Sveitarstjórnarlög

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 14:03:20 (4882)


[14:03]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Þær breytingar sem hér eru lagðar til á sveitarstjórnarlögum flytur félmn. Alþingis sameiginlega að beiðni Hagstofu Íslands og með samþykki félmrh. eins og hér hefur komið fram.
    Deila má um hvort slík frv. eigi að koma beint frá félmn. eða fagnefndum almennt. En þar sem þetta mál er í eðli sínu ópólitískt og þar að auki mjög brýnt þá varð það að samkomulagi innan nefndarinnar að við flyttum það sameiginlega. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vestf., Kristni H. Gunnarssyni, að það var lögð töluverð vinna í þetta frv. í nefndinni, ekki hvað síst að beiðni hans, og þær breytingar sem eru hér lagðar fram sem eru öðruvísi en fyrst var lagt upp með, þ.e. að fresturinn væri sjö vikur en nú er lagt til að fresturinn sé fimm vikur varðandi framlagningu kjörskrár, má þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. En að öðru leyti er þetta frv. algjörlega í samræmi við önnur kosningalög til Alþingis og forsetakjörs og því nauðsynlegt að það væri samræmt. Og til að flýta fyrir þessu máli þá fannst mér og öðrum í hv. félmn. rétt að það gengi þannig fyrir sig að félmn. Alþingis flytti þetta frv. Enda er þetta gert í samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga sem samband hefur verið haft við um þetta mál.
    Ég vona að þetta geti gengið greiðlega fyrir sig. Þetta er orðið aðkallandi og áríðandi mál eins og fram hefur komið.