Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 18:23:25 (4862)


[18:23]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls og lýst stuðningi sínum við þáltill. Eins og ég gat um í upphafi máls míns er sú skattalega meðferð sem iðgjaldagreiðslur og útgreiðslur í lífeyrissjóðum hafa fengið í hæsta máta óeðlileg og vissulega nauðsyn á að breytt sé. Því er ekki að neita að oftar en ekki hefur komið upp sú hugsun hvort ekki væri rétt að létta af löggjafanum með ákvarðanatöku varðandi þessa tvísköttun og ganga svo frá kjarasamningum við vinnuveitendur að þau 10% sem greidd eru í lífeyrissjóðina séu alfarið þeirra. Eins og menn vita er 6% iðgjald atvinnurekandans ekki skattlagt og til að komast fram hjá þessari skattalegu mismunun og þeirri óeðlilegu skattaaðferð sem beitt er væri þetta möguleiki til að komast fram hjá löggjafanum. Verkalýðshreyfingin hefur hins vegar ekki tekið á því máli með neinum hætti og hefur verið í biðstöðu í þeirri von að löggjafinn taki sér tak og gangi svo frá málum að ekki sé slík óáran viðhöfð varðandi þennan sparnað lífeyris eins og ég gat um áðan.
    Ég endurtek þakkir til þeirra sem hér hafa tekið til máls og lýst stuðningi við þetta mál og vona, eins og þeir sem hafa líka talað úr þessum stóli, að þetta mál fái skjóta afgreiðslu á hinu háa Alþingi.