Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 12:05:44 (4931)


[12:05]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var alveg eins og ég vissi að um leið og hv. þm. Jón Kristjánsson var búinn að brjótast út úr oki fjötra Framsfl. og farinn að tala frjálsum huga þá opnaðist sýn til nýrra viðhorfa eins og svo greinilega kom fram í máli hv. þm. Auðvitað má endurskoða þessi lög og það er kjarni málsins. Um það fjallar umræðan. Þar snerti hv. þm. Jón Kristjánsson við kjarna málsins. Auðvitað má endurskoða

þessi lög þrátt fyrir allt. Ég veit ekki hvort það er frjálshyggjunni að þakka eða kenna að þarna hefur orðið stefnubreyting í Framsfl. af því að enn trúi ég að hv. þm. Jón Kristjánsson sé svo sterkur í Framsfl. að hann geti þó beygt flokkinn til sinnar niðurstöðu og sinna viðhorfa.
    Það má endurskoða þessi lög. Það er kjarni málsins og ég þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni fyrir sitt framlag til þessa máls. Ég veit að hann á eftir að styðja við baráttu þessa máls innan Framsfl. og þar með reyna að efla atvinnulífið á Íslandi.