Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:38:27 (4921)


[11:38]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er afar sjaldgæft að það gerist að sá ágæti þingmaður sem talaði hér áðan neiti að horfast í augu við rök og ég vænti þess að það sé einungis vegna þess að hann sé illa fyrirkallaður í dag. En það er eigi að síður svo að ef menn settu þetta kerfi yfir til að mynda útflutning á þorski, hvað mundi þá hv. þm. segja? Nú vænti ég þess að þegar hann hefur unnið sinni þjóð vel í sölum Alþingis, þá muni hann e.t.v. beita sinni miklu þekkingu sem hann hefur á sjávarútvegi t.d. í því að fara að flytja út þorsk. Kerfið væri þá þannig að það væri einhver nefnd sem hann þyrfti að sækja um til að fá leyfi til að fá að flytja út þorsk og nefndin gæti gert það að skilyrði að hún, sem væri líka samkeppnisaðili, gæti farið í allar bækur viðkomandi fyrirtækis. Það er auðvitað aldeilis fráleitt og ég er hissa á því að hv. þm. skuli koma hér upp til að verja þetta úrelta kerfi.
    Hann hefur sjálfur oft talað í þessum stól í þá veru að það sé í takt við tímann að ýta burt einokun. Hér er lögvernduð einokun og það er ekki rétt sem hv. þm. sagði í fyrri ræðu að það væri hægt að veita þetta ráðherraleyfi einungis til eins árs í senn, það kemur a.m.k. ekki fram í lögunum. Auðvitað eigum við sem höfum verið sammála um að það eigi að eyða höftum af þessu tagi að snúa saman bökum og berjast gegn því en ekki að berja okkar viðkvæmu höfðum við stein í þessu máli.