Fjáraukalög 1993

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 15:15:40 (4889)


[15:15]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er nú hreinn útúrsnúningur hjá hæstv. fjmrh. að segja að fulltrúrar stjórnarandstöðunnar hafi með ræðum sínum og málflutningi hér áðan lýst óánægju sinni eða vonbrigðum með það að fjárlagahallinn skyldi ekki verða meiri heldur en hann er. Okkur þykir nú reyndar 9,5 eða 9,6 milljarðar, sem hæstv. fjmrh. leggur hér fram, vera alveg nóg og höfum reyndar efasemdir um að það sé rétt og að allt sé á uppleið.
    Ég reyndi að færa rök fyrir því hér áðan að það væri líklega nær 11,5 milljörðum sem væri hinn raunverulegi halli þegar upp væri staðið og við skulum bara bíða og sjá hvað setur í því efni. Ég hygg að það sé sú tala sem verður næst lagi þegar upp er staðið og við höfum þetta allt fyrir framan okkur.
    Hins vegar er það athyglisvert að hæstv. fjmrh. skuli telja 10--12 milljarða halla 70--80% halla umfram áætlun fjárlaga eins og lús, það var ekki einu sinni eins og mús, eins og menn segja nú stundum, heldur var það bara eins og lús. Þetta var bara eins og hver annar tittlingaskítur --- leyfist mér, virðulegur forseti, að orða þetta svona hér úr ræðustóli því að það er haft eftir hæstv. forsrh., þegar hann er að tala um deilumál stjórnarliðanna, Alþfl. og Sjálfstfl., þá er deilumálunum líkt við tittlingaskít og lá þó við að stjórnin spryngi út af því smáræði. Nú er 10--12 milljarða halli á fjárlögum ríkisins eins og lús í huga hæstv. fjmrh.
    Það er vissulega rétt að yfirfærslur fara vaxandi og við þurfum að hafa það í huga þegar við erum að tala um endanlegan halla á ríkissjóði eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra og það er eðlilegt að þessar yfirfærslur fari vaxandi á fyrstu árum nýrra starfsreglna þegar það er tekið upp að breyta þeim háttum sem áður hafa verið viðhafðir og ég hef lýst stuðningi mínum við það.
    Að lokum, virðulegur forseti, þá var það dálítið merkilegt að fá þá yfirlýsingu frá hæstv. fjmrh. að það væri þegar ljóst, nú í marsbyrjun, að fjárlög ársins 1994 séu óraunhæf og stefni langt fram úr áætlun.