Fjáraukalög 1993

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 15:18:04 (4890)


[15:18]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég lýsti því ekki yfir að fjárlögin færu langt umfram áætlun. Ég sagði það hins vegar að það væri ljóst að það væri erfitt að halda fjárlögum innan þess ramma sem markaður var í fjárlagagerðinni í desember sl.

    Ég kem hins vegar hér upp einungis til þess að ítreka það að ég tel óvarlegt og ekki rétt að leggja yfirfærsluféð sem eru 1.900 millj. kr. við hallatöluna og segja að það sé hin raunverulegi halli. Menn verða að taka tillit til þess, einnig hv. þm., að við verðum að gera ráð fyrir því að það verði yfirfall um næstu áramót og þá þarf a.m.k. í góðu bókhaldi að draga þá fjármuni frá. Þetta vildi ég að kæmi mjög skýrt fram við þessa umræðu.