Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 12:03:15 (4930)


[12:03]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég held að raunveruleikinn sem blasir við sé sá, ef hv. 5. þm. Austurl. kynnti sér hann, að síldarútflytjendur hafa ekki áhuga fyrir öðru skipulagi heldur en gildir. Það getur vel verið að það megi fara yfir þessi lög en ég hef efasemdir um það að vera að eyða tíma í það ef þessi lög eru góð og skila árangri.
    Hitt þykir mér leitt að hv. 5. þm. Austurl. skuli vera búinn að læra úr orðabók frjálshyggjunnar og slá í kringum sig orðatiltækjum eins og ,,höftum``, ,,bönnum`` og ,,frelsi`` og öðru þess háttar sem hann hefur lært í stjórnarsamstarfinu við Sjálfstfl. og frjálshyggjumennina þar. En ég hélt að hann væri félagshyggumaður eins og við framsóknarmenn erum. Hann er að berjast fyrir ákveðnu skipulagi í olíusölu, ef ég hef lesið blöðin rétt, sem rímar ekki alveg við þessar frjálshyggjuklisjur sem hann er að slá um sig í þessu máli. Hann á samleið með okkur framsóknarmönnum þar og ég bið þess bara að honum gangi vel í þeirri baráttu sem hann á í á þeim vígstöðvum en þessi ræðuhöld í morgun og það að slá í kringum sig þeim orðatiltækjum sem hann hefur notað mest í þessari umræðu hjálpar honum ekkert í þeirri baráttu.