Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 14:07:47 (4971)


[14:07]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti á þskj. 671 og brtt. á þskj. 672. Við skildum þannig við búvörulögin rétt fyrir þinglok í desember að við vorum í þeirri góðu trú að undirréttardómur, sem þá hafði nýlega gengið og var staðfesting á þeim almenna skilningi sem var í landinu að innflutningstakmarkanir væru í gildi á landbúnaðarvörum sem landbrh. hefði forræði fyrir, og að sjálfsögðu þær breytingar sem gerðar voru þá á búvörulögunum byggðu á þessari niðurstöðu. Hins vegar varð raunin önnur því þann 20. des. féll dómur í Hæstarétti þar sem fjmrh. og landbrh. voru dæmdir vera í órétti gagnvart Hagkaupum og undirréttardómnum var þannig hnekkt. Þar með lá það fyrir að innflutningur á landbúnaðarvörum var í þeim skilningi orðinn frjáls gagnstætt því sem almennt hafði verið álitið og afgreiðsla hér á hinu virðulega Alþingi gekk út á þegar mál voru afgreidd í desember, þar á meðal breyting á búvörulögunum. Af þessari ástæðu flutti svo hæstv. landbrh. frv. til laga um breytingar á búvörulögunum sem hér er sérstaklega til umfjöllunar.
    Þetta frv. felur í sér miklar breytingar frá því sem áður var í þessari löggjöf. Það byggist nú reyndar á ákveðinni reglu sem landbrh. fær til að hindra innflutning á landbúnaðarvörum, hliðstætt og talið var að hann hefði haft, en aftur á móti er það bundið við sérstakan viðauka, viðauka sem fylgir frv., þar sem tilgreind eru þau tollskrárnúmer sem heimildir landbrh. að þessu leyti taka til.
    Í tillögum á þskj. 672 eru ekki gerðar efnislegar breytingar við frv. sem slíkt. Þó er reyndar vert að geta þess að þar er vikið frá í tveimur efnum. Í fyrsta lagi er textinn sjálfur gerður víðtækari og orðaður með tilliti til þeirra breytinga sem eru að verða í sambandi við okkar viðskiptamál á sviði landbúnaðar. Hann er sem sagt kominn með alþjóðlegra yfirbragð. Að auki er bætt við annarri málsgrein þar sem þess er sérstaklega getið að ef tilfærsla verður á tollskrárnúmerum, þá nái ákvæði laganna til þeirra breytinga. Þetta var raunar sú eina aðferð sem fundin var til þess að leitast við að tryggja að hugsanlegar breytingar á tollskrá mundu ekki raska því meginefni sem hér er um fjallað. Þetta er það sem snýr að efni frv. og 52. gr. laganna þar um leið.
    Eins og ég sagði áðan, þá fól þetta frv. í sér aðrar breytingar. Lögin eins og frá þeim var gengið í desember sl. byggðu m.a. á því að landbrh. fengi tilteknar heimildir í 72. gr. og þær voru að grundvelli til í 52. gr. Þessar heimildir voru hvort tveggja víðtækar, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. viti, en þær voru hins vegar þrengdar eins og frv. ber með sér þar sem heimildir ráðherrans náðu einungis til þess viðauka sem þar var lagður til grundvallar.
    Jafnframt þessu opnaðist sá möguleiki að líta svo á að heimildir ráðherrans næðu einungis til þessa tilgreinda viðauka og að auki þeirra samninga, fríverslunar- og milliríkjasamninga, sem Íslendingar eru nú aðilar að. Aðrar vörur voru þess vegna eftir þessa breyttu skipan orðnar frjálsar. Þetta er ástæðan fyrir því að umræðan um 72. gr. hófst. Það var sem sagt skilið þannig við þetta mál að það voru ákveðnar vörur sem innflutningur hefði trúlega verið frjáls á eftir þessar breytingar. Meginbreytingin sem hefur verið gerð er einmitt sú að tryggja að svo verði ekki og skilgreina með skýrum hætti hvert verksvið og hvert valdsvið landbrh. er í þessum efnum. Með leyfi hæstv. forseta, er 1. mgr. þannig:
    ,,Landbúnaðarráðherra er heimilt, til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara, að

leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur sem tilgreindar eru í viðauka I og II með lögum þessum og jafnframt eru framleiddar hér á landi. Verðjöfnun á unnum og/eða samsettum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra.``
    Þarna er skýrt kveðið á um hvað er átt við. Af þessu tilefni og eins og þarna er komið fram, þá fylgja nú tveir viðaukar sem með þessu frv. fá lögfestingu. Í fyrsta lagi viðauki I sem fylgir 52. og 72. gr. og færir landbrh. heimild til þess að hindra innflutning á landbúnaðarvörum og síðan viðauki II sem færir landbrh. rétt til að leggja á þær vörur verðjöfnunargjöld, auk þess sem sá réttur nær líka til viðauka I.
    Ef menn líta á lögin eins og frá þeim var gengið í desember, þá er hér um að ræða skýrt afmarkaðar ákvarðanir svo að varla þarf lengur um það að deila hvaða rétt og skyldur landbrh. hefur í þessum efnum.
    Það er líka mikilvægt að hér er kveðið á um það að þessi heimild er við það miðuð að jafna samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar og er orðalagið að þessu leyti miklu skýrara heldur en það áður var. Það má segja að í þessum efnum felist grundvallarákvörðun og þessi málsgrein ein út af fyrir sig hefði átt að geta nægt til þess að tryggja að engar smugur væru opnaðar með lagabreytingunni með tilliti til þess sem ég hef áður lýst. Fyrir því væri sem sagt séð að landbrh. hefði þessa heimildir. Það kom hins vegar í ljós við umfjöllun þessa máls í landbn. að frv. eins og frá því var gengið í desember, reyndar nokkuð hliðstætt því sem gerðist með tillögur okkar frá því í fyrravor og ég átti mikinn hlut að því að semja þær, stóðst tæplega að lögum þegar betur var að gáð. Heimildir til landbrh. voru þar víðtækar og það hefur verið sýnt fram á að í hliðstæðum tilfellum hefur fallið hæstaréttardómur þar sem tilteknar heimildir sem ráðherra hafði stóðust ekki og hér þótti um samsvörun að ræða. Því varð það að ráði að skerpa á þessum texta, enda hafði þá reyndar þegar komið í ljós þegar beita átti þessum ákvæðum að uppi var ágreiningur í þessum efnum.
    Af þessari ástæðu voru gerðar tvær breytingar á 72. gr., tvær aðalefnisbreytingar. Það má þá segja að sú fyrri hafi verið um það að ákveða hvernig gjöldunum skyldi fundinn staður, þ.e. eins og fram kemur í frv. Ráðherra ákveður álagningu gjalda samkvæmt þessari grein í reglugerð. Álagning verðjöfnunargjalds skal vera í samræmi við þá skilmála sem kveðið er á um í fríverslunar- og milliríkjasamningum og takmarkast hverju sinni af því að verðjöfnunargjald að viðbættum innflutningsgjöldum sé innan þeirra marka sem skilgreind eru í fríverslunar- og milliríkjasamningum.
    Hér er um að ræða ótvírætt orðalag og umtalsverða breytingu frá því sem áður var í lögunum þar sem sagt var að ráðherrann hefði þessa heimild. Með sama hætti er lagt til að setja skýrar reglur um það hvernig útreikningar fari fram þegar verðjöfnunargjöldin eru ákveðin. Þetta kemur hér fram með tvennum hætti, þ.e. það er bæði ákvörðun um það hvernig innanlandsverðið er fundið, viðmiðunarverð við álagningu jöfnunargjaldanna og eins hvernig erlenda viðmiðunarverðið er fundið. Hér segir:
    ,,Áður en ákvarðanir eru teknar um innflutning samkvæmt þessari grein skal leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins.``
    Hér er að vísu um tilfærslu að ræða og breytingar frá því sem var í fyrri lögum, en það er hins vegar áréttað hér eftir sem áður að Framleiðsluráð er umsagnaraðilinn. Innanlandsverðið er fundið með þrennum hætti eins og ég sagði áðan. Það er umsamið innlent viðmiðunarverð. Það er samkvæmt IV. kafla þessara laga, búvörulaganna, og í samræmi við reglur 6. gr. laga um vörugjöld. Þetta eru sem sagt þær viðmiðunarreglur sem landbrh. ber að fara eftir að því er varðar hámarksálagningu verðjöfnunargjaldanna. Svo koma aftur fjórir liðir sem tilgreina með hvaða hætti á að finna lágmarksverðið.
    1. Á grundvelli bókunar 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    2. Á grundvelli bókunar 2 við samninga milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu.
    3. Á grundvelli fríverslunarsamninga sem við höfum gert við fjölmargar þjóðir.
    4. Svo er það varðandi þær vörur sem kunna að verða fluttar inn frá öðrum löndum og utan við þá sérstöku samninga sem hér eru tilgreindir og þar er jafnframt greint frá því við hvaða verð þá á að miða.
    Þetta eru þær grundvallarbreytingar sem hér hafa orðið á og ég vænti að sérstaklega muni auðvelda það að vinna eftir þessum lögum og framkvæma þau með þeim hætti að bærilega trúverðugt geti talist.
    Það er vert að geta þess í þessu sambandi að við það var jafnan miðað að efnislega tækju þessar breytingar mið af þeim ákvörðunum sem voru teknar hér í desembermánuði, en yrðu settar fram með skýrari hætti til að auðvelda sérstaklega frágangsmáta þessara mála. Ég vil svo til viðbótar við þetta leggja á það mikla áherslu að í þessu frv., reyndar lögunum eins og er, er sérstök grein, 73. gr., sem fjallar um heimild landbrh. til þessa endurgreiða eða gefa út reglugerð sem heimili endurgreiðslu á verðjöfnunargjöldum. Það er afskaplega mikilvægt að þessi reglugerð verði gefin sem fyrst út og þessi skipan mála komist sem allra fyrst í eðlilegt horf. Í þessu felst mikilvæg ákvörðun sem tryggir jafnræði í framkvæmd þessara mála og er í rauninni grundvöllur þess að við getum tekið þátt í alþjóðlegum samskiptum um þessi mál.
    Það er líka afar þýðingarmikið að nú hefur við framkvæmd þessara mála mikilli óvissu verið eytt og þó að út af fyrir sig sé tilefni til þess að óttast kannski að ekki hafi verið með tæmandi hætti gengið frá viðaukum I og II, sem ég vona nú að sé ekki, þá er hitt þó alveg ljóst að þeir eru á valdsviði landbrh. sem auðveldar náttúrlega stórkostlega mikið framkvæmd þessara mála. Þetta vona ég að skýri þessi mál

að því er varðar brtt. og mun ég eftir því sem tilefni kann að gefast til skýra þær svo aftur nánar.