Jarðalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 14:49:57 (4831)


[14:49]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hér erum við að ræða um viðkvæmt atriði í EES-samningunum sem mikið voru til umræðu í fyrra, þ.e. að 380 millj. manna eiga nú sama rétt og við á Íslandi, m.a. til eignarhalds á landi. Við umfjöllun talsmanna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði var því lofað að sett yrðu girðingafrumvörp sem varðveittu einkarétt Íslendinga til þess að eiga land. Ég dró þá í efa að hægt væri að setja upp girðingu sem dygði varðandi jarðeignir á Íslandi. Nú liggur þetta frv. fyrir frá ríkisstjórninni og mér sýnist að þessi girðing sé gagnslítil. Bújarðir, hlunnindajarðir og náttúruperlur geta alveg tvímælalaust runnið í hendur útlendinga eins og fara gerir.
    Frumvarpsdrög voru á ferðinni í fyrra. Þar voru jarðir gerðar verðlausar, en þar voru reyndar settar upp strangari girðingar en mér sýnist vera í þessu frv. Þetta er breytt frv. frá upprunalegum drögum en

það er gagnslítið og engar tryggingar.
    Fyrst er það að sé land tekið úr landbúnaðarnotum, sem í mörgum tilfellum getur verið eðlilegt, þá þegar opnast nú ansi mikil gátt. Síðan er þetta með forkaupsrétt sveitarstjórnar. Það má telja fremur ólíklegt að sveitarstjórn sé þannig innstillt að hún treysti sér til að neyta forkaupsréttar að dýrustu jörðunum. A.m.k. sé ég það ekki fyrir mér í því kjördæmi þar sem ég þekki best til að sveitarstjórnir eða sveitarsjóðir hefðu bolmagn til að leysa til sín þær jarðir sem kunna að verða eftirsóknarverðastar. Það þarf líka að koma til vilji hjá sveitarstjórninni til að leysa til sín jarðir. Það er ekkert víst að hann sé fyrir hendi í hverri einustu sveitarstjórn. Það getur vel verið að einhverjar sveitarstjórnir telji heppilegt og gott að fá ríka útlendinga í sveitarfélagið hluta úr árinu og telji það bara af hinu góða.
    Það þarf ákvörðun sveitarstjórnar til þess að framselja forkaupsréttinn til Jarðasjóðs, en það tekur lítið betra við hjá Jarðasjóði því að sjóðurinn hefur a.m.k. fram að þessu verið peningalítill, er reyndar í landbrn. iðulega kallaður í hálfkæringi jarðarfarasjóður því að hann er ekki til neins og hálfdauður. Við þetta bætast svo þau viðhorf að hugsanlega sé Evrópskt efnahagssvæði á síðasta snúningi og búið að vera. Ef af inngöngu þeirra landa verður sem hafa staðið í samningum undanfarið, þá liggur það fyrir að Ísland og Liechtenstein halda ekki úti Evrópsku efnahagssvæði með Evrópubandalaginu og þá kann að vera að það sé ástæðulaust af þeirri ástæðu að breyta löggjöf miðað við Evrópskt efnahagssvæði. Við erum reyndar búin að gera það í mörgum greinum á Alþingi og höfum verið að afgreiða lög á færibandi þar um, en það kynni að vera ástæða til að hinkra aðeins við og sjá hvernig fer með Norðmennina, Svíana og Finnana og Austurríkismenn.
    Það sem fram undan virðist vera hjá okkur núna er að undirbúa samkvæmt sameiginlegri ályktun Alþingis tvíhliða samning við Evrópubandalagið og undirbúa okkur undir þá umræðu. Ég tel að við eigum að standa þannig að henni að við reynum að gera viðskiptahliðina að viðskiptasamningi. Síðan eigum við að reyna að finna einhverja viðunandi lausn á stofnanaþættinum. Það kann að vera nokkuð flókið en þó hafa komi fram hugmyndir, m.a. frá Birni Friðfinnssyni, sem sæti á í eftirlitsstofnun EFTA, um umboðsmann sem gæti tekið við a.m.k. verulegum hluta af verkefnum þess mikla fjölda sem búið er að byggja upp í stofnanaþættinum. Ég tel að við eigum að hugsa okkur um tvisvar. Náttúrlega er sjálfsagður hluti af slíkum tvíhliða samningi og það sem við þurfum að hafa á oddi er að reyna að endurheimta eitthvað af því fullveldi sem við afsöluðum með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Síðan eigum við að sníða löggjöf okkar að þessum tvíhliða samningi þegar við sjáum hvernig hann verður.
    Það hefur held ég komið rækilega í ljós og því skýrar með hverri vikunni sem líður að Evrópskt efnahagssvæði var mistök. Ávinningurinn sem fiskvinnslan taldi sér í þessum samningi hefur látið á sér standa fram að þessu. Fiskverðið féll, tollalækkunin skilaði sér náttúrlega ekki, enda var það ekkert nema barnaskapur að ímynda sér að hún mundi gera það því auðvitað gerir kaupandinn kröfu til þess að fá tollalækkunina í sinn hlut en líklega ekki seljandinn. Þar á ofan hefur hið siðlausa innflutningsbann Frakka orðið okkur til mikils miska og sannaðist að ekkert hald var í aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði til þess að fá því aflétt. Það voru Bandaríkjamenn sem hafa fengið tilslökun á því, ekki stofnanir Evrópsks efnahagssvæðis. Það hefur orðið okkur að stórtjóni og ekki séð fyrir endann á því.
    Frú forseti. Ég lít svo á að með þessu frv. sé ekki girt fyrir þannig að fullnægjandi sé. Það er allt galopið þrátt fyrir að frv. verði lögfest og ég held að við eigum að hinkra við og þetta mál fari til landbn., hún geti hugleitt það vandlega og lofað því að liggja í nefndinni þangað til útséð er um hvernig fer með Evrópskt efnahagssvæði, hvort það heldur áfram að lifa eða ekki.