Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 14:10:30 (4821)


[14:10]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Það er svolítið sérkennilegur málflutningur hv. þm. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar. Hann frábiður sig að talað sé efnislega um það mál sem hér liggur fyrir eftir að hann hefur sjálfur snúið út úr þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og sjálfur komið að málinu. Það lá alveg ljóst fyrir þegar hv. 5. þm. Suðurl., Guðni Ágústsson, kvaddi sér hljóðs fyrr á fundinum, þá var verið að ræða um málið sjálft, það var ekki þingskapaumræða, og þess vegna var óhjákvæmilegt að skilja beiðni hv. þm. um að taka til máls og hann var að óska eftir því að taka til máls í sjálfri efnisumræðunni eins og hæstv. forseti gerði og ósmekklegt og ómaklegt að vera að reyna að snúa út úr úrskurði hæstv. forseta í þessum efnum. (Gripið fram í.)
    Í þriðja lagi vil ég segja vegna þess að það hefur verið talin efnisástæða að fulltrúi Alþb. í samgn. sem heitir Jóhann Ársælsson, 3. þm. Vesturl., talaði um það áðan að nauðsynlegt væri að athuga í tengslum við þá brtt. sem ég flutti hvaða fjárhagslega bolmagn Hafnabótasjóður hefði til að svara þeim skuldbindingum sem í tillögunni fælust. Hv. þm. hlýtur þegar að hafa gert það því eins og ég gerði grein fyrir hér fyrr á þessum fundi þá er einungis verið að tala um það að þau sveitarfélög sem áður voru að hugsa um að stofna hafnasamband geti notið sömu fyrirgreiðslur úr sjóðnum þó svo að ekki verði úr stofnun hafnasambandsins heldur gengið beint til þess að viðkomandi sveitarfélög sameinist. Þetta mál hefur því sérstaklega verið rætt ítarlega í nefndinni. Ég get tekið sem dæmi Suðurfirði, þ.e. Patreksfjörður, Tálknafjörður, Bíldudalur. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hlýtur að hafa glöggvað sig á því máli. Ég get líka tekið byggðirnar norðar á Vestfjörðum, Flateyri og Þingeyri, þannig að allar þessar upplýsingar liggja glöggt fyrir og einungis útúrsnúningur að tala um að málið sé vitlaust fram lagt.