Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:08:44 (4909)


[11:08]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. flm. fyrir að flytja þetta mál inn í þingið en segja það samt um leið að ég tel að sú þáltill. sem við fluttum í haust, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Ragnar Arnalds, gerir ráð fyrir því að þessi mál verði endurskoðuð. Þó það sé ekki sagt í þeirri tillögu í rauninni að það eigi að endurskoða lögin um síldarútvegsnefnd þá er þar lagt til, með leyfi forseta: ,, . . .   að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd til að móta stefnu nýtingu síldarstofna við Ísland. Nefndin á að gera tillögur sem miða að því að auka nýtingu síldar til manneldis og nýta betur þá möguleika til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar sem felast í veiðunum og vinnslu síldar.``
    Í grg. er einmitt lögð sérstök áhersla á markaðsmálin og með hvaða hætti eigi að endurskoða þau. Þannig að ég tel að það sé í raun og veru verið að flytja tillögu sem á að taka á sömu atriðum og okkar tillaga á að taka á. Þessari tillögu var vísað til sjútvn. og hefur verið send til umsagnar en ekki verið tekin til meðferðar í nefndinni.
    Nú vill þannig til að hv. flm. á sæti í sjútvn. ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem var flm. að hinni tillögunni sem ég nefndi áðan og ég tel að það sé greinilegt að menn hafi þarna sameiginlegt áhugamál að það verði tekið á þessum málum. Ég held að það væri mjög þarft að við beittum okkur að því að fá fyrri tillöguna afgreidda út úr sjútvn. þannig að þetta starf geti hafist og menn sameinuðust um það að vinna að þessu. Það eru fjölmörg atriði sem þarf að taka á í sambandi við nýtingu síldarstofnanna. Það var mikið rætt um okkar tillögu þegar hún var til fyrri umræðu í hv. Alþingi og áhugi alþingismanna á þessu máli sýndi sig vera mjög mikill. Ýmislegt sem þar kom fram mætti kannski rifja upp í tengslum við þessa umræðu, m.a. stjórnun veiðanna, ígildi eignarhaldsins á kvótanum eins og það virkar og að það verður t.d. til þess að miklu meira af síld fer til bræðslu en annars væri. Það kom t.d. fram í upplýsingum með þáltill. að þeir sem fá úthlutað síldarkvóta veiða alls ekki kvótann. Bátar fengu úthlutað 101 þús. tonnum af síldarkvóta fyrir síðustu vertíð en loðnuskipin, sem fengu úthlutað 8.500 tonnum eða tæpum 8% af kvótanum, veiddu 83% af aflanum. Nánast öllum síldaraflanum var vísað yfir til loðnuskipanna til veiða. Þar með myndast það vandamál að þessi stóru skip hafa meiri hagsmuni af því að moka síldinni í land á stuttum tíma og þá í bræðslu.
    Það er ýmislegt sem gæti komið til skoðunar í þessu sambandi til að breyta ástandinu. Ég tel að fyrst og fremst ætti að skoða þá möguleika að veiði á síld til manneldis yrði gefin frjáls og ekki bundin við þá kvótasetningu sem er þannig að þeir aðilar sem væru að fiska síld til manneldis hefðu forgang fram yfir hina sem eru að fiska til bræðslu. Það er ekkert ótrúlegt að það þurfi að gera breytingar á lögunum um síldarútvegsnefnd. Þau eru orðin gömul og úrelt á ýmsan máta og ástæða til að þau verði skoðuð. Ég tel að það sem skipti mestu máli sé að við snúum okkur að því að endurskoða allan ferilinn í sambandi við bæði stjórn veiðanna og möguleika fyrirtækjanna til að fá hráefni. Það kom fram í þeim athugunum sem ég gerði áður en þessi þáltill. var flutt að síldarútvegsnefnd hefur ekkert þvælst fyrir aðilum sem hafa getað selt síldarafurðir. Það kom ekki fram neitt í umræðunum hér síðast þegar þetta var til umræðu sem bendir til þess að síldarútvegsnefnd hafi gengið þannig fram þó hún hafi þennan einkarétt. Það er auðvitað spurning hvort það á að afnema hann en ég held að það hafi ekkert komið fram sem bendi til að hann hafi verið misnotaður með neinum hætti og líklega er hann óþarfur. Hins vegar er það enginn vafi að síldarútvegsnefnd hefur oft á tíðum tekist að selja miklu meira af afurðum en líklegt er að hefði verið hægt að selja ef við hefðum ekki verið með sameiginlegan aðila til að vinna að þessum málum. Ég ætla ekki að endurtaka þær umræður sem fóru fram við okkar þáltill., en leggja áherslu á að ég tel það sjálfsagt mál að lögin um síldarútvegsnefnd verði endurskoðuð en legg jafnframt mikla áherslu á að það sem felst í þáltill. sem við fluttum í haust komist sem allra fyrst til framkvæmda, þ.e. að öll þessi mál verði tekin til endurskoðunar og að gerðar verði tillögur um breytingar á meðferð þessara mála.