Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 17:04:40 (4991)



[17:04]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. tiltók hér í sinni ræðu áðan verðjöfnunartolla upp á 500--700%, vitnaði þar í Úrúgvæ-lotu GATT-samningsins og tilboð Íslendinga sem hann sagði síðan í sömu ræðunni að ekki væri búið að gera. Ég sagði einfaldlega að við aðra hvora fullyrðinguna verður hv. þm. að halda sig, enda fór það svo að þegar hann í gögnum sínum tiltók þá mestu verðjöfnun sem hann fann væntanlega, þá var hún ekki upp á 500 eða 700% heldur upp á 250% sem vissulega er hátt, helmingi lægri. Staðreyndin er nefnilega sú að þau verð sem er miðað við þegar tollígildin í okkar tilboði voru reiknuð út eru ekki þau verð sem þú finnur á markaði í Evrópu í dag. Það er lægsta heimsmarkaðsverð, það er lægsta verð sem hægt er að finna á árunum 1986--1988. Það er í flestum tilfellum verð á ,,spottmörkuðum`` þar sem ekki var hægt að kaupa inn í magni heldur það sem menn voru að losa sig við afgangsvöru í til þess að gera litlu magni, enda fór það svo að hv. þm. gat ekki fundið hliðstæðu í því viðskiptaumhverfi sem við búum við í dag.
    Ef hv. þm. er maður til að koma hér upp og útlista hvað stóð á bak við tölurnar um 500--700% tolla þá skal ég vera fyrstur manna til að draga það til baka að málflutningur hans hafi verið óheiðarlegur.