Efling náttúrufræðikennslu í grunnskólum

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 13:24:24 (4951)


[13:24]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er nú svo að ég þarf ekki að kvarta undan mínum pólitíska uppruna í þessu máli. Þegar ég komst til pólitísks vits og ára, þá var það í Alþb. og það var þar sem ég fyrst drakk í mig

náttúruverndarstefnu. Og það vill svo til að þó að ég hafi farið úr Alþb. þá hefur áfram eflst skilningur á náttúruverndarmálum innan Alþb. Ég bendi á það að eitt af stærstu frumvörpunum sem ég hef lagt fram á þessu þingi og varðar einmitt breytta skipan náttúruverndarmála hlaut afar góðan hljómgrunn hjá forustu Alþb. sem kom hingað í ræðustól og lýsti yfir fullum stuðningi við frv. þó að vísu einstakir þingmenn Alþb. hafi verið örlítið annarrar skoðunar. En að því er varðar minn samstarfsflokk, Sjálfstfl., þá get ég sagt það að ég hef eftir að ég kom í umhvrn. ekki undan neinu að kvarta varðandi Sjálfstfl. Ég hef átt þar gott samstarf við einstaka menn og ef maður ætti nú að fara að telja hér upp þá sem e.t.v. hafa gleggstan skilning á náttúruverndarmálum, þá mundi ég taka til að mynda hv. þm. Tómas Inga Olrich og skipa honum þar framarlega á bekk. Það er nefnilega svo að eins og mál þróast og það er mín reynsla úr pólitísku starfi að skilningur á umhverfismálum fer ekki eftir flokkum. Hann fer miklu frekar eftir kynslóðum. Ég varð var við það t.d. þegar ég sat fyrir Alþb. í borgarstjórn Reykjavíkur um nokkurra ára skeið sem varamaður að þeir sem ég átti þar mest sálufélag um varðandi náttúruverndar- og umhverfismál, en ég var þá í umhverfismálaráði Reykjavíkurborgar, voru ekki síst sjálfstæðismenn sem voru á svipuðu reki og ég. Þetta er held ég mál sem tengist kynslóðum sem alast upp saman í svipuðu umhverfi fremur en pólitískum skoðunum.
    Af því að hv. þm. Egill Jónsson er nú hér í salnum, þá get ég líka minnt á það að millum landbrn. og umhvrn. hefur fyrir milligöngu hans tekist mjög ágætt samstarf og vísir að góðu samstarfi í tilteknum málum, þ.e. landgræðslu. Menn geta komið hingað og núið mér því um nasir að það sé pólitísk afbrýðisemi eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði að ég skuli ekki vilja fallast á það að þáltill. um náttúrufræðslu taki bæði til landbúnaðar og menntamála en ekki umhvrn. Menn geta ef þeir vilja dregið þá ályktun að það liggi einhver pólitískur misþroski eða annarlegar hvatir þar að baki en það er ekki svo. Allir vita að það hefur staðið styr um verksvið umhvrn. Það vita það allir að við upphaf þessarar ríkisstjórnar stóðu deilur millum stjórnarflokkanna um hvaða stofnanir ættu að fara undir umhvrn. Ég minnist þess að Alþb. á þeim tíma hafði svipaðar skoðanir og forveri minn í embætti, Eiður Guðnason. Þessi tillaga gengur hins vegar í þveröfuga átt. Vegna þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom hér og bað mig um að rökstyðja það hvers vegna menntamál ættu að falla undir umhvrn. þá skal ég gera það.
    Hér er verið að tala um þann afmarkaða anga menntamála sem heitir fræðsla um umhverfis- og náttúrumál. Það vill svo til að í reglugerð um Stjórnarráðið segir beinlínis að umhvrn. fari með mál er varða fræðslumál um umhverfismál. Það segir það þar. Og mér er afskaplega illa við það eftir það sem á undan hefur gengið á skammvinnum ferli umhvrn. að láta breyta því í einu vetfangi með einni þáltill. Ég tel að það sé einfaldlega út í hött að ætla að fara að véla um náttúrufræðikennslu án þess að það ráðuneyti sem fer með náttúruvernd og umhverfismál komi þar að. Ég er alls ekki að gera neina kröfu til þess að umhvrn. hafi þar eitthvert forræði en ég tel algerlega fráleitt annað en umhvrn. komi þar að. Og ég verð þó að segja það samstarfsflokki mínum til hróss andpænis Alþb. að hann hefur skilning á þessu. Hann hefur meiri skilning á því heldur en þeir alþýðubandalagsmenn sem hér hafa talað í dag og ég furða mig á því.
    Ég get sagt það eins og hefur komið fram hér fyrr að málið sem slíkt er gott. En mér er trúað fyrir því að sjá til þess að hagur umhvrn. verði sem bestur. Ég er umhvrh. Ég á að sjá til þess að það sé ekki gengið á rétt þess ráðuneytis og það kemur alveg skýrt fram í reglugerð um Stjórnarráð Íslands að ráðuneytið fer með þessi mál. Ég hef ekkert á móti því að landbrh. og menntmrh. véli um þessi mál, síður en svo. Ég hef átt gott samstarf við báða. Ég segi það hins vegar að ef menn ætla að fara að leita leiða til að efla náttúrufræðifræðslu og fræðslu um umhverfismál fyrir æskufólki á Íslandi þá er óhjákvæmilegt annað heldur en umhvrn. komi að því. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kallar það stráksskap hjá mér. En ég segi það enn og aftur, þessi umhvrh. mun aldrei samþykkja þessa tillögu svona. Fyrir mér er þetta nefnilega ekkert grín, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Þetta snýst um grundvallaratriði, grundvallarþætti sem varða verksvið umhvrn. Ég er ekkert að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur gagnvart Alþb. út af minni pólitísku fortíð. Mér þykir vænt um það eins og hverja aðra stofnun sem ég hef komið nálægt á mínum ferli. Það er partur af mínu lífi. Hv. þm. Jóhann Ársælsson beindi til mín spurningu. Hún var tvíþætt:
    Í fyrsta lagi hvort ég væri samþykkur efni tillögunnar. Ég svara því svo að ég er í grundvallaratriðum sammála efninu.
    Í öðru lagi þóttist ég skilja að hann væri að spyrja hvort ég gæti veitt málinu stuðning ef því yrði breytt þannig að umhvrn. kæmi til málsins með sama hætti og menntmrh. og landbrh. Svar við því er líka já. En í óbreyttu formi kemur það ekki til greina.