Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 18:51:36 (4865)


[18:51]

     Guðjón Guðmundsson :
    Herra forseti. Á undanförnum mánuðum hefur verið rekinn öflugur áróður fyrir því að Íslendingar velji íslenskar vörur og íslenska þjónustu í ríkara mæli en gert hefur verið. Þetta átak til að efla íslenska framleiðslu er mjög tímabært og á ekki síst við þegar um er að ræða íslenskt byggingarefni sem allt of oft hefur orðið undir í samkeppninni við innflutning og oft mjög óverðskuldað. Þessi tillaga um notkun steinsteypu til slitlagsgerðar fellur vel inn í þessa umræðu um eflingu íslenskrar framleiðslu en að áliti flm. er það ótvírætt mun hagstæðara að nota steypu en malbik eða olíumöl þar sem umferðarþungi er mikill. Fyrir því eru færð rök í greinargerð með tillögunni.
    Sementsverksmiðja ríkisins sem nú heitir reyndar Sementsverksmiðjan hf. hefur í mörg ár staðið að ýmsum tilraunum með nýja tækni og aukin steypugæði við notkun steinsteypu í slitlög vega og gatna. Það hefur háð nokkuð þessum tilraunum að búnaður er ekki til í landinu til niðurlagningar á steinsteypu í vegi. Oft hefur því verið leitað til Íslenskra aðalverktaka á Keflavíkurflugvelli sem hafa yfir slíkum útbúnaði að ráða en það fyrirtæki hefur framkvæmt stórverk á þessu sviði á Keflavíkurflugvelli.
    Það hefur einnig skort tækifæri í vegagerð hérlendis þar sem steypan hentar sem slitlagsefni. Forsenda fyrir notkun steinsteypu frekar en annarra efna er mikil umferð og áraun vegarborðsins. Reynslan af steinsteyptum slitlögum er orðin bæði löng og góð. Þar má nefna Reykjanesbraut en elsti hluti hennar er orðinn meira en 30 ára gamall og einnig Vesturlandsveg upp í Kollafjörð en sá vegur verður 22 ára á þessu ári. Síðan þessir vegir voru steyptir hafa gæði steinsteypunnar aukist verulega og tækni við útlagningu hefur verið endurbætt. Aðalframkvæmd Vegagerðar ríkisins á næstunni verður tenging Vestur- og Suuðurlandsvegar og breikkun Vesturlandsvegar frá gatnamótum þessara vega að Höfðabakka. Þessi framkvæmd er tvímælalaust mjög vænleg fyrir steinsteypu, en gert er ráð fyrir að vinna verkið á þessu ári og því næsta. Verkið verður sjálfsagt boðið út og yrði þá væntanlega gert frávikstilboð sem yrði skoðað í samanburði við önnur tilboð.
    Rætt hefur verið um að breikkun Vesturlandsvegar á næsta ári verði gerð með steyptu slitlagi og sett upp sem tilraunaverkefni sem nýtt yrði til þess að kanna hagkvæmni steypunnar sem slitlagsefnis, en Sementsverksmiðjan hefur lengi beðið eftir að slík könnun yrði framkvæmd á verkefni sem þessu. Sementsverksmiðjan hefur nú myndað samstarfshóp með steypustöðvunum tveimur í Reykjavík til að athuga möguleika á að steypa slitlagið á tenginguna. Rætt hefur verið um að bjóða Vegagerðinni að fjármagna mismuninn á malbiki og steypu með láni til þess tíma sem útreikningar sýndu að ending steypunnar hefði vinning á malbikið. Rekstraraðstæður Sementsverksmiðjunnar hafa versnað mjög á síðasta ári eða síðustu árum. Sementssalan hefur dregist saman um 35% á örfáum árum vegna þess mikla samdráttar sem orðið hefur í byggingariðnaðinum. Þetta hefur leitt til þess að afkastageta verksmiðjunnar nýtist illa og á þessu ári verður að stöðva hana í allt að fjóra mánuði. Það hlýtur að vera íhugunarefni fyrir ríkið sem á þessa verksmiðju hvort ekki megi auka notkun steinsteypu við vegagerð og jafnvel flýta framkvæmdum á því sviði meðan lægð er í byggingariðnaðinum og með því að bæta nýtingu þessarar ágætu verksmiðju sem undanfarin ár hefur verið rekin með verulegum halla.
    Steinsteypa hefur sannað ágæti sitt í gatnagerð í nokkrum kaupstöðum landsins, ekki síst á Akranesi þar sem byrjað var að steypa götur árið 1960, en drjúgur hluti af gatnakerfi bæjarins hefur síðan verið steyptur. Reynslan af steinsteypuslitlagi á þessum götum hefur verið framúrskarandi góð og má segja að viðhald hafi nánast ekkert verið öll þessi ár.
    Hv. þm. Gísli Einarsson nefndi í ræðu sinni erindi sem Páll Jensson frá Háskóla Íslands flutti á steinsteypudegi á síðasta ári en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Fjárhagslegur ávinningur þjóðarinnar af hagkvæmari slitlögum ef þau finnast er mikill. Nærri mun láta að einn milljarður fari á ári í lagningu og viðgerðir slitlaga á götum og vegum á vegum sveitarfélaga og Vegagerðarinnar. Hver hundraðshluti sparaður þýðir því 10 millj. á ári svo að það er vissulega þess virði að spara ekki til rannsókna á þessu sviði.``
    Síðar í þessu sama erindi þar sem Páll gerir grein fyrir niðurstöðum sínum segir hann m.a., með leyfi forseta: ,,Í heild verður því að segjast að ef þær forsendur sem hér er gengið út frá um endingu hástyrkleika steypu miðað við malbik standast þá er vissulega tímabært að gefa steypunni tækifæri þegar leggja skal slitlög á götur og vegi með mikilli umferð.``
    Herra forseti. Ég ætla ekki að tíunda hér öll þau fjölmörgu rök önnur sem eru fyrir notkun steinsteypu til slitlagsgerðar. Ég vísa þar í þau rök sem eru rækilega skýrð í greinargerð með þessari tillögu en ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi þessarar ræðu að takist að auka þessa notkun er það stórt skref til eflingar íslenskri framleiðslu og stuðningur við átakið Íslenskt, já takk.