Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 19:12:08 (4869)


[19:12]
     Flm. (Gísli S. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. sem hér hafa tekið undir flutning þessa máls kærlega fyrir þeirra umfjöllun og þeirra góðu ábendingar um margt sem þeir koma með í sínum ræðum varðandi þetta mál. Hér var rétt áðan nefnd rannsókn á heilsufari starfsmanna sem hafa unnið við malbik til lengri tíma. Það kemur fram í þeirri skýrslu sem fylgir með þáltill. og þetta er einhver besta rannsókn sem gerð hefur verið á notkun og hæfni steinsteypu til slitlagsgerðar. Í sambandi við það var þessi rannsókn gerð og tíu af þrjátíu rannsökuðum starfsmönnum hafa orðið fyrir varanlegum heilaskaða vegna uppgufunarefna úr malbiki. Það stendur hér svart á hvítu og engin ástæða er til að draga það í efa því þessi rannsókn er unnin af mjög þekktum aðilum.
    Hv. þm., Guðmundur Hallvarðsson, kom hér með spurningar sem ástæða er til að svara. Hann nefndi það að á Keflavíkurvegi er verið að leggja malbik og hvers vegna? Er það eitthvað betra? ( GHall: Ofan á steypuna.) Ofan á steinsteypuna. Ég verð að segja að það er ákaflega merkileg aðgerð sem Vegagerð ríkisins hefur gripið til í því máli vegna þess að það eru a.m.k. 10 ár síðan að Bandaríkjamenn fóru að fræsa og valsa út steypu með sérstökum styrk þar sem slit verður á þennan veg eins og var vitnað til. Viðloðun dekkja við steypu er miklum mun meiri, það er rannsakað líka, miklu meiri en við malbik. Þannig að viðgerðin --- það verður nánast að segja að hún er einhver tilraun sem menn hafa viljað gera til að reyna að sanna eitthvað nýtt eða jafnvel að menn haldi að þeir séu að finna upp hjólið aftur. Eins og ég sagði þá er til tækni til að fræsa upp sem nemur hjólfari og valsa út steypu og það er mjög fljótleg aðgerð og

má aka á steypunni nánast strax á eftir að búið er að valsa út steypuna.
    Að sjálfsögðu er þessi hugmynd eða þessi þáltill. hugsuð sem atvinnumálaályktun en hún er líka hugsuð til þess að nota íslenskt, já takk. Þess vegna lagði ég á það mikla áherslu í upphafi míns máls hvernig íslenskt hefur farið halloka fyrir erlendu að óathuguðu máli.
    Varðandi malbik þá er það ljóst að það eru þúsundir tonna, þúsundir tonna af olíuefnum sem fara út í umhverfið í formi ryks eða uppgufunar og það er allt annað efni heldur en steinefnin sem koma beint frá íslensku grjóti og sem íslensk efni og í miklu minna mæli heldur en malbiksrykið.
    Ég lýk þessu með því að endurtaka mínar þakkir til þeirra þingmanna sem hér töluðu og þeirra ágætu hv. þm. sem unnu þessu máli framgang í sínum þingflokkum og læt máli mínu lokið.