Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 10:54:05 (4908)

[10:54]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd ásamt hv. þingmönnum Sigbirni Gunnarssyni og Gísla S. Einarssyni. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 62 21. apríl 1962, um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar, og miði sú endurskoðun m.a. að því að gefa fleiri aðilum kost á því að vinna að markaðsöflun og útflutningi á saltsíld.``
    Í greinargerð með tillögunni segir m.a.:
    ,,Í lögum um síldarútvegsnefnd segir að hún skuli hafa eftirlit með verkun saltaðrar síldar, svo og með útflutningi hennar. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að enginn megi ,,bjóða til sölu, selja eða flytja til útlanda saltaða síld sem íslensk skip veiða eða verkuð er hér á landi eða lögð á land verkuð, nema löggilding síldarútvegsnefndar komi til``. Enn fremur segir í 8. gr.: ,,Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum síldarútvegsnefndar, að veita heildarsamtökum síldarsaltenda eða síldarútvegsnefnd einkarétt til útflutnings á saltaðri síld eða einkarétt til útflutnings á saltaðri síld sem verkuð er með tilteknum verkunaraðferðum eða seld til ákveðinna landa.``
    Ljóst má vera að heimild er í lögum um að aðrir flytji út saltaða síld en síldarútvegsnefnd. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin, heldur hefur síldarútvegsnefnd alfarið séð um útflutning saltaðrar síldar í krafti einkaréttar er lögin kveða á um.
    Enginn efast um að síldarútvegsnefnd hefur unnið gott starf bæði við stjórnun síldarsöltunar og við útflutning á síldarafurðum. Þótt einkaréttur á útflutningi saltsíldar verði afnuminn mun síldarútvegsnefnd hafa mikilvægu hlutverki að gegna, en með því að gefa fleiri útflytjendum kost á að flytja út saltaða síld hlýtur það að efla markaðsleit, tryggja betur sölu og verð og nýtingu markaða. Lagaákvæðin eru hins vegar úrelt orðin og tímabært að endurskoða þau.

    Vaxandi erfiðleikar við útflutning og sölu saltsíldar á erlendum mörkuðum hljóta að kalla á endurskoðun laga er kveða á um þessi mál. Miklir hagsmunir eru í húfi. Síldarsöltun er stór þáttur í atvinnulífi landsbyggðarinnar og í þjóðartekjum. Brýnt er að leitað verði allra leiða til þess að tryggja hámarksafrakstur atvinnugreinarinnar. Efling útflutningsstarfseminnar er löngu brýn og gæfi fleiri útflytjendum kost á að spreyta sig. Að veita fullt frelsi í útflutningi saltsíldar er tímabær aðgerð sem nú verður að framkvæma eins fljótt og auðið er.``
    Þannig segir m.a. í grg. með þessari till. til þál. um endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd.
    Ég held að það leynist engum er les yfir lög um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar er síðast voru endurskoðuð árið 1962 að kominn er tími til að þau verði endurskoðuð. Þar er að finna fjölmörg ákvæði er hamla og takmarka eðlilega starfsemi við útflutning saltsíldar. Eins og kunnugt er hefur þessi útflutningur átt í miklum erfiðleikum nú á síðustu árum. Fyrst þegar hefðbundnir markaðir hrundu og verð á mörkuðum samhliða og einnig nú síðast þegar ekki hefur tekist að salta upp í þá samninga sem fyrir hendi eru, fyrst og fremst vegna þess að verðið er lágt og þolir ekki samkeppni við það verð sem býðst fyrir síld í bræðslu. Ég hef undir höndum bráðabirgðatölur um það hvernig verkun síldar gekk fyrir sig á þeirri vertíð sem nýlokið er eða á síðustu vertíð. Þar kemur fram að það veiddust á vertíðinni um 102 þús. tonn en veiðiheimildir alls voru 111.300 tonn þannig að til næstu vertíðar flytjast 9.300 tonn. En það sem mesta athygli vekur er að stærstur hlutinn af þessum afla fer til bræðslu, eða 76 þús. tonn af síld fer í bræðslu. Einungis 18 þús. tonn fara í salt og 8 þús. tonn í frystingu. Þessar tölur vekja sannarlega athygli, sérstaklega fyrir það hve stór hluti af þessari ágætu afurð fer til bræðslu andspænis lágum tölum í söltun og í frystingu.
    Þá hef ég einnig upplýsingar um það sem hefur komið fram áður að það vantaði að salta í um 10 þús. tunnur í fyrirframgerða samninga og er það sannarlega áhyggjuefni og er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að verðið í söltuninni þolir ekki samkeppni við verðið í bræðslunni og einnig vegna þess að í þessar veiðar eru komin stærri skip en áður sem byggja afkomu sína fyrst og fremst á miklu magni á stuttum tíma sem fullnægir ekki þeim skilyrðum sem gerð eru þegar um söltun er að ræða.
    Það er því sannarlega við mikinn vanda að etja í sambandi við síldarmálin og ekki síst síldarsölumálin. Það ætti m.a. að hvetja okkur til þess að endurskoða lög um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar. Ég held að allir geti verið sammála um að það geti ekki skaðað útflutningsstarfsemina að opna möguleika fyrir fleiri til að komast að þessari starfsemi, leita nýrra markaða og reyna að efla útflutningsstarfsemina eins og kostur er. Fyrir utan eins og ég sagði í upphafi þá eru lögin frá árinu 1962 orðin æðiúrelt. Það hefur verið deilt um það hvort síldarútvegsnefnd hafi beitt hinum svokallaða einkarétti sem ákvæði laganna gefur henni möguleika til. Því hefur verið lýst yfir að síldarútvegsnefnd hafi aldrei þurft að nýta sér þessa heimild en þessi heimild er eigi að síður til staðar í lögunum og auðvelt til hennar að grípa ef svo ber undir.
    Þá er einnig rétt að benda á að í lögunum eru mjög sterk ákvæði um að öll útflutningsstarfsemin skuli fara fram undir eftirliti síldarútvegsnefndar. Í 6. gr. laganna segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Útflytjendur og síldarsaltendur eru skyldir að gefa nefndinni allar upplýsingar sem hún óskar um hvað eina sem snertir söltun, sölu og útflutning síldar, og hefur nefndin frjálsan aðgang að verslunarbókum og skjölum þeirra hér að lútandi. Nefndin og starfsmenn hennar eru bundnir þagnarheiti um viðskiptamál útflytjenda er þau verða áskynja um á þennan hátt.``
    Þannig hljóðar 6. gr. og það má alveg ljóst vera að útflutningsfyrirtæki á frjálsum markaði hikar við að fara í samkeppni við síldarútvegsnefnd um útflutning á saltaðri síld ef samkeppnisaðilinn, síldarútvegsnefnd, hefur alla möguleika á því að koma fyrirvaralaust og sjá öll gögn viðkomandi samkeppnisaðila. Það er vel skiljanlegt að þetta hindri að ný útflutningsfyrirtæki hasli sér völl á þessum markaði og leggi í alvöru á sig kostnað og áreynslu til þess að ná árangri á þessum markaði.
    Það má einnig vísa á 5. gr. þessara laga sem er eitt tilefnið til þess að réttlæta endurskoðun þessara laga. Þar segir í 5. gr., með leyfi forseta:
    ,,Síldarútvegsnefnd löggildir útflytjendur saltaðrar síldar með þeim skilmálum sem nefndin telur nauðsynlega um löggildartíma, framboð og lágmarksverð, um skiptingu markaðsstaða, útflutningstíma og annað það sem tryggir sem öruggasta sölu saltsíldarframleiðslu landsmanna. Nefndin gerir þær ráðstafanir sem hún telur við þurfa til að tryggja að löggildingarskilmálum sé fullnægt.`` --- Þannig lýkur þessari grein.
    Ef ekki felast einokunar- og einkaréttarákvæði í þessari grein einni saman þá veit ég ekki hvernig hægt er að orða þau betur. Þar sem útflytjandinn, síldarútvegsnefnd, sem yrði samkeppnisaðili einhvers annars fyrirtækis sem ætlaði að hasla sér völl á þessum markaði, síldarútvegsnefnd, útflutningsaðilinn og samkeppnisaðilinn setur leikreglurnar. Setur alla skilmálana um það hvernig hinn samkeppnisaðilinn skuli standa að verki. Ég held að það þurfi ekki að lesa meira upp úr þessum annars ágætu lögum frá árinu 1962 til þess að sannfærast um að það er kominn tími til að þessi lög verði endurskoðuð og ég held að það sé ekki mikil áhætta fólgin í því þó að sú endurskoðun miði að því að gefa fleiri aðilum kost á að komast inn á þennan markað og spreyta sig.
    Ég hef áður bent á að það er við mikinn vanda að etja í þessari atvinnugrein, í þessari útflutningsgrein, og það eitt út af fyrir sig ætti að hvetja okkur til að opna nú fyrir nýjum fyrirtækjum til þess

að þau gætu lagt sitt af mörkum svo að þarna megi ná meiri árangri en okkur hefur tekist núna allra síðustu árin. Á hitt vil ég aftur leggja áherslu að síldarútvegsnefnd hefur unnið mjög gott starf í áranna rás og það skal sannarlega þakka. En í ljósi nýrra tíma og nýrra aðstæðna þá er ekki þar með sagt að lög um síldarútvegsnefnd megi ekki endurskoða þó að sú ágæta nefnd eigi góða sögu að baki.
    Á það má einnig benda að með því að gefa fleiri aðilum kost á að komast inn í þessa starfsemi þá gæti það um leið eflt starfsemi og skilvirkni síldarútvegsnefndar og gert hana hæfari til þess að takast á við þau nýju vandamál sem við okkur blasa núna og hafa gert núna allra síðustu ár.
    Hæstv. forseti. Að lokum langar til að leggja áherslu á það að hér er um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða, sérstaklega á þeim tímum þegar við blasir atvinnuleysi víða um land og margir hafa áhyggjur af því að það sé orðið viðvarandi og stöðugt, þá er sannarlega ástæða til þess að við reynum að grípa til allra ráða sem geta treyst atvinnulífið um landið. Þessi tillaga er skref í þá átt að treysta betur stöðu okkar á erlendum síldarmörkuðum með því að gefa fleiri aðilum kost á því að spreyta sig. Ef árangur verður af slíkri tilraun þá mun hann strax skila sér í því að treysta atvinnulífið hvað varðar síldarsöltunina í byggðum landsins.
    Að lokum, hæstv. forseti, legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. sjútvn. og síðari umræðu.