Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 18:13:17 (4859)


[18:13]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir flest allt það sem hv. þm. sagði þegar hann mælti fyrir þáltill. en vil þó minna á það, þar sem í tillögunni er vitnað í greinargerð til samþykktar tillögu frá Guðmundi H. Garðarssyni á 113. löggjafarþingi, að á 115. löggjafarþingi var einmitt lagt fram frv. til laga sem gekk í þessa veru. Það var frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Flm. frv. var Kristín Sigurðardóttir, varaþingkona sem þá sat á þingi ásamt öðrum þingkonum Kvennalistans. Það frv. er í raun og veru það sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er að leggja til nú að verði gert því í frv. segir, með leyfi forseta, að 1. gr. verði svohljóðandi:
    ,,Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna [um tekjuskatt og eignarskatt] bætist nýr töluliður er verði 1. tölul. og orðist svo:
    1. Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til viðurkenndra lífeyrissjóða.``
    Í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt er 30. gr. um frádrátt frá tekjum og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Frá tekjum manna samkvæmt II. kafla laga þessara, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má draga:`` --- Við greinina sem ég var að lesa upp áðan bætist þá nýr töluliður og þar standi: ,,Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til viðurkenndra lífeyrissjóða.``
    Það þarf því ekki annað að gera til þess að koma þessari tvísköttun lífeyrisgreiðslna af en að dusta rykið af þessu frv. frá því á 115. löggjafarþingi og samþykkja það eins og það er því frv. gengur akkúrat í sömu átt og hv. þm. var að leggja til.
    Í grg. með því frv. eru tilteknar nokkrar ástæður þess að fremur er valið að hafa skattfrelsi við myndun lífeyrissjóðsins, þ.e. af þeim 4% sem sjóðfélagar greiða, m.a. sú að ekki muni allir sem greiða í lífeyrissjóð fá greiðslur úr honum aftur. Svo er spurning um hvernig fer með lífeyrissjóðina. Við vitum að staða þeirra er erfið og það er spurning hvernig verður með þá eftir nokkra áratugi, hvort þeir verði jafnvel til eða hvort breyting verði á sparnaði. Þá er einnig nefnt að betri nýting persónuafsláttar á efri árum sé vegna nokkuð lægri tekna þá.
    Það eru því mörg atriði sem benda til þess að það sé mun hagstæðara og eðlilegra að þetta skattfrelsi komi strax þegar iðgjaldið er tekið af launum.
    Á þetta vildi ég minna og ekki hvað síst vegna þess að í þessu frv., sem er 37. mál á 115. löggjafarþingi, er einmitt líka vitnað í þá ályktun Guðmundar Garðarssonar sem var samþykkt á 113. löggjafarþingi eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson gerir í sinni þáltill.