Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:57:57 (4927)


[11:57]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vona að hv. 2. þm. Vesturl., Ingibjörg Pálmadóttir, sé að fjalla um þá till. til þál. sem ég var að reyna að mæla fyrir áðan. Það er hvergi kveðið á um það í þeirri tillögu né heldur í þeirri ræðu er ég flutti að tilgangurinn sé að brjóta síldarútvegsnefnd niður og þaðan af síður að brjóta þá

samninga niður sem síldarútvegsnefnd hefur náð. Þvert á móti lagði ég áherslu á það að síldarútvegsnefnd hefði unnið mjög gott starf í áranna rás. Ég benti líka á það að við ættum við vandamál að stríða núna varðandi þessa útflutningsstarfsemi og ég sé ekki að það eyðileggi nokkurn skapaðan hlut heldur þvert á móti eigi að geta bætt að gefa fleiri aðilum kost á því að koma að útflutningsmálunum. Svo einföld er sú tillaga. Ég get ekki séð að það eigi að skaða neitt síldarútvegsnefnd. Ef hún stendur sig svona vel og gerir jafn vel og raun ber vitni, þá mun reynslan leiða það í ljós að fleiri aðilar munu ekki gefa kost á sér í þetta. En það má alla vega gera tilraun með því að afnema þau höft sem lögin kveða á um og hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir verður að kynna sér áður en hún fer að ræða þessi mál með sleggjudómum og fordómum úr ræðustól á hinu háa Alþingi.