Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 16:18:19 (4840)


[16:18]
     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Samgn. kom saman meðan hlé var gert á umræðu um frv. til hafnalaga til þess að fjalla um tillögu sem lögð var fram af hálfu hæstv. samgrh. Eftir nokkra athugun varð nefndin sammála um að leggja til að flytja svohljóðandi brtt. sem er á þskj. 695, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,4. tölul. 1. mgr. 33. gr. orðist svo: Sjóðnum er heimilt að veita sérstaka styrki umfram það sem segir í 3. tölul. til að greiða fyrir stofnun hafnasamlaga og vegna hafnarframkvæmda þar sem sveitarfélög eru sameinuð, enda sé um tvær eða fleiri hafnir að ræða í hinu nýja sveitarfélagi.``
    Með þessum hætti er að dómi nefndarinnar nokkuð skýrar kveðið á í brtt. heldur en var í tillögu hæstv. ráðherra og er ekki ástæða til að hafa um það fleiri orð annað en það að nefndin stendur sem heild að þessari tillögu.