Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 17:19:46 (4998)


[17:19]
     Frsm. 4. minni hluta landbn. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 4. minni hluta landbn. eða þess sem hér stendur.
    Fyrir landbúnaðarnefnd hefur legið frumvarp frá ríkisstjórninni um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Yfirlýst markmið með þessu frumvarpi hefur verið að koma innflutningsmálum landbúnaðarins í það horf að ekki komi til nýr dómur Hæstaréttar eins og sá er féll í máli Hagkaupa hf. gegn landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra. Þar sem flestum nefndarmönnum leist ekki of vel á tillögur ríkisstjórnarinnar eftir atburði síðustu mánaða beitti formaður landbúnaðarnefndar sér fyrir að mál þetta yrði skoðað ofan í kjölinn. Hann stóð þar myndarlega að verki og ber að þakka honum það. Til að færa hugmyndir í lagabúning naut landbúnaðarnefnd aðstoðar lögfræðinganna Gunnlaugs Claessens ríkislögmanns og hæstaréttarlögmannanna Tryggva Gunnarssonar og Sveins Snorrasonar. Þeir kynntu síðan fyrir nefndinni drög að breytingartillögum sem miðuðu að eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi að færa fulla heimild til landbúnaðarráðherra til að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur sem væru framleiddar hér á landi eða vörur tilsvarandi þeim til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra landbúnaðarvara.
    Í öðru lagi að landbúnaðarráðherra væri heimilt að leggja á verðjöfnunargjöld að því marki sem fríverslunar- og milliríkjasamningar heimila.
    Eftir að fyrstu drög voru kynnt og þar til að þau fengu á sig endanlegan búning hafa orðið breytingar á þeim sem víkja frá upphaflegu markmiði sem gerir það að verkum að ekki er unnt að fallast á frumvarpið ásamt þeim breytingartillögum sem liggja fyrir af hálfu annarra fulltrúa stjórnarflokkanna og er miður að svo skyldi fara.
    Í fyrsta lagi er landbúnaðarráðherra ekki gert mögulegt að jafna samkeppnisstöðu landbúnaðarins að þeim mörkum sem leyft verður samkvæmt framlögðu tilboði Íslands í GATT-Úrúgvæ samningunum.
    Í öðru lagi er þrengt að því á hvaða landbúnaðarvörur landbúnaðarráðherra er heimilt að leggja verðjöfnunargjöld með því að binda það við upptalningu vara eftir tollalista. Enn fremur er sú heimild skert með því að takmarka álagningu á verðjöfnunargjöldum og við að varan skuli jafnframt vera framleidd hér á landi. Þessi ákvæði kalla á endalausan ágreining því að möguleikar til að jafna samkeppnisstöðu íslenskra bænda eru undir því komnir hvernig skilgreina ber hvað heitið ,,landbúnaðarvara`` felur í sér. Markmið þessarar lagasetningar var að eyða öllum vafa um framkvæmd laganna en hér eru á ný sett inn vafaatriði sem hafa munu grundvallarþýðingu og halda deilunum áfram. Í þessu sambandi er rétt að undirstrika að fyrir 4. minni hluta vakir ekki að fara eigi að leggja ný gjöld á matvörur sem fluttar hafa verið inn. Hins vegar þarf að tryggja að gætt sé fyllstu sjúkdómavarna og að milljarðaniðurgreiddar landbúnaðarvörur frá EB flæði ekki hömlulaust inn í landið. Á þessum erfiðu tímum eigum við ekki að flytja vinnuna út úr landinu.
    Í þriðja lagi er sett inn ákvæði um hvernig erlent viðmiðunarverð skuli fundið sem eru eingöngu til þess fallin að fjarlægja framkvæmdina frá því að landbúnaðinum verði tryggð samkeppnisjöfnun. Inn eru sett ákvæði um að miða skuli við birt heimsmarkaðsverð af Evrópusambandinu eða fríverslunarsamtökum. Til að unnt sé að taka mið af öðrum verðum, þar sem verð er lægra, þarf sá kostur að vera til staðar í þrjá mánuði eða lengur. Þetta gerir það að verkum að landbúnaðurinn stendur berskjaldaður fyrir tilfallandi undirboðum vegna offramleiðslu sem standa í skamman tíma en eru mjög algeng einkum fyrir ferskar vörur með lítið geymsluþol. Hér er því enn m.a. vegið að garðyrkjunni í landinu.
    Þau þrjú atriði, sem upp eru talin að ofan, gera það óaðgengilegt að samþykkja umræddar breytingartillögur.
    Að lokum undirstrikar 4. minni hluti þá sérstöðu sína að hafa verið á móti EES og hrópa heldur ekki húrra fyrir GATT.
    En ef til vill getum við Íslendingar lifað með þessu hvorttveggja. Alger forsenda þess er þó sú að af Íslands hálfu sé á hverjum tíma farið með samningsmálin með þeim hætti að munað sé eftir því hvað íslenskt er. Hingað til hefur þess ekki verið gætt og það hefur komið fram hjá undirrituðum áður að hann treystir ekki núverandi hæstv. utanríkisráðherra til að fara með þessi mál. Til staðfestu þessum orðum og sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti er grein sem undirritaður skrifaði í Morgunblaðið 13. nóvember sl.

undir heitinu: ,,Innflutningsárátta utanríkisráðherra``. Enn fremur er í fylgiskjali vitnað til minnispunkta garðyrkjubænda nú í mars um EES og GATT.
    Ég vil næst hlaupa aðeins á nokkrum punktum í þeirri grein er ég skrifaði í Morgunblaðið. Þar segi ég svo í upphafi:
    ,,Þann 25. október sl. var felldur dómur í svokölluðu skinkumáli þar sem á reyndi hvort ákvæði búvörlaga um rétt til takmörkunar á innflutningi landbúnaðarvara væri gagnslaus. Sú skoðun var studd af utanríkisráðherra sem hvatti eindregið til innflutningsins. Þegar fyrir lágu skýrar ákvarðanir landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra um meðferð þessa máls gekk hann svo langt að lýsa yfir í fjölmiðlum að hann mundi heimila innflutning landbúnaðarafurða gegnum Keflavíkurflugvöll yrði eftir því leitað.``
    Í framhaldi af því leyfði hann svo innflutning á kalkúnalærum sem allir muna. ( GÁ: Þú styður þennan mann.) Rétt er að minna á að það var staðfest í umræðum á Alþingi að innflutningur kalkúnalæranna, sem utanríkisráðherra leyfði gegnum Keflavíkurflugvöll, hafi verið lögbrot. Já, hafi verið lögbrot var upplýst af öllum og það er von að hv. þm. Guðni Ágústsson spyrji og veki athygli mína á að ég sé að styðja mann sem fremur lögbrot. En einn maður í þingflokki fær litlu við ráðið þó hann veiti hæstv. ráðherra takmarkaðan stuðning.
    Allt skal galopið, vitnaði ég næst í þessari grein minni.
    ,,Í sumar fór þó að bera á því að utanríkisráðherra teldi sig hafa gert samning við EB sem bæri að virða umfram íslensk búvörulög og að hann þar með og með hjálp viðskiptaráðherra væri búinn að koma svo málum fyrir að innflutningur landbúnaðarvara unninna sem óunninna væri galopinn. Þar með væri hann búinn að ná þeim árangri að koma í framkvæmd stefnu Alþýðuflokksins með hjálp erlendra aðila þó svo ljóst sé að það flokksbrot, sem hann veitir formennsku, hefði enga möguleika á að koma henni fram eftir lýðræðislegum leiðum heima fyrir.``
    Ég minnti í þessari grein á fórnarkostnað garðyrkjunnar, hvernig hæstv. ráðherra fór með hana.
    ,,Þann 14. apríl sl. átti að koma til framkvæmda algjörlega tollfrjáls innflutningur tiltekinna blómategunda. Aðdraganda þess máls má m.a. rekja í skýrslu utanríkisráðuneytis frá 20. maí 1991. Þar er sagt að Evrópubandalagið hafi lagt fram lista um 72 suðrænar garð- og gróðurhúsaafurðir sem það krefst afnáms tolla á og það verði bundið í samningum í tengslum við EES-samninginn. Samkvæmt skýrslunni má sjá að þessi krafa fékk misjafnar undirtektir EFTA-þjóðanna. Sumar þjóðir svo sem Sviss (sem þá var þátttakandi í samningaumleitunum) og Austurríki höfnuðu þessari kröfu. Af hálfu íslenska utanríkisráðuneytisins var hins vegar tekið þannig á málinu að skýrt var tekið fram að yrði tilboð EB í sjávarútvegsmálum viðunandi yrði unnt að fallast á að fella niður öll innflutningsgjöld á garð- og gróðurhúsaafurðum samkvæmt kröfum EB með árstíðabundnum takmörkunum á nokkrum tegundum í innflutningi. Þetta tilboð var gert án nokkurs samráðs við landbúnaðinn.``
    Hæstv. ráðherra hafði ekkert upp úr þessum fórnarkostnaði. En það breytir ekki því hvað hann ætlaði sér. Hann fékk ekki niðurfellda tollana sem hann hafði beitt sér fyrir með þessum hætti. Fórnarkostnaður garðyrkjunnar var hins vegar mikill vegna aðgerða ráðherrans.
    ,,Og enn er vegið í sama knérunn,`` segir hér á einum stað. Þegar kom að undirskrift EES-samningsins, í lok júlímánaðar 1991, lá fyrir samningur um stórfelldan innflutning á unnum landbúnaðarafurðum. Samningurinn hljóðaði upp á að við skyldum hefja fríverslun með mjólkurafurðir svo sem létt og laggott, smjörva og mjólkurís. Einnig voru tvímælalaus ákvæði í samningnum sem hindruðu okkur í að taka upp verðjöfnunargjöld á meginhluta þeirra unnu landbúnaðarvara sem samið var um fríverslun á þar sem við höfðum ekki nýtt okkur rétt til verðjöfnunar á viðmiðunartímunum eins og aðrir samningsaðilar. --- Þarna tókst landbrn. aðeins að bjarga frá afglöpum hæstv. utanrrh. Það fékk þetta lagað. Af þessum orðum er sýnt fram á að íslenskur landbúnaður hefur í samningaferlinu alltaf verið settur til hliðar.
    Virðulegi forseti. Fyrir lá í landbn., eftir að lögfræðingar nefndarinnar skiluðu henni öðru áliti sínu, að þar væru komnar tillögur sem öll nefndin gæti staðið að utan alþýðuflokksmaðurinn og er leitt til þess að vita að jafnágætur maður og hv. þm. Gísli Einarsson gat ekki staðið með okkur, þetta ágæta og fagra blóm í Alþfl., en það er of mikið af illgresi í kringum þennan ágæta þingmann. ( Gripið fram í: En hvað með þessa þrjá í þínum flokki?) Á þeim punkti lá og fyrir að átta nefndarmenn, bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar, höfðu náð saman um málið eftir góða vinnu ágætra lögfræðinga. Á þeim punkti hefði verið eðlilegt fyrir nefndina að staðnæmast og skila af sér svo að segja samhljóða til þingsins. Á þeim punkti hefði verið sæmst fyrir ráðherra að hætta að slást í þessu máli. Á þessum punkti hefði verið eðlilegt að skilja Alþfl. eftir í málinu. Hann átti enga aðra leið en að fylgja með í málinu, 10% flokkur sem engan hljómgrunn hefur fengið fyrir stefnu sinni í þessu máli gat ekkert annað. Það þurfti aðeins að sýna honum myndugleik. Vildi hann hins vegar sigla mátti um það segja að farið hefði fé betra.
    En málinu gat því miður ekki lokið í landbn. og þar með í þinginu með þeim farsæla hætti að flestir hefðu verið sammála. Nei, nú hófst enn framhaldsfarsi sem lauk með nýrri útgáfu lögfræðinga sem hér liggur fyrir í nefndaráliti 1. minni hluta og nú hafði enn einu sinni verið gefið eftir fyrir krötum.
    Eins og kom fram í nefndaráliti mínu styð ég ekki þær brtt. 1. minni hluta sem urðu til frá öðru uppkasti lögfræðinganna þar til þriðja uppkast lá fyrir, en þá kom í ljós að látið hafði verið undan Alþfl. Ég mun hins vegar greiða atkvæði með þeim tillögum 1. minni hluta sem allir nefndarmenn voru sammála um eins og kom fram í áliti 3. minni hluta. Jafnframt styð ég brtt. 3. minni hluta en þær eru í samræmi við miðuppkast lögfræðinganna sem við nefndarmenn tókum vel strax í upphafi.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú greint frá mínu nefndaráliti og skoðun minni á þessum málum. Við landbúnaðarumræðu sl. vor þar sem við áttum tal saman hæstv. utanrrh. minnti ég á gömul orð sem svo hljóða:
          Hossir þú heimskum gikki,
          hann gengur lagið á
          og ótal asnastykki
          af honum muntu fá.
    Við sjálfstæðismenn erum vissulega búnir að fá mörg asnastykki frá hæstv. utanrrh. og þar áður höfðu vinstri menn, framsóknarmenn og alþýðubandalagsmenn, notið góðs í þeirra samvistum í stjórn. En mest hefur þó þjóðin sem heild fengið af slíku. Hún á lengi eftir að súpa seyðið af því.