Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 18:36:29 (4864)


[18:36]
     Flm. (Gísli S. Einarsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um notkun steinsteypu til slitlagsgerðar. Ég vil byrja á því að þakka meðflm. mínum, hv. þm. Kristínu Einarsdóttur. Guðjóni Guðmundssyni, Árna R. Árnasyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, Svavari Gestssyni og Jóhanni Ársælssyni, fyrir að vera með mér í þessu máli og ég þakka þeim góða umfjöllum og hvernig málið var unnið í þeirra þingflokkum. Ályktunin sjálf kveður á um það að fela samgrh. að beita sér fyrir aukinni notkun steinsteypu til slitlagsgerðar þar sem álagsumferð er meiri en 5 þús. bílar á dag, jafnframt til brúargerðar og á vegi við þéttbýli þar sem umferð er 5--8 þús. bílar á sólarhring og meira. Vegagerð ríkisins hafi að markmiði við nýlagningu og endurnýjun slitlags að nota steinsteypu þar sem umferðarþungi og álag er mikið.
    Virðulegur forseti. Íslenskt --- já takk hefur verið viðkvæði á undanförnum vikum. Þetta er viðkunnanlegt og þyrfti að festast þannig að menn skoði og athugi íslenskt áður en verslað er, hvort heldur er úti á landi, í heimabyggð eða í höfuðstaðnum.
    Ríkissjóður og ýmsir aðilar hafa stutt þetta átak og ber að þakka það. Ætla mætti að þeir sem standa að svona átaki héldu það í heiðri. En því miður er það svo að jafnvel þeir sem næst átakinu standa kaupa óhikað og að óathuguðu máli erlendar vörur og jafnvel dýrari á sama tíma og viðkomandi aðilar óska eftir kaupum á sinni eigin vöru. Þessu verður að breyta.
    Ég ætla að segja hér frá dæmi sem er satt og rétt. Það hefur gengið yfir alda breytinga á verslunum bakaría og a.m.k. sjö bakarí í Reykjavík hafa keypt fullbúnar verslanir frá Þýskalandi og státa af því að vera með glæsilegt ,,konditorí`` eins og það er kallað.
    Hörður Pálsson bakarameistari á Akranesi hugðist fylgja tískunni og setja upp verslun með kaffiaðstöðu, borðum, stólum og þess háttar. Hann var nærri fallinn í sömu gryfju og aðrir að ganga inn í erlent tilboð af því að allir hinir gerðu það. En hann ákvað þó að kanna hvort Íslendingar gætu smíðað svona verslun og réðu ef til vill við áætlað verð. Það er skemmst frá því að segja að Hörður Pálsson fékk sína verslun á 30--40% af verði innfluttu verslananna og ef eitthvað er, þá er handbragðið á vinnunni fallegra og betra en í þeim innfluttu verslunum sem ég vitnaði til áðan.
    Ég segi þessa sögu vegna þess að tillaga sú sem ég geri grein fyrir fjallar allt í senn um gæði, atvinnusköpun, íslensk efni og hagstæðari verð. Það eru mörg dæmi sem unnt er að gera grein fyrir á sama máta á nánast öllum sviðum íslensks atvinnulífs sem valda atvinnuleysi. Það á ekki síst við hvað varðar innflutt alls konar viðgerðarefni sem uppfylla ekki viðlíka kröfur og íslensk viðgerðarefni til steinsteypuviðgerða. En allt um það, Íslenskt, já takk, er lofsvert framtak sem ber að styrkja og halda áfram.
    Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í eitt af þeim bréfum sem ég hef fengið sem stuðning við flutning þessa máls. Þar segir:
    ,,Kannski okkur sem þjóð vanti að trúa meira á okkur sjálf, mátt okkar og megin. Það er ekki úr vegi að nýta þetta ár til þess sem er hálfrar aldar afmæli lýðveldis okkar og að minnast þess dags sem við fengum fullt sjálfstæði og gátum byrjað að sýna það sem í okkur býr.`` Og enn segir í bréfinu: ,,Á ýmsan hátt má segja að við höfum unnið kraftaverk. Við erum með hæsta lífaldur í heimi, við erum sjöunda tekjuhæsta þjóð í heimi miðað við höfðatölu samkvæmt Alþjóðabankanum og við erum talin vera með mestu menntun í heimi miðað við höfðatölu. Það er alls ekki ónýtt. Þegar við byrjuðum verkið 1944 hefði þetta getað farið alla vega. Við hefðum allt eins getað farið á fyllerí og lagt okkur í rúst, eins og sumir aðrir hafa lent í, eða lent í gjaldþrotum eins og hefur komið fyrir í nágrannalandi okkar.``
    Mig langar enn að vitna í áskorun til stjórnvalda frá starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar, með leyfi forseta:
    ,,Þó að mikill samdráttur hafi verið í íslenskum byggingariðnaði þennan tíma sem liðinn er frá byggingu Sementsverksmiðjunnar eða frá því að samdrátturinn hófst og sala á síðustu fimm árum hefur minnkað um 35% en um leið hefur fjöldi starfsmanna minnkað einnig um 35%. En samdrátturinn á þessum tíma á ekki alla sök á minnkandi sölu sements og steinsteypu. Stöðugt vaxandi innflutningur á tilbúnum byggingarhlutum og vörum sem koma í stað steypu og múrhúðar er stór hluti samdráttarins. Lítið eftirlit er með innflutningi eins og nýlegar upplýsingar Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins sýna um innfluttar byggingarvörur sem ekki standast kröfur. Starfsmannafélagið hefur hér sérstaklega í huga mikla þróunarstarfsemi sem stunduð er á vegum Sementsverksmiðjunnar á vörum og tækni sem byggist á notkun sements. Sementsverksmiðjan stofnaði um þessa starfsemi sérstakt fyrirtæki, Sérsteypuna sf., ásamt Íslenska járnblendifélaginu og starfa þar nú um sjö manns. Þá hefur notkun á sementi og steinsteypu í vega- og gatnagerð lagst af þó að steinsteypa sé umhverfisvænni en malbik og slitþol hennar margfalt eins og reynsla af

götum á Akranesi sannar.``
    Greinargerð með þáltill. er svohljóðandi:
    ,,Mjög ítarlegar og markvissar rannsóknir hafa verið unnar á síðustu tveimur áratugum á notkun steinsteypu til vega- og gatnagerðar. Fyrir liggur að mun hagkvæmara er að nota steypu þar sem umferð og álag af völdum veðurfars og þungaflutninga er mikið. Í þessari greinargerð er vísað til meðfylgjandi gagna um rannsóknir sem unnar hafa verið og kynntar af Íslendingum. Notkun íslenskra efna til vegagerðar er kappsmál þar sem saman fara atvinnuskapandi og gjaldeyrissparandi þættir, auk meiri gæða.
    Kostir frá umhverfissjónarmiði eru ótvíræðir. Í stað olíuefna, sem gufa upp og menga jarðveg og andrúmsloft eða er komið fyrir í náttúrunni þegar gömul olíuslitlög eru fjarlægð, kemur umhverfisvænt efni, alíslenskt, sem er steinsteypa.
    Góða sönnun fyrir hagkvæmni steinsteypu sem bundins slitlags má finna á Akranesi. Allt frá fyrstu tíð, þ.e. frá árinu 1960, hafa steyptu slitlögin reynst þar eins og best verður á kosið. Engum fjármunum hefur verið varið til viðhalds steyptra gatna á Akranesi þau 33 ár sem þau hafa verið í notkun. Tæknimenn Akranesbæjar reikna með að steypt gata endist a.m.k. þrisvar sinnum lengur en malbikuð og er það byggt á framansögðu. Við mat á hagkvæmni slitlags kemur það enn frekar í ljós. Tilboð í 5 sm þykkt malbik á síðasta ári var ekki nema 40% ódýrara en 12 sm þykk steypa. Verðtilboð í steypu var á Akranesi á árinu 1993 1.891 kr. á fermetra miðað við 12 sm þykkt, en verðtilboð í malbik á sama tíma var 1.150 kr. á fermetra miðað við 5 sm þykkt.
    Rétt er að geta þess að sementsverð er það sama á öllu landinu vegna verðjöfnunar. Á malbiki er engin verðjöfnun sem gerir það þeim mun dýrara sem flutningsleið þess er lengri frá löndunarhöfn. Enn fremur ber að hafa í huga að til lagningar malbiks þarf sérhæfð tæki og mannskap. Nær alls staðar á Íslandi er til verkþekking til gatna- og vegagerðar með steinsteypu. Eftirfarandi atriði mæla sérstaklega með steinsteypu til gatna- og vegagerðar:
    Meiri ending og minna viðhald, ekki síst við álag nagladekkja.
    Minni erlendur kostnaður, en kostnaður er óháður olíuverði sem er u.þ.b. 11% af stofnkostnaði malbiks.
    Fleiri störf hérlendis, steypustöðvar, efnisvinnsla, sementsverksmiðja.
    Minni eldsneytisnotkun (10--20%) einkum vegna harðara yfirborðs steypu og minna vatns í hjólförum.
    Minni efnamengun vegna slitryks.
    Að jafnaði grynnri hjólför og þar af leiðandi minna um slys.
    Minni kostnaður við lýsingu þar sem steypa er ljós en malbik dökkt.
    Á allt of mörgum sviðum hefur hagkvæmum og atvinnuskapandi möguleikum, þar sem um hefur verið að ræða íslensk efni, verið hafnað. Erlend efni hafa verið tekin fram yfir vegna auglýsinga og áróðurs í krafti fjármagns þeirra sem hlut eiga að máli. Oft eru ákvarðanir teknar með skammtímasjónarmið í huga og án þess reikna hagkvæmnidæmið til enda og þegar haft er í huga að eingöngu opinberir aðilar standa að slitlagagerð gefur það vissulega tilefni til sérstakrar rannsóknar og úttektar. Hliðstæð dæmi má nefna þar sem íslensk byggingarefni, sambærileg að verði og gæðum, hafa lotið í lægra haldi fyrir innfluttum byggingarvörum sem oft eru niðurgreiddar eða ríkisstyrktar. Þetta á t.d. við um eldhúsinnréttingar, fjölmarga innanstokksmuni, gipseiningar og margs konar loft- og veggplötuklæðningar. Annað dæmi, sem rétt er að nefna, er íslenskur skipasmíðaiðnaður sem er nánast rjúkandi rústir sökum samkeppni við ríkis- og atvinnubótastyrktan sambærilegan iðnað í nágrannalöndum okkar, svo sem Noregi, Danmörku, Svíþjóð og fleiri vestrænum ríkjum.
    Íslensk yfirvöld verða að stemma stigu við því að verkþekking og atvinnutækifæri glatist sökum andvaraleysis þegar vegið er að starfsgreinum í atvinnulífi landsmanna.``
    Virðulegur forseti. Ég mælist til að tillaga þessi fari til hv. samgn. til umfjöllunar. Ég legg einnig til að iðnn. fái þessa þáltill. til umfjöllunar. Ég veit ekki hvort það er reglan, en ég tel að þetta mál eigi erindi í báðar þessar nefndir. Að lokum vil ég sérstaklega geta um þau fylgiskjöl sem fylgja með tillögunni. Það er í fyrsta lagi fylgiskjal frá Háskóla Íslands þar sem Páll Jensson hefur tekið saman erindi um það hvort eigi að gefa steypu tækifæri í gatna- og vegagerð þar sem sérstaklega er tekið á um þá kosti sem mæla með steypu.
    Einnig vil ég geta um erindi frá Nordisk Veibetong þar sem dregnir eru fram fjölmargir kostir þess að nota steinsteypu til vegagerðar og meira að segja þar sem er minna álag heldur en mjög víða gerist hér á landi og þá ekki síst í höfuðborginni okkar, Reykjavík. Þar ber nánast skylda til að taka upp notkun steinsteypu.
    Virðulegur forseti. Ég hef hér að lokum myndband sem er sönn saga um hugvit og þróun notkunar steinsteypu í 33 ár og ég legg þetta að lokum fram sem síðasta gagn í þessu máli og bið um að á móti því verði tekið þannig að málið fái þá umfjöllun sem ég vona að það geti fengið og það verði til þess að skapa íslenska atvinnu í miklum mæli.