Sveitarstjórnarlög

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 13:57:21 (4881)


[13:57]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér flytur þingnefnd frv. en fremur fátítt er að slíkt sé gert. Ég vil vegna þess segja örfá orð um mína afstöðu til þess hvernig standa eigi að málatilbúnaði og tillögugerð þegar svo stendur á að flutningsmaður málsins er þingnefndin sem á að fá málið til athugunar og skoðunar á milli umræðna.
    Af eðlilegum ástæðum hefur það orðið venja í þau skipti sem þingnefnd hefur flutt mál á sínu málasviði að því hefur ekki verið vísað til nefndarinnar á milli umræðna þannig að í reynd hefur málið farið óathugað milli umræðna frá 1. til 3. umr. Þetta er auðvitað ekki góður gangur, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að þing starfar núna í einni málstofu. Ég beitti mér fyrir því að menn ræddu þetta sjónarhorn á málinu áður en það var flutt og tók það upp innan þingflokks Alþb. og óskaði eftir viðhorfum manna til þess hvernig að málum skyldi standa þegar mönnum þætti ástæða til þess að nefnd stæði að flutningi máls sem auðvitað getur verið.
    Þau sjónarmið komu fram að þegar svo stæði á þá væri rétt að standa þannig að undirbúningi málsins að í fyrsta lagi skyldi málið athugað af málsflytjanda eða nefndinni fyrir flutning og fengnir sérfróðir aðilar til þeirrar athugunar, aðrir en þeir sem sækja á um að málið sé flutt. Í öðru lagi yrði málið sent út til umsagnar fyrir flutning málsins. Í þriðja lagi mundi málið fara til þingnefndar milli umræðna ef einhver ábending eða athugasemd kæmi fram um það.
    Á þessum þremur forsendum hef ég fallist á það að málið yrði flutt af þingnefndinni og hef beitt mér fyrir því að sérstök athugun hefur farið fram á málinu umfram það sem áformað var í upphafi. Það hefur leitt til þess að málið tók breytingum og er því flutt núna öðruvísi en áformað var þegar það var sent nefndinni og óskað eftir flutningi þess. Ég tel því að þessi þrjú meginsjónarmið sem fram komu í umræðu um málið innan þingflokks Alþb. hafi verið virt og set það fram sem mitt sjónarmið að þingnefndir ættu að hafa þessi atriði að leiðarljósi í framtíðinni við athugun máls því auðvitað orkar það mjög tvímælis að þingnefnd taki upp þingmál og afgreiði það tiltölulega hratt í gegnum þingið án nokkurra athugunar á milli umræðna.
    Málið er hins vegar komið í búning sem ég get fyllilega sætt mig við en ástæða þess að málið er flutt rökstyður kannski fyrst og fremst að þörf er á að vanda undirbúning málsins. Því reynist nauðsynlegt að flytja frv. vegna þess að mínu mati að menn gættu ekki að sér þegar þeir gerðu síðustu breytingu á lögum um kosningar til Alþingis vorið 1991. Miðuðu þá breytingu einvörðungu við lögin um kosningar til Alþingis en gættu ekki að því að þá gerðu menn samtímis breytingu sem varðaði sveitarstjórnarkosningar og af þeirri ástæðu er óhjákvæmilegt að flytja lagafrv. til að rétta af málið eins og það stendur eftir þá lagabreytingu sem varð 1991. Að mínu mati unnu menn þá lagabreytingu ekki nógu vel og framkalla þá í staðinn þörf á nýju frv. sem nauðsynlegt er að flytja til þess að leiðrétta það sem þá gerðist.
    Enn fremur kemur fram í 3. gr. frv. að þar er verið að leggja til breytingu á sveitarstjórnarlögum sem er nauðsynleg til að leiðrétta það sem misfórst við lagasetninguna á sínum tíma. Þannig að þarna höfum við tvær ástæður sem segja okkur að því miður er það ekki reglan að menn vandi sig nægjanlega vel við málatilbúnað á þessu sviði og kalla á að menn ættu að ígrunda vel og athuga málin áður en þau eru flutt. Það eru þau sjónarmið sem ég hef staðið fyrir við undirbúning þessa máls.
    Virðulegur forseti. Ég vil geyma mér frekari umfjöllun um efnisatriði frv. til 2. umr.