Þingsköp Alþingis

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 15:45:02 (4899)


[15:45]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að það hefði verið æskilegt að hæstv. fjmrh. hefði verið við umræðuna en við erum að verða vanir því þingmenn að hæstv. ráðherrar séu ekki í þingsölum nema það sem þeir nauðsynlega þurfa og að þeir fylgist ekki með þingmannamálum þó að þau snerti þeirra ráðuneyti. Þetta er kannski eitthvað sem við verðum að búa við þó vissulega finnist manni þetta hvimleitt. Sjálfsagt er hæstv. ráðherra farinn úr húsinu, virðulegur forseti, er ekki svo?
    ( Forseti (SalÞ): Hæstv. fjmrh. er í húsinu samkvæmt töflu í borði forseta og forseti hefur nú þegar látið gera honum viðvart og meira veit forseti ekki á þessari stundu.)
    Já, ég heyri að virðulegur forseti hefur gert það sem í hennar valdi stendur hvað þetta varðar.
    En það er varðandi þau tímamörk sem hér eru sett. Ég hugsaði þetta atriði töluvert og bar það undir þó nokkra aðila, en niðurstaðan varð sú að setja þetta fram í þessu formi sem í raun þýðir, eins og hv. síðasti þingmaður sagði, að skattalagabreytingar sem taka gildi um áramót verða að vera lagðar fram og fá afgreiðslu á vorþinginu.
    Ég held í sjálfu sér að þetta sé eðlilegt þannig að þegar kemur að aðallotu vinnunnar við fjárlagagerðina og hjá fjárln., þá hafi menn fyrir sér þann tekjuramma sem eftir verði unnið og það verði þá meginverkefni þingsins hvað snertir ríkisfjármálin á haustþinginu að skipa útgjöldunum. Síðan verði það aftur vorþingið sem taki á tekjumálunum og geri þær breytingar sem menn telja að þurfi að gera í skattamálum. Þessi málsmeðferð á að gera það að verkum að mínu mati að öll meðferð ríkisfjármála getur orðið markvissari.
    Ég sé að hæstv. fjmrh. er kominn í salinn en ég ætla ekki að endurtaka mína framsöguræðu í þessu máli. Hún var ekki löng, en ég vil þó nefna það hér, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að afleiðing þeirra vinnubragða sem hafa tíðkast á Alþingi varðandi skattamál, og nú er ég ekkert endilega að tala um hjá þessari ríkisstjórn, er sú að skattastefnan er ómarkviss og hún ræðst fyrst og fremst af því hvar fjmrh. finnur matarholur í hvert skiptið. Ég nefndi í því sambandi einn skatt sérstaklega, kílóagjaldið á bíla. Ég hef ekki þá trú að það hafi verið mörkuð stefna núv. hæstv. fjmrh. eða núv. hæstv. ríkisstjórnar að ganga þar út fyrir öll velsæmismörk í skattlagningu á bifreiðaeigendur. Eins og málið bar að mér, þá sýndist mér það þannig að menn væru að leita að einhverri holu til þess að finna eitthvað í til að hægt væri að stoppa upp í gatið þegar ákveðið var að lækka vaskinn á matarskattinum. Þá fundu menn það snjallræði að hækka bifreiðagjaldið um svona eins og 30%. Þarna er ekki um að ræða neina markvissa skattastefnu.
    Sama má segja um bensíngjaldið. Innkaupsverð á bensíni er nánast það sama í dag og það var fyrir þrem árum síðan. Bensínlítrinn kostar 66 eða 67 kr., ég man það ekki, en kostaði þá 49 kr. Ég hef ekki vitað til að það hafi nokkurn tíma mörkuð verið sú stefna, í það minnsta ekki af hálfu Alþingis, að nota bensíngjaldið sem almennan skattstofn í ríkissjóð. Þetta er bara dæmi af handahófi um það hvernig skattheimta þróast og það virðist ekki vera mikil vinna á bak við.
    Virðulegi forseti. Varðandi þá --- ég vil ekki kalla það deilu en þær umræður sem hér hafa orðið um það hvort frv. ætti að fara til allshn. eða efh.- og viðskn., þá held ég að það sé eðlilegt að ég fái að ræða það við forseta áður en kemur að atkvæðagreiðslu um málið. Það eru rök bæði með og móti og spurningin er sú hvort hin eðlilega málsmeðferð sé ekki sú að málinu verði vísað til allshn. en allshn. sendi það til umsagnar í efh.- og viðskn. Ég sé að hv. 18. þm. Reykv. hristir höfuðið þannig að það virðist vera

erfitt að ná samkomulagi um mál af þessu tagi úr ræðustól í það minnsta í dag.