Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 16:21:34 (4985)


[16:21]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hélt líklega, eins og flestir sem hlýða á umræðuna, að verið væri að eyða réttaróvissu með framlagningu þessa frv. En til hvers er ríkisstjórnin að setja fram svona frv. og breytingartillögur við það og skýra þær breytingartillögur með tveimur nefndarálitum? Ef hv. þm. sem hér hefur nýlega lokið máli sínu er eins mikill vinur bænda og hann lýsti í upphafi máls síns hvernig getur hann þá staðið að slíku nefndaráliti sem tætir niður nefndarálit 1. minni hluta? Hann hlýtur að sjá það að staðan í þessum innflutningsmálum er enn öll í lausu lofti og búast má við því fljótlega að dómsmál verði höfðað til að skera úr um það hvernig eigi að skýra þessi lög þar sem greinargerðir nefndarmanna í landbn. um sömu breytingartillögur stangast á. Eða getur hv. flm. þessarar greinargerðar, sem hann er nýbúinn að ljúka, fulltrúi Alþfl., sagt það hér að þetta frv. eyði þeirri réttaróvissu sem til var ætlast? Hvaða nefndarálit á þá að nota sem lögskýringu?