Fjárframlög til stjórnmálaflokka

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:52:35 (4856)


[17:52]
     Flm. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir að taka undir þetta. Hann gagnrýnir að vísu að ég skuli hafa sett í tillöguna að í þessari nefnd séu jafnframt fulltrúar frá háskólanum. Ég taldi það rétt miðað við það hvernig þessum málum hefur verið varið undanfarin ár og m.a. það að ekkert hefur í raun og veru gerst í þessum málum í níu ár frá því þau voru til umræðu á þinginu. Í framhaldi af því, eins og ég sagði áðan, var kosin milliþinganefnd sem skilaði af sér frv. Í henni áttu eingöngu sæti fulltrúar flokkanna sem þá sátu á þingi, það var sjö manna nefnd. En það var ekkert gert með það frv. Ég hygg að aðallega hafi ágreiningurinn stafað af hvernig fara skyldi með ýmis fjárframlög. Ég hef einnig lagt til að í nefndinni skuli vera fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Þannig taldi ég tryggt að þó ríkisstjórninni væri falið að skipa nefndina væru í henni fulltrúar allra flokka en hún væri ekki bara skipuð, eins og hv. þm. sagði áðan, fulltrúum frá stjórnarliðunum. Að sjálfsögðu tek ég undir að það er algjörlega ófært að fara þannig að.
    Það var eftir nokkra skoðun sem ég taldi að það væri eins gott að ríkisstjórninni væri falið þetta og að Alþingi skipaði nefndina. En að sjálfsögðu getur það allt saman skoðast í allshn. hvernig mönnum sýnist að með þetta sé best að fara. Tillagan er til umræðu og hægt að breyta nefndarskipun ef mönnum sýnist það fara betur.
    Eins og við vitum þá eru þingflokkar hér á landi styrktir með framlögum á fjárlögum. Framlögin voru hækkuð umtalsvert og einnig gerð breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt fyrir síðustu jól. Það er raunar ekki alveg rétt að það sé ekkert til í lögum um fjárframlög íslenskra aðila til stjórnmálaflokka. Það eru til lög um sérfræðilega aðstoð við þingflokka, lög nr. 56/1971, og síðan, eins og ég sagði, sú breyting sem gerð var núna á lögunum um tekju- og eignarskatt rétt fyrir jólin þar sem framlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka eru gerð skattfrjáls.
    Það er annars mjög misjafnt hvernig fjárframlögum af opinberu fé til stjórnmálaflokka er háttað í ýmsum löndum. Nefndin sem séð hefur um skiptingu framlaga til þingflokka hér gerði athugun á því hvernig þessum málum væri háttað í nokkrum löndum Evrópu árið 1989. Þá kom í ljós að styrkur er veittur bæði þingflokkum og stjórnmálaflokkum og ekki alls staðar gert að skilyrði að flokkar eigi menn á þingi heldur fer þá styrkurinn eftir fjölda atkvæða í síðustu kosningum. Til stjórnmálaflokka í Finnlandi er gert að skilyrði að rúm 8% fari til starfsemi kvenna innan flokkanna. En á Íslandi er ekki um styrki til stjórnmálaflokka að ræða og sker Ísland sig þar úr hinum Norðurlöndunum þar sem aðeins er um styrki til þingflokka að ræða. Það er einnig athyglisvert að þingflokkar stjórnarandstöðu í Þýskalandi t.d. fá viðbótarstyrk sem nemur 25% af grunnupphæðinni og 7% viðbót af framlagi á hvern þingmann.
    Á grundvelli þeirra upplýsinga sem koma fram í þessari skýrslu nefndarinnar er ljóst að Ísland sker sig frá þessum löndum hvað varðar að viðurkenna mikilvægi stjórnmálaflokka með því að tryggja starfsemi þeirra með framlögum af opinberu fé. Hér hafa ekki enn verið teknir upp styrkir til stjórnmálaflokka þó slíkt sé talið eðlilegt í löndunum í kringum okkur. Öll Norðurlöndin veita beina styrki til stjórnmálaflokka jafnframt því sem þau styrkja starfsemi þingflokka og blaðaútgáfu. Hér á landi er veittur styrkur til blaðaútgáfu samkvæmt tillögu stjórnskipaðrar nefndar, veitt sérfræðiaðstoð til þingflokka í formi fjármuna og heimild er til að kaupa allt að 100 eintök af dagblöðum eða málgögnum þingflokka.
    Virðulegur forseti. Mikil undirbúningsvinna hefur farið fram hvað varðar setningu löggjafar um fjárframlög til stjórnmálaflokka eins og ég hef rakið bæði í minni fyrri ræðu og núna. Það þarf að ljúka þeirri vinnu með því að koma betri skipan á þessi mál heldur en nú er. Þess vegna tel ég að samþykkt þessarar tillögu sem hér er lögð fram væri spor í rétta átt.