Efling náttúrufræðikennslu í grunnskólum

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 13:10:13 (4945)


[13:10]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er nákvæmlega sammála hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um að það er nauðsynlegt að efla náttúrufræði og umhverfisfræðslu í skólum landsins. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé út í hött að ætla sér að fara í þá vinnu nema umhvrn. komi að því máli.

    Nú vill svo til af því að hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði að það væri ábyggilega fullur skilningur á einmitt því hjá hv. flm. og hann hefur því bersýnilega ekki hlustað á ræðu flm. vegna þess að það var útskýrt og rökstutt í nokkuð greinargóðu máli hvers vegna umhvrn. eða stofnanir þess ættu einmitt ekki að koma að þessu máli. Það vill svo til að þó að Alþb. sé á þeirri skoðun að umhvrn. eigi ekki að koma að þessari tegund fræðslu, þá eru aðrir flokkar í landinu sem skilja nauðsyn þess eins og til að mynda Sjálfstfl. Fulltrúi hans, menntmrh., skilur nauðsynina á þessu. Hann skilur að það er nauðsynlegt að hafa samstarf við umhvrn. einmitt um uppbyggingu á þessari fræðslu.
    Það er auðvitað rétt að bæði námsefnisgerð og í framhaldi af því kennslu í umhverfisfræðum í skólakerfi landsins er mjög ábótavant. Sú tillaga sem hér er flutt er að hluta til lögð fram til að bæta úr þeim skorti. Það er virðingarvert. En það er jafnóskiljanlegt að ætla sér með svo markvissum hætti sem kemur fram í þessari tillögu að skera umhvrn. frá því. Það er gersamlega út í hött, kemur aldrei til greina að þessi umhvrh. eða aðrir þeir menn sem hann hefur einhver áhrif á, styðji þetta mál meðan það er í þessum búningi.
    Auðvitað er það svo eins og hv. þm. gat um hér, að umhvrh. er viðkvæmur fyrir sínu ráðuneyti. Það er ungt ráðuneyti, það sætir árásum, það hefur jafnvel komið fyrir að það hefur verið rætt um það á þingum annarra stjórnmálaflokka hvort það hafi tilveru- og tilvistargrundvöll. Það kom fram í snjöllu máli hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni hér fyrir einum 10 dögum að það þyrfti að gera allt sem hægt væri til að styrkja það og ég hélt að flokkur þess þingmanns væri því allur sammála. Það kemur í ljós að a.m.k. einn varaþm. er það ekki.