í skyndingu rétt fyrir upphafi fundar og tekin á dagskrá með afbrigðum og er ekki einu sinni á prentaðri dagskrá þessa fundar. En þá ærist hæstv. samgrh. og ólmast mjög í ræðustólnum, vægast sagt úfinn í geði og á ég þá ekki við hárgreiðsluna heldur skapsmunina og hæstv. forseti hleypir svo að hér framsögu um brtt. án þess að hleypa þeim mönnum að sem beðið hafa um orðið um stjórn fundarins. Í þriðja lagi kemur svo formaður samgn. og segist neita því að boða til fundar í nefndinni. Síðan hvenær var það sérstakt hlutskipti formanna þingnefnda að koma í veg fyrir það að þær sinntu þinglegri meðferð mála? Ég spyr bara.
    Staðreyndin er auðvitað sú að það er fullkomlega eðlileg og réttmæt ósk að fá tíma til að skoða efni brtt. sem er lögð hér fram við upphaf umræðu, er ekki á prentaðri dagskrá fundarins því að þetta er þskj. 693 og leiti menn að því á dagskrá fundarins. Ef hæstv. forseti hefur fundið það þar þá þætti mér vænt um að hann sýndi mér hvar það stendur. Nei. Þegar þannig er í pottinn búið og tillagan býður upp á að spurt sé um hvað fyrir flutningsmanni vakir sem er í þessu tilviki hæstv. ráðherra sem er sömuleiðis óvenjulegt að við 3. umr. máls flytji hæstv. ráðherra óvænta brtt. af þessu tagi, þá tel ég það með öllu óeðlilegt að við stjórn fundarins og framgöngu bæði nefndarformanns og ráðherra sé komið svona fram. Ég lít á það sem eðlilega afleiðingu af breyttum starfsháttum hér á þinginu og einni málstofu Alþingis þar sem mál ganga eingöngu til þriggja umræðna að við sanngjörnum óskum af þessu tagi sé orðið. Og hvað liggur eiginlega á? Er ekki 8. mars í dag? Á að slíta þingi á morgun? Er hæstv. forsrh. ef til vill kominn í þannig að skap að það megi búast við honum hér upp í ræðustólinn hvenær sem er? Er það eitthvað slíkt sem rekur svona á eftir hæstv. samgrh.?
    Að lokum frábið ég mér svo útúrsnúninga um það að óskir um að þetta mál sé skoðað eigi eitthvað skylt við efnislega afstöðu manna til tillögunnar. Að sjálfsögðu er það allt annar handleggur hvort menn svo eru fylgjandi brtt. eftir að hafa fengið á því útskýringar hvað í henni felst. Og það væri ástæða til þess að fá almennt talað útskýringar hjá hæstv. ríkisstjórn hvert hún er að fara með alls konar skilyrðum um sameiningu sveitarfélaga svo sem eins og í sértækum ráðstöfunum gagnvart atvinnuvanda Vestfirðinga, þá eru hengdar þar einhverjar gulrætur eða þvinganir um sameiningu sveitarfélaga á spýtuna. Og það kemur aftur fram hér í þessari brtt. við hafnalög. Hvað er á ferðinni, hæstv. forseti?
    Ég ítreka þær óskir að umræðunni verði frestað og fer fram á að forseti úrskurði í því máli en hleypi mönnum ekki að til að flytja hér efnislegar ræður fyrr en forseti hefur tekið afstöðu til skýrra óska sem fram hafa komið.