Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:10:41 (4846)


[17:10]
     Frsm. minni hluta samgn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég varð fyrir því óláni að tapa fyrri ræðu minni í orðaskiptum í dag og verð því að nota tímann til andsvars til að fara yfir þessar athugasemdir hv. 1. þm. Vesturl. og ætla þess vegna, af því að tíminn er stuttur, að byrja á því sem hann talaði um síðast, þ.e. upptökumannvirkin og það að við skulum leggja til að 26. gr. í lögunum verði óbreytt. Vil ég leggja til að þetta verði eins og það hefur verið vegna þess að við erum með í höndunum fjölmörg mótmæli frá sveitarfélögum allt í kringum landið vegna þessara breytinga og það er full ástæða til þess að taka tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið fram og að skoða þetta mál mikið betur heldur en hefur verið gert. Um það að ég skuli setja mig gegn því að styrkur til upptökumannvirkja skuli vera hækkaður og þar sem hv. þm. vísaði til þess að ég væri frá Akranesi og þar væri kannski von til að menn fengju peninga út á þetta, ætla ég bara að segja það að mér finnst það undarlegur hlutur að á sama tíma og sumir eru að halda því fram að hér sé of mikið af upptökumannvirkjum og skipasmíðastöðvum, þá skuli menn renna sér af stað með þá hugmynd í Alþingi að auka styrk til upptökumannvirkjanna. Ég held að það sé ekki endilega tími til þess að gera þá hluti núna. Hins vegar held ég að menn mættu styrkja skipasmíðastöðvarnar með mörgum hætti og ekki verri aðferðum en hér er lagt til.
    Hv. þm. talaði um það að við ráðherraskipti hefði þurft að halda í einhvern stöðugleika og þess vegna ætti ráðherra bara að skipa tvo en ekki formanninn. Ég tel að ef ráðherrann á annað borð á að hafa einhver áhrif á það starf sem er verið að vinna í stjórn þessa sjóðs þá sé kannski eðlilegast að það sé formaðurinn sem hann skipi og sé hans hægri hönd.