Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 14:20:52 (4828)



[14:20]
     Frsm. minni hluta samgn. (Jóhann Ársælsson) (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Forsetaembættið hefur þegar tekið ákvörðun að fresta þessu máli sem hér er á dagskránni. Við nefndarmenn vitum ekki hvort það er hægt að ná því fram að fá fund í nefndinni. Hv. formaður nefndarinnar hefur sagt að hann vilji ekki kalla nefndina saman. Ég segi alveg eins og er að ég held að menn ættu að teygja sig til sátta í þessu og hittast og sameinast um það að reyna að taka málið heldur aftur á dagskrá í dag og reyna að fara yfir það. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi ekki gefið fullnægjandi skýringar á því hvernig þetta mál liggur fyrir í stólnum. Það er heldur svo sem ekki tími til þess að gera slíkt. Ég ætla ekki að fara út í efnislega umræðu hér, ég hef spurningar sem ég óska eftir að hann svari nefndarmönnum áður en við tökum þetta mál fyrir aftur í þinginu og ég fer fram á það að hæstv. forseti beiti sér í því að kallaður verði saman fundur í nefndinni. Við munum auðvitað geta lagt fram skriflega beiðni um það, minnihlutaaðilarnir í samgn., en ég tel að það sé kannski betra að fara ekki fram með neinum þvingunum í þessu og menn hljóti að geta náð saman um það að halda þennan fund.