Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 19:01:29 (4867)


[19:01]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þáltill. sem hér liggur frammi og er til umræðu. Hún er allrar athygli verð, einkum og sér í lagi þegar litið er til þess atvinnuástands sem við búum við hér á landi.
    Ég verð að segja það að í margri umræðunni undangengna daga þar sem menn hafa verið að deila um mál sem eru kannski svo fjarri okkur Íslendingum, þá er það alltaf svo að þegar komið er inn á atvinnumálin að það er það mál sem mest brennur á í þjóðfélaginu í dag. Þess vegna er þáltill. sem þessi mjög athyglinnar verð og sérstaklega skulum enn hafa það í huga að eins og fram kom hér hjá 1. flm., hv. þm. Gísla S. Einarssyni, þar sem hann gat um það að vissulega er steinsteypan nokkuð dýrari en malbik. Steinsteypan er talin vera 40% dýrari en þrefalt endingarmeiri en malbikið. Þá er náttúrlega þess líka til að geta að í þéttbýli getur malbikið valdið mengun, bæði þegar það er lagt og svo enn fremur þegar á því er ekið, einkum og sér í lagi þegar nagladekk eru notuð.
    Ég sé það fyrir mér að nái þessi þáltill. fram að ganga, þá mun það bæta atvinnuástandið að nokkru leyti, en vissulega þurfa fjölmörg önnur atriði að koma til sem við höfum verið að ræða um og hv. síðasti ræðumaður kom inn á tvö atriði sem ég get alveg heils hugar tekið undir. Það er einkum og sér í lagi hvað varðar skipasmíðaiðnaðinn og oftar en ekki kemur þetta í huga mér þegar við höfum samþykkt þau lög að auðlind hafsins í kringum Ísland er eign þjóðarinnar og þá spyr maður sjálfan sig: Eiga þá þeir sem eiga aðgang að henni engum skyldum að gegna gagnvart íslenskum skipasmíðaiðnaði? Fleira í þeim dúr mætti tiltaka en þetta mál er allrar athygli vert. Við eigum hráefnið. Það er þegar á heildina er litið ekki mikið dýrara en það sem við höfum verið að flytja inn í formi malbiks og þá vaknar sú spurning: Því í ósköpunum liggja ekki enn frekari og betri rannsóknir fyrir um gatnagerð með þessum hætti eins og þáltill. felur í sér? Við eigum sementsverksmiðju, við höfum hæft fólk, við höfum unnið að vegalagningu á Akranesi. Keflavíkurvegurinn hefur reynst vel. Að vísu hafa menn verið að setja þar ofan á slitlag sem heitir malbik og það er kannski umhugsunarefni hvers vegna það var gert. Liggja einhverjar sögulegar eða rannsóknalegar forsendur að baki þess að það var gert? Getur það verið að steinsteypan valdi meiri hálku heldur en malbik eða hvað er það og hvers vegna?
    Allt það sem má verða til þess að efla atvinnu hér Íslandi hljóta alþingismenn hvar í flokki sem þeir standa að taka fegins hendi og ég vænti þess og ég vonast til þess að Alþingi beri gæfu til þess á þessum erfiðu tímum atvinnuástands víðast hvar á landinu að afgreiða öll þau mál sem nú liggja fyrir Alþingi og eru atvinnuskapandi, þau leysist og þau verði afgreidd hér frá Alþingi fyrir lok þessa þings.