Skipun nefndar til að kanna útlánatöp

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 15:51:08 (4836)


[15:51]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé töluverð þörf á því að frv. sem þetta sem nú er rætt komi fram. Við það hef ég ekki aðrar athugasemdir að gera en að mér finnst óljóst til hversu margra ára sú könnun sem hér er farið fram á á að taka og vil þess vegna benda hv. þm. á að um það eru nokkrar upplýsingar sem komið hafa fram í þinginu og aðrir þingmenn hafa fengið svör við ýmsum spurningum um hvernig þessi töpuðu útlán hafa vaxið. Í greinargerð hv. 10. þm. Reykv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fram til ársins 1990 virðast útlánatöp íslenskra lánastofnana hafa verið heldur lítil borið saman við önnur lönd (sjá töflu 1 í fylgiskjali).`` En á þskj. 24 lagði ég fram í október í vetur fsp. sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvert var tjón ríkissjóðs, ríkisbanka og sjóða í eigu hins opinbera vegna gjaldþrota á árunum 1990, 1991 og 1992?``
    Ég fékk svar við þessu eftir margra mánaða bið. Það liggur því fyrir að það eru fyrst og fremst þessi ár frá 1990 sem ástæða er til að skoða verulega þó að vissulega mætti fara lengra aftur í tímann. Ég held að það sé næstum ógerlegt og af nógu að taka síðan. Í svari hæstv. fjmrh. við fsp. minni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Upplýsingar um afskriftir opinberra gjalda er að finna í tekjubókhaldi ríkisins. Sundurliðun þeirra er þó háð nokkrum takmörkunum. Það var ekki fyrr en á síðasta ári að innheimtumenn hófu með skipulögðum hætti að greina kröfurnar eftir tilefni taps. Fram til þess tíma liggja ekki fyrir handhægar upplýsingar um tapaðar kröfur ríkissjóðs vegna gjaldþrota sérstaklega. Þá er ekki mögulegt að flokka afskriftirnar eftir fyrirtækjum eða eftir gjaldþroti nema yfirfara bókhald hvers innheimtumanns og greina það sundur. Slík athugun yrði dýr í framkvæmd og tafsöm.``

    Það er reyndar afar sérkennilegt að sjá texta eins og þennan í svari frá sjálfum hæstv. fjmrh.
    Nú er mér ljóst að töp þurfa ekki endilega að vera bundin gjaldþrotum en gríðarlegt fé hefur tapast vegna þeirra. Og sem dæmi um það leyfi ég mér að nefna, af því að ekki hefur farið fram umræða um þetta svar, að hér er um að ræða heildartap vegna gjaldþrota eingöngu hjá ríkisbönkum og opinberum sjóðum um 14 milljarða þessi þrjú ár. Þetta er auðvitað alveg óhugnanlegt. Þetta er hærri upphæð en fjárlagahallinn. Með leyfi hæstv. forseta vil ég upplýsa að beinn kostnaður ríkissjóðs af gjaldþrotum er árið 1990: Ríkisábyrgð á launum vegna gjaldþrota 195 millj., árið 1991 490 millj. og 1992 137 millj. Ábyrgðasjóður launa í gjaldþrotum er eðlilega enginn 1990 og 1991 en 360 millj. árið 1992. Kostnaður innheimtumanna er árið 1992 46 millj. eða samtals árin 1990, 1991 og 1992 195 millj., 490 millj. og 543 millj. Síðan kemur skipting afskrifaðra og tapaðra útlána vegna gjaldþrota og þá fara tölurnar að hækka. Þar er hægt að sjá sundurliðað að þar er um að ræða landbúnað og loðdýrarækt, fiskeldi, sjávarútveg, iðnað og verktaka, þjónustu og samgöngur, annað og óskylt eins og það heitir. Þar er samtalan árið 1990 1 milljarður 484 millj., 1991 3 milljarðar 444 millj. og 1992 3 milljarðar 944 millj. Þetta er alveg skelfilegt á að horfa. Síðan segir hæstv. fjmrh. í niðurstöðu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Af upplýsingum hér að framan má ætla tjón ríkissjóðs, ríkisbanka og sjóða í eigu hins opinbera vegna gjaldþrota hafi numið rúmlega 2 milljörðum kr. árið 1990, allt að 5,5 milljörðum kr. árið 1991 og allt að 7 milljörðum kr. árið 1992.`` Síðan segir: ,,Áhersla er lögð á að óvarlegt er að draga sterkar ályktanir af þessum niðurstöðum þar sem talnagrunnurinn er veikur og um er að ræða endanlega afskrifaðar kröfur vegna gjaldþrota sem áttu sér stað allöngu áður.``
    Þetta er aðeins gjaldþrotahlutinn. Þegar menn spyrja sig í forundran: Hvernig má þetta vera? hver ber ábyrgð? þá er svarið eiginlega ekkert. Það kemur fram í upplýsingum frá hæstv. fjmrh. að yfirgnæfandi hæstar tölur vegna gjaldþrota eru í fiskeldi. Það kemur líka á óvart að landbúnaður og loðdýrarækt er mjög lítill hluti. Hér á hinu háa Alþingi er gjarnan talað eins og um sambærilega hluti sé að ræða. Því fer fjarri. Sjávarútvegurinn er ekki hálfdrættingur á við fiskeldið. Hins vegar kemur á óvart að iðnaður og verktakar eru heilar 980 millj. árið 1992 í töpum vegna gjaldþrota. Það má því ýmislegt út úr þessum upplýsingum lesa og ég vil mælast til að nefnd sú sem frv. gerir ráð fyrir, ef hún verður að veruleika, styðjist við þær upplýsingar sem þó liggja fyrir.
    Hitt er annað mál að staðreyndin er sú og það þekkjum við í hv. fjárln. að upplýsingar af þessu tagi eru ekkert aðgengilegar. Um það hefur þess vegna staðið stríð að fá ríkisreikning þannig útbúinn að hann sé samlæsilegur við fjárlögin og skýrslur opinberra sjóða en því fer fjarri að svo sé. Mín skoðun er sú að hér hafi oft á tíðum verið um misbeitingu valds að ræða og alls kyns hagsmunagæslu.
    Þá erum við komin að allt öðru sem er þó nátengt þessu og það er að auðvitað er það fjarri öllu lagi að hv. alþm. sitji í stjórnum opinberra sjóða og bankaráðum. Þar eiga þingmenn ekki að vera. Það er alveg ljóst að það er alltaf pressa á hv. alþm. sem sitja í slíkum stjórnum að útvega peninga, eins og það heitir, heim í kjördæmin, til alls kyns þrýstihópa og það er áreiðanlegt að fæstir hv. alþm. standast þá raun. Þess vegna held ég að það þyrfti að gera miklu meira en þetta frv. gerir ráð fyrir og er ekki hægt að ætlast til að það rúmist allt í því. En ef um einhverja tiltekt ætti að vera að ræða í því litla samfélagi sem við búum í, þá þyrfti að taka á öllu peningakerfi þjóðarinnar eins og það leggur sig því að meðferðin á fjármunum á Íslandi er með hreinum ólíkindum.
    Það er nefnilega, hæstv. forseti, engin kreppa á Íslandi. Það er bara þvættingur. Menn moka gullinu upp úr sjónum þessa dagana, meira en þeir geta heim borið og það er ekki að við þénum ekki nóg. Vandamálið er hvernig er með fjármunina farið. Höfuðborgin er gott dæmi um það. Heilu hverfin eru full af galtómu iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði og einhverjum skrauthöllum sem byggðar hafa með verið meira og minna fyrir opinbert fé og enginn hefur minnstu þörf fyrir.
    En það er erfitt að komast að þessum hlutum og ég hygg að þessi nefnd sem yrði skipuð ef svo ólíklega vildi til að þetta frv. næði fram að ganga, sem ég er ekki tilbúin til að vera bjartsýn á, yrði ekki of sæl af því að komast í bækur þessara ágætu fyrirtækja. Því svo undarlegt sem það má vera, þá þekkjum við mörg dæmi um að það er hellt milljónum hvort sem er til landsfjórðunga, einstakra byggðarlaga eða eintaklinga án þess að svo sem mikið biðja um að fá að sjá bókhaldið þannig að menn hafa ekki nokkra einustu tryggingu fyrir því að þessir peningar verði notaðir í það sem þeir áttu að notast í. Upplýsingar hafa komið fram í blöðum um að opinbert fé upp á hundruð milljóna hafi runnið beint í hlutafjárkaup, hvort sem er í Eimskipafélagi Íslands, Olís eða einhverju ábatavænlegra en fiskvinnsla og útgerð virðist vera orðin og skal nú enginn segja mér það nokkru sinni að sú iðja sé hætt að borga sig.
    En víst er það að þetta frv. er tilraun til þess að ná einhvers staðar utan um það sukk sem á sér stað í fjármálum þjóðarinnar sem með hverjum mánuði færast á æ færri hendur. Og vil ég nú minna á af því að hér situr að venju hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson, að ég man ekki betur en það sé aðeins ár síðan að við leyfðum okkur að halda því fram hér að sala á Skipaútgerð ríkisins yrði fljót að renna í hendur þeirra sem peningana hefðu. Nú blasir við okkur í dagblöðum landsins að Samskip skuldar hálfan milljarð en afkoma Eimskipafélags Íslands er með afbrigðum góð og græða þeir nú að sama skapi, enda þegar búnir að taka yfir mikinn hluta þeirra verkefna sem Samskip, hið nýja fyrirtæki, átti að hafa. Svo geta menn sett spurningarmerki við það hver gætir hagsmuna hverra í íslensku athafnalífi. Ég vildi að ég gæti sagt það hér að Alþingi gæti hvítskúrað sig af þeirri hagsmunagæslu. Ég er hrædd um að svo sé ekki og

er langt í frá.
    Ég þakka þess vegna þeim hv. þm. Kvennalistans fyrir að hafa lagt frv. fram. Ég minni á þær upplýsingar sem þó liggja fyrir á þskj. 493, sem er svar við 24. máli þingsins. Það tók nú tímann sinn að berja það saman með afsökunum um að það sé þó ófullkomið en það liggja þó fyrir upplýsingar um litla 14 milljarða sem íslenskt alþýðufólk er búið að þræla fyrir og er svo tapað vegna gjaldþrota. Sú þjóð sem hefur efni á þessu býr ekki við neina sérstaka kreppu. Það segir sig sjálft að peningar hverfa ekki, 14 milljarðarnir eru þar sem þeir voru fluttir. Þeir eru ekkert horfnir.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, frú forseti, en ég mun gera það sem ég get til að þetta frv. nái fram að ganga.