Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:16:04 (4910)


[11:16]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Framsaga hv. þm. Jóhanns Ársælssonar fyrir tillögu sinni og annars þingmanns um nýtingu síldarstofnsins fyrr á þessu ári var hin ágætasta. Það er út af fyrir sig þarft að fá upprifjun á henni. En eigi að síður liggur hér fyrir till. til þál. um endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd. Það er kannski ekki rétt að gera kröfu til þess við fyrri umr. að hv. þm. hafi skoðun á málinu. Eigi að síður mátti ráða af máli hans að hann teldi að sú tillaga sem hann flutti fyrr í haust fjallaði um afskaplega skylt efni og næði e.t.v. yfir þessa tillögu. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel að þessi tillaga standi alveg sjálfstætt og það sé löngu kominn tími á að endurskoða þessi lög. Þess vegna vildi ég biðja hv. þm. Jóhann Ársælsson að skýra það hvort ég skilji það rétt að hann styðji tillöguna.
    Hv. þm. sagði jafnframt að þessi lög væru orðin gömul og úrelt og það væri tími til að þau yrðu skoðuð. Hann ræddi jafnframt örlítið um 8. gr. laganna, þar sem fjallað er um að ráðherra geti veitt nefndinni einkarétt, og sagði: Þessi einkaréttur er óþarfur. En eigi að síður sagði hv. þm. að þrátt fyrir að þessi einkaréttur væri óþarfur þá kynni svo að vera að síldarútvegsnefnd hefði tekist að selja meira en okkur Íslendingum hefði tekist væri nefndin ekki til. Ég skil ekki alveg þennan málflutning hjá þingmanninum. Ég vildi gjarnan fá útskýringu á honum.
    En númer eitt, virðulegi forseti, þá vildi ég gjarnan fá það upplýst hvort þingmaðurinn styður þessa tillögu eða ekki. Fyrri hluti ræðu hans gaf það til kynna en sá síðari dró fremur úr því. En það má vel vera að hann sé á leið í Framsfl. og telji þess vegna nauðsynlegt að hafa tvær skoðanir á þessu máli.