Fjáraukalög 1993

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 15:01:49 (4888)


[15:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem tóku til máls við þessa umræðu en þeir munu allir eiga

sæti í hv. fjárln. þannig að það er auðvelt að halda áfram umræðum þar um þetta mál. Það hleypur ekki frá okkur og verður þar til umfjöllunar á næstunni. Mig langar þó að nefna hér örfá atriði sem komu fram í máli hv. ræðumanna. Í fyrsta lagi kom það fram, sem er ekki nýtt þegar rætt er um ríkisfjármál, að stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum hefði beðið skipbrot, eins og það var orðað. Þetta er nánast orðið viðlag í ræðum hv. stjórnarandstæðinga nema nú fundu þeir fyrst og fremst að því að hallinn hefði ekki orðið eins mikill og við var búist og það var okkur reiknað heldur til vansa og þetta væri annað árið í röð.
    Sannleikurinn er sá að það er minni munur að undanförnu á niðurstöðutölum og fjárlagatölum heldur en oftast áður. Um þetta hef ég látið gera skrá og það kemur í ljós að það er minni munur á niðurstöðutölum þegar fjárlögunum er lokað með fjáraukalögum og niðurstöðutölum fjárlaga. Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að segja nákvæmlega fyrir um niðurstöðutölur við gerð fjáraukalaga þegar nýjar heimildir eru sóttar til þingsins eru þær að ekki liggur endanlega fyrir hverjar tekjur verða og ýmis uppgjör eiga sér stað mjög seint á árinu. Í desember þegar við ræddum þessi mál var hamrað á því af hálfu hv. stjórnarandstæðinga að greiðsluhallinn yrði milli 13 og 14 milljarðar. Hann er reyndar ekki nema --- ekki nema segi ég og ætti að hafa þetta nema í gæsalöppum að sjálfsögðu --- 9,5 eða 9,6 milljarðar eða þar um bil.
    Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. að yfirfærslur eru tæpir 2 milljarðar. En við megum þá ekki gleyma því sem hv. 2. þm. Austurl. nefndi réttilega í sinni ræðu að yfirfærslur hafa orðið talsverðar á milli ára og ég á ekki von á því að þær hverfi á mili áranna 1994 og 1995. Það verður þá að sjálfsögðu einnig að taka tillit til þess að yfirfærslan er ekki eingöngu nú um síðustu áramót heldur má gera ráð fyrir því að svo verði einnig um næstu áramót. Þess vegna mundi ég ráðleggja hv. stjórnarandstæðingum að leggja ekki þessar tvær tölur saman og fá út úr því að hallinn sé svo og svo mikill. Ég skal hins vegar lofa þeim því að þeir fái nægan efnivið til að fást við í gagnrýni sinni því að mér sýnist eins og flestum öðrum að það verði mjög erfitt að halda fjárlögum yfirstandandi árs innan þess ramma sem hv. Alþingi samþykkti í desember. Á því eru eðlilegar skýringar, sem ekki er ástæða til að nefna nú, en auðvitað sjást vísbendingar mjög snemma á árinu hvort hægt er að halda ríkisútgjöldunum innan heimilda.
    Það sem gerðist á sl. ári og eru gleðitíðindi er það að landsframleiðslan varð heldur meiri en við hafði verið búist, en á móti kom að sá bati í efnahagsmálum, sem stundum er kallað að ná jafnvægi í viðskiptum við útlönd, kom einnig niður á ríkissjóði. Efnahagsbatinn sem birtist í því að við erum hætt að auka skuldasöfnun við útlönd gerir það með öðrum orðum að verkum að það verða ekki tekjur af þeim halla sem myndast þegar flutt er meira inn til landsins en úr landinu. En það er tekjustofn eins og allur innflutningur. Það hefði t.d. stórbætt ríkisfjármálin ef hallinn hefði orðið talsverður með miklu meiri innflutningi því að ríkið fær verulegar tekjur af innflutningi. Þessi efnahagsbati, sem er ákaflega mikilvægur fyrir íslenska þjóðarbúið kemur á vissan hátt niður á ríkisfjármálunum. Þetta verðum við að huga.
    Þegar rætt er um fjárfestingarlistann sem hv. ræðumenn ræddu talsvert um, þá verðum við að hafa það í huga að gengið var út frá því allan tímann að ekki yrði farið í viðhald og fjárfestingu nema þar sem um arðsemi væri að ræða, þar sem fjárfestingarnar hefðu varanlegt gildi. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. 6. þm. Vestf. að auðvitað á ríkisvaldið eins og aðrir, sveitarfélögin og aðrir þeir sem eru að berjast við atvinnuleysisvandann, að reyna að finna verkefni sem eru varanleg. Það er lærdómur sem við getum dregið af viðbrögðum flestra annarra að reyna að leita varanlegra lausna en forðast skammtímaátök. Því miður er það svo að menn freistast til þess að halda úti vinnu sem er tímabundin og þegar slíkt er gert, sem ég ætla síst að útiloka, þá verðum við að velja þau verkefni sem eru þannig vaxin að þau geti verið til þess fallin að auka hagvöxt þjóðarinnar. Verkefni, t.d. samgöngur sem leiða til stækkunar atvinnusvæða, til samvinnu fyrirtækja, meiri hreyfanleika í efnahagslífinu, slíkar framkvæmdir eigum við að láta ganga fyrir. Þess vegna er alls ekki sama til hvaða framkvæmda á að grípa.
    Undir þetta vil ég taka og benda á að með reglugerðarbreytingu Atvinnuleysistryggingasjóðs eru möguleikar á að fá úr sjóðnum fjármuni einmitt til verkefna svo fremi sem þau verkefni spilla ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja hér á landi. Þetta hefur auðvitað líka þýðingu.
    Ég vek einnig athygli á öðru. Það er þegar menn eru að leggja þessar tölur allar saman og segja síðan: Ríkisstjórnin stóð ekki við samninga sína við aðila vinnumarkaðarins. Þá vil ég benda á að fyrir fáeinum árum hefðum við bara strikað þessar tölur út. Þá hefðum við eftir áramótin sagt: Það tókst ekki að nýta fjárfestingartölurnar í menntamálunum, þá látum við það bara niður falla. Það er nýtt að við séum að teygja þessar fjárfestingar á milli ára og það er sérstaklega gert núna vegna þess að það stendur þannig á í atvinnumálum þjóðarinnar. Á þetta vil ég leggja áherslu því að ég tel það í meira lagi ósanngjarnt að halda því fram að við höfum engan veginn staðið við samninga okkar og samkomulag við verkalýðshreyfinguna. Það var farið yfir málið á sl. hausti. Fyrir fáeinum vikum átti ég fund með forustumönnum Alþýðusambandsins í fjmrn. þar sem farið var yfir þetta mál aftur. Þær viðræður standa yfir enn þá.
    Við megum heldur ekki gleyma því að sumt af því sem var á fjárfestingu sl. árs og ársins þar áður voru ekki framkvæmdafjármunir heldur fjármunir til þess að borga gamlar skuldir svo sem þegar verið var að gera upp við sveitarfélögin. Slíkir fjármunir gátu aldrei myndað fjárfestingar því að það var löngu búið að byggja fyrir þá peninga. Það þurfti auðvitað að taka tillit til þess einnig. Ég vonast satt að segja til þess að eðlileg niðurstaða fáist í viðræður milli fjmrn. og Alþýðusambands Íslands og ég vísa því á bug að það hafi ekki verið staðið við þetta samkomulag. Þvert á móti hefur ríkisstjórnin við öll hugsanleg tækifæri reynt

að lýsa því yfir að ef ekki tekst að nýta fjármunina á tilteknu bili þá verði þeir nýttir síðar jafnvel þó það kosti að ríkisstjórnin verði að sækja sér nýjar fjárheimildir og að auka þannig hallann á því ári. Og það er auðvitað hárrétt að við erum með þessu að auka hallann á yfirstandandi ári og það gerum við þrátt fyrir að við fáum á okkur pólitíska hrinu þess vegna því að við viljum standa við þessa samninga. Þannig er ekki bæði hægt að skamma okkur fyrir það að hallinn vaxi af þessum sökum og svo hitt að við stöndum ekki við samningana eins og mér heyrist hins vegar stundum hv. stjórnarandstæðingar gera. En ég skil það vel að þeir verði að fara í lúsarleit til þess að finna eitthvað sem er að okkar fjármálastjórn og þakka ég þeim auðvitað hjálpina í þeim efnum en ekki viljum við lúsugir vera.
    Við höfum í þessari ríkisstjórn kappkostað að hafa sem best samband við aðila vinnumarkaðarins. Ég er ekkert uppnæmur fyrir því þegar flokksbundnir menn, t.d. í Alþb., eða hvaða flokki sem er, fara þar á fund og halda fram pólitískum skoðunum sínum. Ég hef aldrei gert kröfu til þess að Alþb. styddi þessa ríkisstjórn, aldrei, mér hefur ekki dottið það í hug. Og verkalýðsforingjar sem eru alþýðubandalagsmenn hafa auðvitað að sönnu rétt til þess að taka undir á fundum Alþb. þann söng og í þeim söng sem sunginn er gegn ríkisstjórninni. Fyrr mætti nú vera, út á það gengur pólitíkin í þessu landi og Alþb. er í stjórnarandstöðu.
    Hv. 2. þm. Austurl., Jón Kristjánsson, sagði síðan að nú væri þurrkaður út sá munur sem ríkisstjórnin hefði sagt vera á stefnunni í rannsókna- og þróunarmálum frá því sem áður var. Þetta er ekki að fullu rétt. Því þrátt fyrir að einkavæðingin hafi ekki gengið eins hratt eftir og við vonuðumst til þá fóru fjármunir til þessa verkefnis umfram, umfram það sem áður var. Þannig greiddi ríkissjóður hluta af þeirri prósentu sem hefði átt að koma til þessara verkefna af sölu ríkisfyrirtækja. Og vegna orða hv. þm. um einkavæðinguna þá vil ég nú óska okkur öllum til hamingju með að það gerðist í síðustu viku að allir flokkar á Alþingi skrifuðu undir nál. um einkavæðingu Lyfjaverslunar ríkisins. Það tel ég vera sögulegan atburð og sýna að allir pólitískir flokkar eru tilbúnir til að einkavæða og ég vil óska bæði Alþb., Kvennalistanum og Framsfl. til hamingju með að taka þátt í því. Ég held að það sé hluti af því sem á að gerast í nútímarekstri ríkisins að standa að slíkri einkavæðingu. ( GB: Ég lýsti nú stuðningi við það, virðulegur hæstv. ráðherra, úr þessum ræðustóli fyrr á þessu þingi. Það er ekki nýtt.) Nei, ég skal taka það fram til að það komist alveg skýrt til skila að fulltrúi Framsfl., hv. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundur Bjarnason, lýsti skýrlega yfir stuðningi við það frv. og er ég honum ævinlega þakklátur fyrir stuðninginn í því efni sem og öðrum.