Varðveisla tónlistararfs í Þjóðbókasafni Íslands

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 12:49:04 (4941)


[12:49]
     Flm. (Þuríður Pálsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm., Tómasi Inga Olrich, Einari Guðfinnssyni og Jóni Kristjánssyni, fyrir þeirra góðu undirtektir við tillöguna.
    Mig langar til að segja það að ég er hjartanlega sammála hv. þm. Tómasi Inga að vissulega var menningin á háu stigi hér ekki síst á landnámsöld og miklu hærra heldur en fólk vil vera láta.
    Ég held fyrst og fremst að Ísland sé sjálfstæð og sterk þjóð vegna okkar sterka menningararfs og eins og góður maður sagði: ,,Það eitt gerir smáþjóð stóra að leggja rækt við sína menningu.``
    Mig langar til að segja það að í formála þessa fréttabréfs frá Háskóla Íslands hafa skrifað Einar Sigurðsson háskólabókavörður og Þorsteinn I. Sigfússon prófessor, formaður stjórnar háskólabókasafnsins, góðan formála og þeir segja m.a.: ,,Safnið sem byggingin mun hýsa er í raun hugsað sem bókasafn 21. aldar og á að geta valdið byltingarkenndum umskiptum til hins betra bæði varðandi starfsaðstöðu háskólans og umönnun þjóðarverðmæta.``
    Mér þótti merkilegt þegar ég las þetta að ég skyldi hvergi finna stafkrók um þessi þjóðarverðmæti okkar, sem ég þekki nú svolítið vel til vegna þess að ég hef sjálf þurft að afla mér mikilla gagna í minni kennslu og það hef ég þurft að gera út um bæ og víðan völl. Sem betur fer hef ég þekkt gott fólk, en þetta er mjög erfitt og seinlegt verk að hafa ekki sérstaka tónlistardeild í slíku safni þar sem allir þeir sem þurfa að rannsaka og skrifa vísindalegar greinar um tónlist geti hreinlega leitað á sama stað --- ég hélt kannski að nýsigögn væru undir tónlistarmálum því að það er svo gott úrval af geisladiskum. En það virðist ekki vera því að útskýrt er að hver þeirra getur innihaldið allt að 300 þús. blaðsíður. Þannig að ég sá ekki að þetta ætti heldur við tónlistina. Ég vil þó geta þess að það er talað um sérsöfn í Þjóðbókasafninu svo sem safn Benedikts S. Þórarinssonar, safn Jóns Steffensen og Nonnasafn, sem áreiðanlega er mjög þarft verk, en tónlistin verður að eiga þarna stóran og góðan sess. Og það er mjög erfitt fyrir okkur sem þurfum að vinna við þetta og þá sem eru að vinna í safninu og einlægur vilji þeirra til að þetta verði allt sett á einn og sama staðinn og við höfum sérstaka deild með alla þá þjónustu og alla þá aðstoð og starfslið sem við þurfum á slíkan stað. Þakka ykkur fyrir.