Sjávarútvegsskóli

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 15:09:01 (4833)


[15:09]
     Flm. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um stofnun sjávarútvegsskóla sem er 142. mál þingsins á þskj. 157. Flm. þáltill. eru sá sem hér stendur og hv. þm. Halldór Ásgrímsson. Till. hljóðar svo með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa sameiningu Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði, Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands í einn sjávarútvegsskóla á framhaldsskólastigi. Skal undirbúningurinn miða að því að skólinn verði til húsa í Sjómannaskólanum í Reykjavík. Stefnt skal að því að skólinn taki til starfa haustið 1994.``
    Þáltill. þessi hefur áður verið lögð fram á þingi eða á 116. löggjafarþinginu en fékkst þá ekki útrædd og er því aftur lögð hér fram. Síðan tillagan var fyrst lögð fram, þá veit ég að að þessu máli hefur verið unnið hjá hæstv. menntmrh. og hæstv. sjútvrh. þar sem þeir hafa skipað nefnd til þess að gera tillögur um það hvernig sjávarútvegsfræðslunni í landinu skuli fyrir komið. Sú nefnd er nú að störfum og eftir því sem ég veit best eru að mörgu leyti mjög svipaðar hugmyndir uppi í nefndinni og till. þessi til þál. gerir ráð fyrir. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem að þessu máli er unnið því í janúar 1986 komu þáv. menntmrh. og sjútvrh. sér saman um að skipa fjögurra manna starfshóp um sjávarútvegsskóla sem hefði það hlutverk að gera tillögur um hvernig sjávarútvegsfræðslunni í landinu skyldi fyrir komið. Meginniðurstöður starfshópsins frá 1986 eru eftirfarandi, með leyfi forseta:
    Í fyrsta lagi var gert ráð fyrir því að stofnaður yrði sjávarútvegsskóli í Reykjavík er taki við hlutverki Stýrimannaskólans, Vélskólans og Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði.
    Í öðru lagi að gildandi lögum um sjávarútvegsfræðslu verði breytt og sett rúm rammalöggjöf er veiti svigrúm fyrir breytilegt námsframboð í takt við þróun atvinnulífs og þarfir einstakra greina sjávarútvegsins.

    Í þriðja lagi að sjávarútvegsskólinn fái til umráða húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands og hið nýja verknámshús Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði.
    Í fjórða lagi að kannað verði vandlega hvort stefnt skuli að því að sjávarútvegsskólinn starfi í þremur önnum, þ.e. haustönn, vetrarönn og sumarönn og starfi þannig árið um kring.
    Núverandi skipulag sjávarútvegsfræðslunnar er þannig að þessir skólar allir heyra undir menntmrn. og starfa allir sem sjálfstæðar stofnanir en í litlum tengslum og í litlu sem engu samstarfi sín á milli þó svo að í mörgum tilfellum og sérstaklega er snýr að Vélskólanum og Stýrimannaskólanum í Reykjavík þá eru þessir skólar í sama húsinu.
    Það hefur orðið verulegur samdráttur í nemendafjölda Vélskólans og Stýrimannaskólans síðustu árin. Á níu árum hefur nemendum þessara skóla fækkað um helming. Skýringar á þessari þróun eru væntanlega margþættar. Nemendum hefur fækkað í hverjum árgangi og áhugi fyrir bóknámi er almennt meiri en fyrir verknámi. Fjölbreytileiki náms á framhaldsskólastigi hefur aukist verulega og jafnframt samkeppni um nemendur.
    Kennsla við Stýrimannaskólann í Reykjavík og Vélskóla Íslands í Reykjavík fer fram í húsakynnun Sjómannaskólans. Húsnæðið er því stórlega vannýtt sem stendur. Auk þess er kennsla skólanna tveggja algjörlega aðskilin, þó svo að almennar námsgreinar séu 30--45% námsefnis þeirra. Samræming þessa hluta námsins gæti bætt nýtingu hússins og kennslukrafta verulega. Sama máli gegnir um húsnæði fyrir stjórn skólanna sem er algjörlega aðskilið. Sameiginleg stjórn gæti enn bætt nýtingu húsnæðisins og einnig dregið verulega úr kostnaði við rekstur þessara stofnana.
    Þessi þáltill. felur það í sér að lagt er til að sjávarútvegsskólinn heyri undir menntmrn. enda verði hann sérskóli á framhaldsskólastigi. Menntmrh. skipi sérstaka skólanefnd fyrir skólann, skólanefnd sem marki stefnu í skólahaldinu og ákveði námsframboð að fengnu samþykki menntmrn.
    Á bls. 5 í þáltill. og fskj. hennar er gert ráð fyrir ákveðnu skipulagi fyrir sjávarútvegsskólann þar sem yfirstjórnin sé í höndum menntmrn. Til hliðar við menntmrh. sé starfandi fræðsluráð sem gerir tillögur um námsframboð, menntmrh. skipi skólanefnd og sérstakur skólastjóri stjórni stofnuninni í heild sinni. Gert er ráð fyrir að Vélskólinn og Stýrimannaskólinn starfi sem sérstakar deildir innan þessa skóla og sama gildi um fiskvinnsludeild. Einnig er gert ráð fyrir því að fiskeldisdeild verði starfandi við stofnunina sem og endurmenntunardeild en hún er í dag ekki til í þessum skólum. Aftur á móti er sérstök nefnd starfandi á vegum sjútvrn. sem heitir starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar og hefur því hlutverki að gegna að vera endurmenntunardeild fyrir sjávarútveginn í heild. Það er gert ráð fyrir því í þáltill. að þessi starfsfræðslunefnd færist undir stjórn skólans.
    Gera má ráð fyrir að sjávarútvegsskóli sem ein stofnun verði sterkari eining en þrír minni skólar og þar af leiðandi betur í stakk búinn til að takast á við verkefni sín. Sérstaklega má nefna þróunarstörf við endurnýjun námsefnis og skipulag nýrra námsbrauta.
    Ætla má að betur verði séð fyrir fjárveitingum til skólans njóti hann óskipts stuðnings allra hagsmunaaðila.
    Líklegt er að styrkur og atkvæðamikill sjávarútvegsskóli muni almennt njóta meira álits en minni sérskólar og verða fýsilegri kostur efnilegum nemendum en verið hefur.
    Virðulegur forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.