Efling náttúrufræðikennslu í grunnskólum

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 13:12:40 (4946)


[13:12]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér þykir ráðherrann vera viðkvæmur, ég segi það bara enn og aftur. Ég held að það sé ekki ástæða til þess að reyna að drepa málið í upphafi þess vegna þessa ágreinings og vegna þess að hann hefur líka lagt áherslu á að það sem verið er að leggja til sé nauðsynlegt og það þurfi að styrkja þessa fræðslu. Hann hefur líka lýst því yfir úr ræðustól að hæstv. menntmrh. skilji þörfina á því að tengja þetta við umhvrn. og ég held þess vegna að það hljóti að vera hægt að leiða saman sjónarmiðin og trúi því ekki að menn ætli að fara að gera hér eitthvert veður út af þessum málum eins og þau liggja hér fyrir. En það getur vel verið að hæstv. umhvrh. sé svona óskaplega hræddur um sitt ráðuneyti að hann bókstaflega fyllist skelfingu ef hann er ekki nefndur á nafn í einhverri tillögu sem kemur hér fyrir. Ég held að þetta hljóti bara að geta verið til umræðu og menn hljóti að sameinast um það að láta ekki ágreining af þessu tagi eyðileggja fyrir málinu.