Fjáraukalög 1993

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 14:40:24 (4886)


[14:40]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið farið allvel í gegnum þetta frv. til fjáraukalaga hér af hv. 1. þm. Norðurl. e. og get ég tekið undir það sem hann hefur hér lýst. Mér finnst líka sérstaklega rétt að vekja athygli á því sem einnig kom fram í hans máli að við vorum að samþykkja frv. til fjáraukalaga í desember sl. þar sem gert var ráð fyrir að halli fjárlaga mundi aukast um rúmlega 7 milljarða kr. Það kemur síðan í ljós hér með þessu frv. að hallinn lækkar allmikið. Það kemur fram í þessu frv. að það sé um rúma

4 milljarða sem hallinn hafi lækkað en ef við bætum við þeim 2 milljörðum sem eru yfirfærðir þá lækkar hallinn um 2 milljarða kr. frá því sem áætlað hafði verið í desember. Hér erum við enn og aftur með frv. til fjáraukalaga við að loka fjárlögum ársins. Það gerist það sama hér við fjárlög fyrir árið 1993 eins og gerðist við fjárlög l992 að það virðist vera erfitt af einhverjum ástæðum að koma með raunhæfar tölur um lok fjárlaganna nokkru áður en fjárlagaárinu lýkur og verða það að teljast vera vinnubrögð sem við verðum að fá nánari skýringar á, hvernig á því stendur að ekki er hægt að áætla þetta betur rétt áður en fjárlagaárinu lýkur. Þarna tel ég að sé um allt of mikinn mismun að ræða.
    Hæstv. fjmrh. lagði mikið út af því áðan að það hefði unnist fyrir þann milljarð sem ákveðinn var til atvinnuskapandi verkefna á síðasta ári, náðst hefði að vinna fyrir rúmar 700 millj. kr. svo að ekki muni nema 300 millj. verða færðar á milli ára af þeim atvinnuskapandi milljarði sem talað hefur verið um. En jafnframt kemur það einnig fram í þessu fjáraukalagafrv. að 759 millj. af viðhaldi eða því sem átti að fara til viðhalds- og stofnkostnaðar er líka fært á milli ára. Og þó að ég sé út af fyrir sig líka sammála þeirri vinnureglu að menn þurfi ekki að keppast við það að eyða þessum fjármunum án þess kannski að skoða það nægilega vel hvernig þeim er eytt fyrir áramót bara til þess að missa ekki fjárveitinguna, þá tel ég að hér sé um nokkuð háa upphæð að ræða og ef við leggjum saman þessar tvær upphæðir, þ.e. það sem fært er á milli ára af stofnkostnaði og viðhaldi samkvæmt fjárlögum og því sem eftir stóð af milljarðinum, þá er hér í raun og veru um milljarð að ræða, þ.e. sá milljaður sem ákveðinn var til atvinnuskapandi verkefna á síðasta ári er í raun færður á milli ára ef við leggjum saman þær tölur sem hér um ræðir. Og maður spyr sjálfan sig að því hvort ekki hafi verið nægilega vel staðið að þessum undirbúningi sl. vor hvernig þessum milljarði til atvinnuskapandi verkefna skyldi varið eða hvað er hér á ferðinni.
    Í því sambandi langar mig enn og aftur að minna á það að ekki fóru eða áttu að fara af þessum milljarði nema 60 millj. kr. til atvinnusköpunar fyrir konur og það kom raunar fram í fréttum í sjónvarpinu í gærkvöldi að þeim 60 millj. kr. hefði verið mjög vel varið eins og sagði í þeirri frétt, með leyfi forseta:
    ,,Formaður starfshóps félmrn. sem sá um að úthluta milljónunum 60 til að skapa konum störf hefur ekki mikla trú á svokölluðum átaksverkefnum. Þau séu dýrar skammtímalausnir, skapi vinnu í nokkra mánuði og svo taki atvinnuleysið við á ný. Þá telur hún einnig að þau séu frekar sniðin að þörfum karla en kvenna. Starfshópurinn hafi því lagt áherslu á að skapa konunum vinnu til frambúðar.``
    Jafnframt segir í þessari frétt að það hafi tekist að skapa um 200 atvinnutækifæri, 200 ný störf hjá konum fyrir þessar 60 millj. og þeir sem stóðu í þessum vinnuhóp notuðu þá vinnureglu að reyna með því að úthluta því að skapa vinnu til framtíðar.
    Ég get að sumu leyti tekið undir það að þau átaksverkefni sem efnt var til voru að mörg hver bara skammtímaverkefni. Það var verið að vinna einhver ákveðin verkefni sem ekki skiluðu sér sem framtíðarstörf. Það bætti að vísu úr atvinnuástandinu á ákveðnum tíma og gerði það að verkum að atvinnuástandið fyrir árið í heild varð ekki jafnslæmt og útlit var fyrir en það breytir ekki því að í dag er atvinnuástandið mjög slæmt og atvinnuleysið hefur vaxið meira en gert var ráð fyrir samkvæmt þjóðhagsspánni í desember sl. og það sýnir að það hefur ekki tekist með þeim peningum sem áætlað var að veita til atvinnuskapandi verkefna, það hefur ekki tekist að skapa störf til framtíðar nema þessi 200 störf. Líklega hefur þar tekist að skapa störf til framtíðar. Þess vegna verður enn og aftur að átelja það að því skuli ekki hafa verið meira sinnt að leggja meira til atvinnuskapandi verkefna fyrir konur og það er heldur ekki gert í fjárlögum yfirstandandi árs þar sem t.d. var 15 millj. kr. sjóðurinn sem hefur verið inni í félmrn. nú í nokkur ár, þrjú ár að ég held, hann var hækkaður um einar 5 millj. kr. þannig að í ár er hann 20 millj. kr. til atvinnuverkefna fyrir konur. En í staðinn var bætt inn stórum hópi þar sem áður átti þessi liður í fjárlögunum að vera til atvinnusköpunar fyrir konur á landsbyggðinni, en nú er hann til atvinnusköpunar fyrir konur þannig að allt suðvesturhornið, allt Reykjavíkursvæðið er komið inn í þetta. Það hefur sem sagt verið meira en tvöfaldaður sá hópur sem nú á að sækja um þennan styrk og hann var aðeins hækkaður um einar 5 millj. kr. Ég held að það sé vert að gagnrýna það hér enn og aftur. En eftir stendur að milljarður er eftir af því sem átti að fara til atvinnuskapandi verkefna.
    Ég ætla ekki endilega að fara nákvæmlega í þær tölur sem hér eru. Það hefur hv. 1. þm. Norðurl. e. gert mjög vel hér á undan. Ég vil aðeins nefna það að auðvitað endurspeglar fjáraukalagafrv. nokkuð ástandið í þjóðfélaginu þar sem Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota er sú upphæð sem mest fer fram yfir fjárlög eins og þau stóðu áður en þetta fjáraukalagafrv. var gefið út, þ.e. hann fer 314 millj. fram yfir heimildir. Og það endurspeglar auðvitað ástandið í þjóðfélaginu.
    Það er líka vert að vekja athygli á annarri stórri upphæð í fjmrn. sem hæstv. fjmrh. nefndi að nokkru leyti hér áðan, þ.e. gjaldheimtu- og innheimtukostnaður sem fer 85 millj. kr. fram úr heimildum og það er kostnaður m.a. vegna gjaldþrotabeiðna, en eins og menn muna trúlega, þá var kostnaður við að biðja um gjaldþrot hækkaður allverulega á síðasta ári og það kostar í dag 150 þús. kr. að biðja um að gjaldþrot sé gert hjá einhverjum. Þetta kemur auðvitað líka niður á ríkinu því að ríkissjóður þarf líka að fara fram á að einhver sé tekinn til gjaldþrotaskipta þannig að þessi kostnaður hefur þess vegna aukist allmikið hjá gjaldendum líka og það kemur fram í þessari tölu.
    Að öðru leyti er hér verið að stemma af sjóðbók ríkissjóðs við síðustu áramót. Það segir ekki alla söguna um það hvernig ríkisreikningur fyrir árið 1993 mun koma til með að líta út svo ég held að við getum geymt okkur að ræða það hvernig endanlegur halli fjárlaganna fyrir árið 1993 muni koma til með að líta út. Ég ætla ekki að nefna enn einu sinni þann ágreining sem er uppi um það hvað skuli færast í fjáraukalögum, fjárlögum eða ríkisreikningi. Ég held að menn séu búnir að fá alveg nóg af umtalinu um það í bili, enda var samkvæmt nýjustu fréttum haldinn fundur sl. föstudag þar sem ríkisreikningsnefnd kom sér saman um ákveðnar tillögur til framtíðar í þeim efnum og þær tillögur eigum við enn eftir að sjá.
    Að öðru leyti geri ég ráð fyrir að frekari umræður um fjáraukalagafrv. verði við 2. umr. og mun ég því geyma mér að fjalla frekar um það.