Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 17:34:59 (4999)


[17:34]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er upphaf þessa máls að 20. jan. sl. féll dómur Hæstaréttar sem skipti sköpum um langdregnar þrætur manna um skilning á búvörulögum. Dómur Hæstaréttar var á þá leið að skilningur minn og samstarfsmanna minna um það að búvörulögin hefðu ekki að geyma sjálfstæðar heimildir til að banna innflutning búvöru væri réttur, en hefðbundinn skilningur landbrn. og sérfræðinga þess í því máli rangur. Þessi niðurstaða Hæstaréttar þýddi að þar með hefði hömlulaus innflutningur búvara átt greiða leið inn í landið án nokkurrar gjaldtöku af nokkru tagi eða annarra verndaraðgerða.
    Um leið og þessi dómur féll var það sammæli forustumanna stjórnarflokkanna að við það yrði ekki búið því að menn voru sammála um það að enginn hefði stefnt að hömlulausum innflutningi. Samkomulagið var þess vegna um það að endurreisa óbreytt ástand eins og það hafði verið fyrir dóm Hæstaréttar til skamms tíma þar til væntanlegur Úrúgvæ-samningur GATT tæki gildi. Og hvers vegna til skamms tíma? Vegna þess að GATT-samkomulagið, þegar það tekur gildi, leggur af innflutningsbönn og leyfisveitingavald. Það var því eðli málsins samkvæmt svo að það var ekki hægt að leysa málið nema til skamms tíma.
    Hið pólitíska samkomulag sem gert var innan stjórnarflokkanna er ekki bara samkomulag formanna flokkanna. Það var gert annars vegar af hálfu forsrh., fjmrh. og landbrh. fyrir hönd Sjálfstfl. og okkar utanrrh. og viðskrh. fyrir hönd Alþfl. En þetta samkomulag var staðfest í ríkisstjórn, því hér var um að ræða stjfrv., og það var staðfest og samþykkt af þingflokkum stjórnarflokkanna.
    Það er til marks um þá sanngirni sem Alþfl. hefur sýnt í þessu máli að við féllumst á að auka þann bannlista sem í gildi hefur verið með vísan til laga um gjaldeyris- og innflutningsmál og að taka inn í viðauka með stjfrv. nokkrar vörutegundir sem aldrei hafa heyrt undir landbrn., sem hafa verið í frjálsum innflutningi, jafnvel tollfrjálsum innflutningi. Við gerðum það einfaldlega vegna þess að við vildum stuðla að því að landbrh. fengi heimildir til verðjöfnunargjalda. Samkomulag stjórnarflokkanna var þess vegna þetta: Að endurreisa þær bannheimildir sem landbrh. hafði áður haft sem voru birtar í auglýsingu frá viðskrn. og því til viðbótar vörum sem honum var skylt að leyfa innflutning á samkvæmt milliríkjasamningum, hvorki meira né minna. Í annan stað að hann skyldi hafa heimildir til þess að leggja á verðjöfnunargjöld samkvæmt ákvæðum milliríkjasamninga, þ.e. til þess að leggja verðjöfnunargjöld á hráefnisþátt innfluttra landbúnaðarafurða, enda væri um að ræða innlenda framleiðslu á þeim vörum. Þetta er vel skilgreint mál. Þetta eru ekki há gjöld. Þau eru afmörkuð bæði í vöruflokkum við viðauka og þau eru með skýru hámarki samkvæmt EES-reglum.
    Þriðji þáttur samkomulagsins var síðan sá, eins og stóð í athugasemdum með frv. ríkisstjórnarinnar, að framtíðarskipan tollamála eftir gildistöku GATT skyldi vísað til sérstakrar nefndar. Sú nefnd skyldi vera undir forustu forsrn., en að því máli skyldu síðan koma öll þau fimm ráðuneyti sem að málinu þurfa að koma vegna þess að nefndin þarf að fjalla um endurskoðun á innflutningslöggjöfinni í heild sinni, búvörulöggjöfinni sérstaklega og þar með tollalögum sérstaklega, til þess að undirbúa gildistöku GATT. Með þessum hætti var lagt fram stjfrv. sem samkomulag var um í ríkisstjórn og samþykkt í þingflokkum stjórnarflokkanna.
    Það sem er sérkennilegt við meðferð málsins síðan, þegar þessu stjfrv. er vísað til landbn., er það að nokkrir af samflokksmönnum hæstv. landbrh., einkum og sér í lagi hv. formaður landbn. sem og hv. 6. þm. Suðurl. sem þar á sæti, vildu ekkert kannast við þetta frv. hæstv. landbrh. og réðu sér verktaka til þess að breyta því. Aðspurður um það hvort formanni landbn. væri kunnugt um samkomulag stjórnarflokkanna og þetta væri stjfrv. lýsti hann því yfir oftar en einu sinni að honum væri alls ókunnugt um þetta samkomulag og þótt það væri eitthvert slíkt samkomulag, þá kæmi honum það ekkert við og reyndar kæmi honum ríkisstjórnin heldur ekkert við. ( Gripið fram í: Hann beygði sig nú.) Já, að vísu er það rétt, hv. þm. En hann hafði uppi stór orð og digurbarkaleg og kvaðst engu breyta og taka málið út alveg án tillits til þess hvert væri samkomulag stjórnarflokkanna.
    Að því er varðar þann þátt sem er stærsta atriði málsins, nefnilega það að framtíðarskipan tollamála eftir gildistöku GATT skyldi vísað til nefndar, þá var ágreiningurinn fyrst og fremst við hæstv. landbrh. vegna þess að hann hefur hvorki meira né minna en fjórum sinnum í ræðum sínum tekið það mjög

skýrt og skilmerkilega fram, bæði í desember þegar hann fylgdi úr hlaði stjfrv. þá og í febrúar þegar hann fylgdi þessu stjfrv. úr hlaði, að framtíðarskipan tollamála eftir GATT kæmi þessu máli ekkert við, væri sérstakt mál og ætti ekki að rugla saman við þetta. Hv. þm. Gísli Einarsson las þessar tilvitnanir fjórar talsins þannig að ekki fer milli mála. Þannig var ágreiningur hv. formanns landbn. þá fyrst og fremst við hæstv. landbrh. og það stjfrv. sem hann mælti fyrir.
    Hér hefur verið rakið í löngu máli hvernig málið breyttist í meðförum hv. formanns landbn. Í fimm meginatriðum gerði hann breytingar á frv. og fékk lögfræðinga til þess að semja nýtt frv. Lögfræðingarnir hafa náttúrlega margsinnis tekið það fram að þeim hafi ekkert verið kunnugt um neitt pólitískt samkomulag stjórnarflokkanna, enda var þeim ekki frá því skýrt, þannig að sú athugasemd að lögfræðingarnir hafi unnið í anda þess er með öllu villandi. Þeir fóru einfaldlega eftir fyrirsögn verkbeiðandans sem var formaður landbn. ( Gripið fram í: Og forsrh. líka.) Það er mér ekki kunnugt um. (Gripið fram í.) Mikið rétt.
    Það kom fljótlega á daginn að því er varðaði verk þessara lögfróðu manna að það hafði láðst að gera tvennt sem hefði verið nauðsynlegt til að þeir gætu unnið sitt verk. Hið fyrra var að sjálfsögðu að kynna þeim á hvaða pólitísku forsendum frv. var byggt samkvæmt samkomulagi stjórnarflokkanna, en hið seinna var að kynna þeim skuldbindingar og ákvæði milliríkjasamninga sem við höfum tekist á herðar. En hvorugt var gert. Þetta leiddi til þess að þau frumvarpsdrög og álitsgerð sem þessir lögfræðingar lögðu inn til formanns landbn. reyndust í veigamiklum atriðum og í sumum grundvallaratriðum á misskilningi byggð. Þetta er náttúrlega gagnrýni vert sem vinnubrögð að ráðnir séu lögfræðingar til þess að fjalla um stjfrv. en ekki gætt að því að þeir afli sér upplýsinga hjá sérfræðingum þeirra ráðuneyta sem að málinu koma sem eru utanrrn., landbrn., viðskrn. og fjmrn. til þess að kynna sér áður en þeir fara að smíða lagatexta í hverju þessar skuldbindingar eru fólgnar. ( Gripið fram í: Þeir þekktu þetta allt saman.) Því miður er það ekki rétt svo sem glögglega kemur fram þegar borin eru saman þessi fyrstu drög hv. lögfræðinga, sem eru birt hér með nefndaráliti hv. þm. Gísla Einarssonar, og það frv. sem nú liggur fyrir. Því niðurstaðan er sú að það þurfti í ekki færri en 10 atriðum að leiðrétta þessi upphaflegu drög. Það var talið upp hér áðan. Ólögfræðilegt hugtak, tilsvarandi vörur, var strikað út. Reyndar hafði það líka verið strikað út í samkomulaginu í desember. Tilraun þeirra til að skilgreina hugtakið landbúnaðarvörur var vísað á bug, enda var samkomulag um að útkljá það mál með því að gefa viðaukalistunum lagagildi.
    Misskilningur þeirra að því er varðaði muninn á breytilegum verðjöfnunargjöldum og hins vegar tollum eftir gildistöku GATT þurfti að leiðréttast í mörgum greinum og sér í lagi þurfti að vanda miklu betur skilgreininguna á viðmiðunarverðum og ekki síst að því er varðaði hráefnisþáttinn.
    Tekið var fram að verðjöfnunargjöld skyldu að sjálfsögðu eingöngu lögð á vegna hráefna sem framleidd er á Íslandi. Það segir sig sjálft, og hefði ekki þurft lögfræðinga til, að menn beita ekki verðjöfnunargjöldum til þess að jafna mun á erlendu og innlendu verði ef engin er innlenda framleiðslan. En jafnvel þetta vafðist fyrir þeim. Upphafleg tillaga þeirra um 50% jöfnunarálag ofan á verðjöfnunargjöld var fleygt út.
    Hugmyndir þeirra um að setja inn í aukamálsgrein í búvörulögum, sem í þeirra frv. hét grein 2.4, gjaldaheimildir upp að svokölluðum GATT-bindingum, voru felldar niður og þannig komið í veg fyrir reginskyssu sem hefði verið brot á gildandi GATT-samningum, þ.e. að Alþingi veitti einum aðila framkvæmdarvaldsins, landbrh., gjaldtökuheimildir sem hefðu leitt til, ef þær hefðu verið nýttar að fullu, hækkunar á gjöldum umfram innanlandsverð. Það er nauðsynlegt að menn átti sig á þessu og sá misskilningur kom fram í ræðu hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar hér áðan í orðaskiptum við hv. þm. Gísla Einarsson. Hann vildi bregða Gísla Einarssyni um óheiðarleika að því er varðaði túlkun hans á þessum víðtæku gjaldaheimildum. Þetta er áreiðanlega á misskilningi byggt.
    Það sem vakti fyrir formanni landbn. var þetta: Samkvæmt grein 2.4, sem búið er að fleygja út úr frv., vildi hann miða við tilbúið heimsmarkaðsverð á viðmiðunarárunum 1986--1987. Það átti að vera grunnur gjaldaheimildanna og upp að fullu innanlandsverði. (Gripið fram í.) Nú vil ég biðja hv. þm., af því að hann gaf tilefni til þessara orða, að hlusta. Þetta var tillaga formanns landbn. Þetta svokallaða heimsmarkaðsverð er hvergi til í veruleikanum. Það var eingöngu notað sem grunnur til þess að reikna út tollígildin, þ.e. heimildir til tolla eftir GATT. Ef þetta hefði verið samþykkt, þá hefði hæstv. landbrh. verið búinn að fá gjaldtökuheimildir á innflutningi sem hefðu verið langt umfram innanlandsverð og ekki nokkur vafi á því að út frá sjónarmiðum lögfræðinganna sjálfra sem lögðu á það höfuðáherslu að það yrði að vera tryggt að þetta væri í samræmi við milliríkjasamninga og að þetta framsal á gjaldtökuvaldi bryti ekki í bága við stjórnarskrá samkvæmt fordæmum, þá hefði þetta ekki staðist. Þannig að það voru engin rök fyrir þessu. Það var engin leið að setja í búvörulög nú einhverja skilgreiningu á því hvernig verður háttað tollamálum eftir GATT. Þau rök þurfti að fara nokkuð oft með fyrir þessa lögfræðinga áður en þeir skildu, en að lokum var þessu að sjálfsögðu fleygt út.
    Hitt er svo minni háttar. Viðaukanum var skipt í tvennt, sem var okkar upphaflega tillaga, þannig að sér væru annars vegar bannlistavörur og hins vegar þær vörur sem eru í frjálsum innflutningi en sæta verðjöfnunargjöldum samkvæmt milliríkjasamningum. Það þurfti að bæta mjög skilgreininguna á heimsmarkaðsverði. Það þyrfti að taka fram sérstaklega skyldu landbrh. til þess að birta opinberlega viðmiðunarverð og það var kveðið á um að álagning verðjöfnunargjalda skyldi vera í samræmi við skilmála milliríkjasamninga nákvæmlega. ( Landbrh.: Og hver var þessi glöggi maður sem benti á þetta?)
    Þetta sem ég hef nú farið með sýnir að það var dálítið sérkennilega að málunum staðið. Hv. formaður landbn. vann að þessu máli þannig að í fyrsta lagi sagði hann: Mér kemur ekkert við á hvaða pólitísku forsendum frv. ríkisstjórnarinnar er byggt.
    Í annan stað gekk hann í berhögg við margendurteknar yfirlýsingar hæstv. landbrh. um það að framtíðarskipan tollamála hlyti að bíða síns tíma eins og hæstv. landbrh. margsagði í sínum ræðum og seinast með þessum orðum, með leyfi forseta:
    ,,Það hefur verið mjög áberandi í þeim umræðum sem hér hafa farið fram að GATT hefur verið dregið inn í þær. Það kemur alveg skýrt fram í greinargerð með frv. og líka í framsöguræðu minni að þessu frv. er ekki ætlað að taka til þeirra samninga heldur verður unnið að samningu nýs lagafrv. með fyllri ákvæðum og heimildum jafnóðum og það skýrist hvernig GATTsamningarnir munu vera í einstökum atriðum. Auðvitað hlýtur slíkt frv. að vera afgreitt samtímis GATT-samningunum á Alþingi.``
    Þetta voru orð hæstv. landbrh. og þau geta ekki skýrari verið. Gegn þessu hins vegar stóð hv. formaður landbn. sem reyndi fram á seinustu stund að troða þarna inn ákvæði sem átti að veita hæstv. landbrh. opnar heimildir til gjaldtöku eftir gildistöku GATT. Þannig að sú sérkennilega staða hefur komið upp að það eru samflokksmenn hæstv. landbrh. sem reyndu af fremsta megni að umturna því frv. sem hann, hæstv. landbrh., átti fulla aðild að, var stjfrv. samþykkt í þingflokkum og hæstv. landbrh. hafði mælt fyrir. Þetta hafði ekkert að gera með ágreining við Alþfl. Þessi ágreiningur var einfaldlega innbyrðis í Sjálfstfl. ( ÓRG: Þannig að þú varst að bjarga landbrh.?) ( Landbrh.: Að bjarga Sjálfstfl.?) ( ÓRG: Já.)
    Að svo miklu leyti sem við ræðum hér vinnubrögð, þá skal undir það tekið að það er óvenjulegt, svo ekki sé meira sagt, að þegar loks er búið að ná pólitískri samstöðu um frv. sjálft, þá skuli synjað um allt samstarf um túlkun frv. í greinargerð með frv. Að vísu munu vera til nokkur fordæmi þess á hinu háa Alþingi. Enda fá einsdæmi að ekki megi finna fordæmi í sögu Alþingis fyrir þeim en þau eru fátíð. En sér í lagi get ekki annað en sagt að þegar þannig er á málum haldið að þegar samkomulag hefur tekist um sjálfan frumvarpstextann og búið er að henda út tilraunum formanns landbn. til þess að fara á svig við samkomulag flokkanna, og reyndar að brjóta í bága við milliríkjaskuldbindingar, þá verður það að teljast óvenjulegt að þá sé synjað um að í sameiginlegri greinargerð komi fram ábendingar og rök sem eru leiðréttingar á augljósum rangfærslum og misskilningi. En eins og fram kom í máli hv. þm. Gísla Einarssonar þá neyddist hann til þess að leggja fram sérstaka greinargerð vegna þess að synjað var um samstarf um túlkun á þeim texta sem fyrir liggur. ( JGS: Hvað vakir fyrir Alþingi?) Það er nauðsynlegt upp á framgang málsins þótt hér sé um að ræða skammtímalausn að rétt rök í málinu komi fram í greinargerðum og einhvern tíma hefði nú einhver sagt að það bæri vott um nokkurn hroka þegar fram kemur í greinargerð lögfræðinganna að engu máli skipti hvað þingmenn segi í þingræðum sínum eða hvað sagt sé í greinargerðum með frumvörpum, þeir einir hafi seinasta orðið um að túlka hvað rétt sé. Það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir réttaróvissu. Það er nauðsynlegt til þess, sérstaklega ef tilefni gefst til einhverrar málshöfðunar út af þessu á þeim tíma sem líður fram að áramótum, að rétt rök séu sett fram í greinargerð með frv. þannig að þeir sem um málið fjalla og við málið eiga að búa þurfi ekki að velkjast í vafa um hverjar staðreyndir málsins eru.
    Niðurstaða málsins er síðan sú að eftir allan hamaganginn, eftir þessi handarbakavinnubrögð, eftir allar stóru yfirlýsingarnar, eftir fullyrðingarnar um að málinu skyldi í engu breytt, eftir yfirlýsingarnar um að málið skyldið tekið út, eftir yfirlýsingar um það að engu varði hvað samstarfsflokkurinn hafi til málanna að leggja, þá liggur hér fyrir frv. sem er í öllum grundvallaratriðum óbreytt stjfrv. með smávægilegum tæknilegum breytingum sem vandræðalaust var fyrir Alþfl. að ganga að, enda lýstum við því strax yfir að ef fram kæmu tillögur um eitthvað sem betur mætti fara í lagatexta, og það voru nokkur atriði, þá mundum við að sjálfsögðu fúslega fallast á slíkt.
    Það er nauðsynlegt að rekja þessar staðreyndir málsins og undirstrika það að af hálfu Alþfl. hefur verið sýnd fyllsta sanngirni í þessu máli og þær deilur sem vaktar hafa verið upp um það hafa verið af hálfu formanns landbn., ekki gegn Alþfl. heldur gegn frv. sem var stjfrv., samþykkt í ríkisstjórn og samþykkt af þingflokkum stjórnarflokkanna.
    Í nefndaráliti hv. þm. Gísla Einarssonar eru sérstaklega leiðréttar ýmsar fullyrðingar í nefndaráliti formanns landbn. sem ekki eru í samræmi við lagatextann sjálfan og gætu reynst villandi og rangvísandi, bæði fyrir þá sem við þetta eiga að búa og eins ef þannig kynni að fara að dómstólar þyrftu að skera úr um málið. Ég ætla ekki að tíunda það aftur en ég ætla bara að nefna nokkur atriði.
    Því er haldið fram að heimildir landbrh. til álagningar verðjöfnunargjalda taki til allra innfluttra landbúnaðarvara, hverju nafni sem nefnast og í reynd líka einhverja tilsvarandi vara án tillits til þess hvort viðkomandi vörutegundir séu framleiddar hér á landi. Það er einfalt mál og auðvelt að rökstyðja að þetta er staðleysa og hvað fyrir mönnum vakir að setja slíka staðleysustafi í nefndarálit meiri hluta er mér hulin ráðgáta. Það er alveg augljóst mál að vörusviðið er takmarkað. Það er í fyrsta lagi takmarkað við viðaukana sjálfa. Það er í annan stað takmarkað við þær vörur eða þau hráefni sem jafnframt eru framleidd hér á landi. Það er í þriðja lagi takmarkað af þeim ástæðum að það er ein grundvallarreglan að ef varan var í frjálsum innflutningi eða á lágum tollum fyrir, þá verður að halda þeirri skipan eftir GATT ef um sama magn er að ræða. Loks er þess að geta að það er pólitískt samkomulag í þessari ríkisstjórn um það

að á þær landbúnaðarvörur, landbúnaðarhráefni, sem voru í frjálsum innflutningi á viðmiðunarárunum eða á lágum tollum, skuli ekki lögð frekari gjöld. Með öðrum orðum er sú fullyrðing að vörusviðið sé ótakmarkað staðleysustafir.
    Í annan stað stenst að sjálfsögðu ekki sú tilraun hv. formanns landbn. að reyna að halda því fram að þetta frv. taki til þess hvernig tollamálum verður háttað eftir gildistöku GATT. Í fyrsta lagi eru athugasemdir í stjfrv. sem taka það fram að það mál fari í sérstaka nefnd. Í annan stað eru fjórar tilvitnanir í ræðu hæstv. landbrh. sem tekur það fram að það mál sé sérstakt mál sem eigi að fara í nefnd og sé ekki efni frv. Í þriðja lagi vita svo allir, sem eitthvað þekkja til þessara mála, að það er tæknilega ógerningur, hver svo sem vilji manna er, að setja í lagatexta núna endanlegan bindandi texta sem kveður upp úr um það hvernig tollamálum eftir GATT verður skipað. Það er einmitt vegna þess sem samkomulag var í ríkisstjórninni, í stjfrv. og samþykkt af þingflokkum að þetta skuli sett í nefnd fimm ráðuneyta.
    Ég bið hv. þm. að hugleiða að þetta er ekki einfalt mál. Það eru allmargir mánuðir liðnir frá því að upp var sett nefnd. Hún var sett upp í september sl. til þess að fara yfir innflutningslöggjöfina og skila áfangaskýrslu um það hverju helst þyrfti að breyta. Sú áfangaskýrsla liggur fyrir. Þar benda menn á að í fimm eða sjö lagabálkum sem varða innflutningslöggjöf, einkum búvörulög, sé augljóst mál að það þurfi að fella niður allar heimildir sem lúta að banni við innflutningi og leyfisveitingavaldi ráðherra. Um þetta er enginn ágreiningur.
    Síðan er það að meginreglan innan GATT er að sjálfsögu sú að það verður að taka pólitíska ákvörðun um það --- og þá kem ég að spurningu sem hv. þm. Jóhannes Geir beindi til mín --- hversu langt viðkomandi ríki, í þessu tilfelli okkar ríki, vill ganga í því að nýta þær tollaheimildir sem felast í GATT-tilboðinu. Það eru hámarksheimildir en spurningin er um það að hve miklu leyti menn ætla að nýta þær. Þess vegna m.a. hlýtur þessi nefnd ekki aðeins að skoða innflutningslöggjöfina heldur alveg sér í lagi tollalöggjöfina.
    Að meginstefnu til gerir GATT þá kröfu til tollalöggjafar að hún sé í föstum skorðum, þ.e. að tollar séu birtir, þeir séu fast mótaðir og það sé hægt að hafa með þeim eftirlit vegna þess að hin nýja stofnun mun hafa aukið eftirlit með framkvæmd samninganna. Tollar af þessu tagi eru allt annað fyrirbæri heldur en breytileg verðjöfnunargjöld. Þó ætla ég ekkert að útiloka það, það er ekki á mínu færi á þessari stundu, að í einhverjum mæli og í einhverjum undantekningartilvikum megi beita verðjöfnunargjöldum. Það er t.d. ekki óhugsandi að það megi gera þegar um er að ræða vörur sem eru bundnar fríverslunarsamningum, t.d. bókun 3 EES, þegar það er algerlega skilgreint hvert viðmiðunarverðið er og skilgreint hámark á gjöldunum. Enn liggur það ekki fyrir innan GATT hver niðurstaðan verður þó margt bendi til þess að meginreglan verði fastmótaðir tollar. Alla vega er ljóst að breytileg verðjöfnunargjöld af því tagi sem eiga að vera breytileg frá vörusendingu til vörusendingar munu ekki standast GATT-reglur, þau munu nánast flokkast undir viðskiptahindranir vegna þess að ekki er unnt að koma við neinu eftirliti með slíkri framkvæmd.
    Því næst skyldu menn gjarnan líta á það grundvallaratriði íslenskrar lagasetningar að tolla, eins og skatta, má enga á leggja né af taka nema með lögum. Alþingi hlýtur í ljósi hæstaréttardóma sem fyrir liggja að skoða vandlega hversu langt það vill ganga í þá áhættuátt að framselja vald sitt til skattlagningar eða tollaákvarðana í hendur einum aðila framkvæmdarvaldsins og reyndar skal það sagt lögfræðingunum þremur til hróss að þá lexíu kunnu þeir vel og lögðu á það áherslu að undir engum kringumstæðum mætti um slíkt framsal á valdi vera að ræða að því er þessi lög varðar. Á það má líka benda að fyrir liggur heil bók eftir virtan lögfræðing, Sigurð Líndal prófessor, þar sem hann bendir einmitt á að þessi grundvallarveila er eins og rauður þráður í gegnum landbúnaðarlöggjöfina og hefur verið það áratugum saman. Hún einkennist af allt of miklu, víðtæku og þaklausu framsali á gjaldtökuvaldi til óæðra stjórnvalds. Reyndar heldur hann því fram í mörgum greinum að þessi löggjöf sé af þeim sökum brot á stjórnarskránni.
    Virðulegi forseti. Ég dreg enga dul á það að ég harma það að þessum vinnubrögðum skuli hafa verið beitt af hálfu formanns landbn. Ég tel þau hafa verið friðarspilli, þau hafi spillt samkomulagi um málið að óþörfu og gefið undir fótinn með rangtúlkanir á málinu. T.d. standa margir í þeirri trú að það hafi staðið eitthvað á Alþfl., og það hafi verið kjarni þessarar deilu, að endurreisa heimildir til landbrh. um bann á innflutningi búvara eða synja um lagaheimildir til hans um álagningu verðjöfnunargjalda. Hvort tveggja er rangt. Alþfl. var reiðubúinn til þess og sýndi mikla sanngirni í því máli. Þannig að deilan stóð ekki um það. Deilan stóð um það að ákveðið var af hálfu formanns landbn. að ganga miklu lengra en unnt var að fallast á miðað við samkomulag stjórnarflokkanna, lengra en hægt var að gera tæknilega í ljósi þess að það er ekki hægt á þessari stundu að ákveða tolla eftir gildistöku GATT og lengra en góðu hófi gegnir miðað við góða stjórnsýslu og stjórnskipan landsins.
    Allt er gott sem endar vel og það er fagnaðarefni að þessu var öllu hnekkt þannig að eftir stendur að búið er að leiðrétta þetta frv. og þessar álitsgerðir í öllum grundvallaratriðum þannig að frv. stendur í stórum dráttum eins og það kom frá ríkisstjórninni með nokkrum tæknilegum breytingum. Það er niðurstaða málsins.
    Síðan er auðvitað mjög mikilsvert mál að sú nefnd fimm ráðuneyta undir forustu forsrn. sem hefur fengið það verkefni að endurskoða innflutnings- og tollalöggjöfina hefji nú þegar störf. Hún skilaði áfangaskýrslu meðan þessi nefnd var fjögurra ráðuneyta nefnd og gerði það fyrir áramót, en síðan hefur verið ákveðið að fjölga í nefndinni og umfram þessa áfangaskýrslu hefur hún ekki enn unnið neitt svo mér sé kunnugt um.
    Sumir hafa haft á orði að það sé hið versta mál að íslenskir bændur þurfi að búa við óvissu um það hvernig staðið verði að framkvæmd tollamála eftir að GATT tekur gildi. Nú er það svo að tilgangurinn með þessu frv., með því að endurreisa bannheimildir landbrh., með því að taka af tvímæli um heimildir hans til álagningar verðjöfnunargjalda, þá er auðvitað verið að reyna að binda enda á réttaróvissu og skapa vissu og öryggi, bæði fyrir framleiðendur og innflytjendur um hvað er heimilt og hvað ekki. Það er ekki hægt að gera þá kröfu hins vegar að til þess að binda enda á óvissu um eitthvað í framtíðinni, þá setji menn í lagatexta eitthvað sem ekki fær staðist. Það er einfaldlega ekki hægt --- þetta er miklu flóknara og viðameira mál en svo --- með einni aukasetningu í búvörulögum að ráða skipan tollalöggjafar eftir að GATT tekur gildi. Það dettur engum óvitlausum manni í hug.
    Mikið meira er út af fyrir sig ekki um efni þessa máls að segja, en ég vil að lokum víkja að spurningum sem hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson beindi til mín. Hann spurði í fyrsta lagi á hverju samkomulag stjórnarflokkanna hefði byggst sem lá til grundvallar breytingartillögum við búvörulögin í desember að því er varðaði forræði landbúnaðarafurða. Ég tel mig hafa svarað því. Ég minni á að á þeim tíma stóðu menn enn í þeirri trú að búvörulögin hefðu sjálfstætt banngildi að því er varðaði innflutning. Það stóð því ekki til að efna til einhvers innflutnings sem þar var bannaður eða var á valdi Framleiðsluráðs landbúnaðarins, lægra setts stjórnvalds, að banna. Það sem verið var að gera með frv. í desember var þetta:
    1. Að gera landbrh. skylt að efna milliríkjasamninga, þ.e. heimila innflutning á búvörum sem okkur var skylt samkvæmt milliríkjasamningum.
    2. Að heimila honum að leggja verðjöfnunargjöld á hráefnisþátt þeirra landbúnaðarafurða sem þannig yrðu fluttar inn í landið og síðan nánar útskýrt um framkvæmd þess með þriggja manna nefnd o.s.frv.
    Þetta var desembersamkomulagið og að því er varðar hinar pólitísku forsendur stjfrv. frá því í febrúar, þá hef ég þegar rakið það. Það var um það að endurreisa þessar bannheimildir. Þær voru alveg skýrar því að þær voru samkvæmt auglýsingum frá viðskrn. Þær voru hins vegar auknar vegna þess að við vorum svo sanngjarnir að bæta á þennan bannlista vörum sem höfðu aldrei verið þar áður og síðan var tryggilega frá því gengið að verðjöfnunargjaldaheimildirnar væru innan þeirra marka sem milliríkjasamningar kveða á um þannig að þær væru ekki opnar heimildir eða brytu í bága við lög eða stjórnarskrá.
    Önnur spurning hv. þm. var, að vísu nokkuð óljóst orðuð, hvernig tekið yrði á tollamálum, ef ég skildi hann rétt, eftir Úrúgvæ-lotu GATT. Ég tel mig hafa svarað því. Það getur enginn fullyrt það á þessari stundu nákvæmlega. Það er nákvæmnisvinna. En rétt stjórnsýsluvinnubrögð eru af því tagi að öll ráðuneyti sem að því koma hljóti að koma að því máli. Það er augljóst mál ef menn ætla að endurskoða tollalöggjöfina, þá er ekki hægt að sniðganga fjmrn. Hvað er eftir af fjmrn. sem hefur ekki tollalöggjöf? Dettur einhverjum í hug að fara að búta tollalöggjöfina og dreifa henni á hin ýmsu fagráðuneyti? Telja menn það vera í anda góðrar stjórnsýslu? Telja menn að það sé líklegasta leiðin til þess að tryggja að við efnum milliríkjasamninga? Eða eru menn virkilega þeirrar skoðunar að það eigi að fela hverju fagráðuneytum um sig sinn bút tollalöggjafarinnar til þess að afhenda tollskrána og tollalöggjöfina sem verndarstefnutæki fyrir hvert fagráðuneyti? Það væri með ólíkindum. Það væri fróðlegt að heyra álit lögvitringanna þriggja á þvílíkum skoðunum. ( Gripið fram í: Hvað gera þeir á Norðurlöndum?) Það gegnir allt öðru máli um það. Það er mikil mistúlkun á því. Það er mjög ólíkt eftir hinum ýmsu löndum að því er varðar þau kerfi sem menn nota. Ísland hefur ekki notað verðjöfnunargjöld, það hafa Norðurlöndin gert. Og ákveðinn þáttur þeirra, sem beinlínis varðar framkvæmd framleiðslustýringar viðkomandi landa, er í tveimur tilvikum hjá landbrn. En það breytir engu um að forræði fjmrn. yfir tollalöggjöf og tollskrá er að sjálfsögðu óskert.
    Þá spurði hv. þm. um beitingu tollígilda þegar að því kemur. Svarið er þetta: Endurskoðuð tollskrá liggur ekki fyrir. Að því mikla og flókna viðfangsefni er verið að vinna í þessari margnefndu fimm ráðuneyta nefnd. (Gripið fram í.) Nei, því miður, ég tek undir með hv. þm. að það er auðvitað mjög brýnt að hún byrji þetta verk hið fyrsta. Og að því varðar framkvæmdina á lágmarksmarkaðsaðgangi, 3% sem á að vaxa í 5% eða 6%, þá er mér ekki kunnugt um að fyrir liggi neinar ákveðnar tillögur um framkvæmdina. Vel má vera að þær séu til í landbrn. þó mér sé ekki um það kunnugt. Ég legg á það áherslu að vegna þess hve vægt er farið í sakirnar að innleiða smá vott af verðsamkeppni á sex árum þá er þessi þáttur GATT-samkomulagsins, þessi takmarkaði lágmarksmarkaðsaðgangur, hugsaður til þess að gefa stöðnuðum einokunarkerfum svolitla ,,sjokk``-meðferð svo sem eins og gerist í Sovétríkjunum. Þess vegna tel ég mjög æskilegt að neytendur fái að njóta hagkvæmninnar af þessum mjög takmarkaða innflutningi á lágum tollum til þess líka að framleiðendur vöru og þjónustu standi þar frammi fyrir eðlilegum örvunaráhrifum samkeppni.
    Þetta er hins vegar erfitt í framkvæmd vegna þess að eiginlega er ekki nema tvennt til, annaðhvort að bjóða þennan innflutning út til lægstbjóðanda eða þá að úthluta honum til einhverra aðila sem viðamestir eru í innflutningi nú þegar.
    Að lokum, virðulegur forseti, af því að hér var farið með endalausar rangfærslur um þann litla þátt EES-samninganna sem varðaði heimildir til innflutnings á grænmeti og blómum. EES-samningurinn, þótt

hv. 6. þm. Suðurl. hafi ekki tekist að skilja það enn, er alls ekki um landbúnaðarmál. Hins vegar var gert samkomulag um það að draga upp lista yfir 77 tegundir af blómum og grænmeti. ( Gripið fram í: Það á að fórna garðyrkjunni.) Þvættingur. Af þeim voru yfir 70 tegundir alls ekki framleiddar hér á landi. Það sem eftir stendur er heimilað í tollfrjálsum innflutningi fjóra eða fjóra og hálfan mánuð á ári hverju. Þ.e. á þeim tíma sem innlend framleiðsla á þessum vörum er yfirleitt ekki á markaðnum. Að þetta hafi verið gert án samráðs við bændur er alrangt. Þetta var að sjálfsögðu gert í fullu samráði við landbrn. og þetta var gert að undangengnum viðræðum við Samtök garðyrkjubænda. ( GÁ: Hvaða menn?) Þetta var gert að undangengnum viðræðum við forsvarsmenn Samtaka garðyrkjubænda. Ástæðan fyrir því að þetta var gert var sú að hin EFTA-löndin höfðu gengið miklu lengra í því að opna fyrir innflutning á búvörum. Sum EFTA-ríkin sóttust beinlínis eftir því vegna þess að þau eru jafnvel verulegir útflytjendur á búvörum. Ísland gekk þarna langsamlega skemmst. Það eina sem hæft er í þessu er það að takmarkaðan tíma á árinu, þegar ekki er innlend framleiðsla á markaðnum, þá er þetta heimilt. Það sem hins vegar fékkst í staðinn voru meiri háttar hagsmunir vegna þess að þetta var gert til að hnykkja á því eða brjóta á bak aftur andstöðu Suður-Evrópuþjóða, einkum Spánverja, við tollalækkanir varðandi okkar fiskafurðir. Það er algerlega út í hött að fara hér mörgum árum að orðnum hlut með rangfærslur og staðleysustafi um svo lítið mál.
    Síðan ber að sjálfsögðu að líta á það, að því er varðar þær líklega sex eða sjö tegundir af blómum eða grænmeti sem er leyft að flytja inn yfir háveturinn. Meira að segja var hliðrað til um það tímabil í samráði við samtök garðyrkjubænda að höfðum samtölum við þá. Að segja að þetta sé einhver aðför að innlendri garðyrkjuframleiðslu er að sjálfsögðu út í hött.
    Menn geta ef þeir vilja rannsakað verðmyndun á þessum vörum og velt því fyrir sér hvar væri sanngjörn málamiðlun á milli eðlilegra hagsmuna neytenda við innflutning eða innlenda framleiðslu. Þetta litla samkomulag, sem augljóslega var til að tryggja meiri háttar íslenska þjóðarhagsmuni, mun ekki hnekkja íslenskum landbúnaði hvað þá heldur innlendri garðyrkjuframleiðslu.
    Á það má benda að það er yfirleitt 30% rauntollur á innflutningi á landbúnaðarvörum eða jafnvel tollfrelsi. Þannig hefur það verið á undanförnum árum. Og 30% tollur á innflutning er í skilningi flestra landa umtalsverð tollvernd. Það er reyndar hæsti rauntollur í tollskránni íslensku að því er varðar matvæli og reyndar er alhæsta tollprósenta sem þar er nefnd á tóbaki 50%. Það er með öðrum orðum tollvernd ef um það væri að ræða að flytja inn að vetrinum.
    Nú er það svo að þessi innflutningur, sem stýrist af 53. gr. búvörulaganna, kom t.d. ekki til álita í desember. Hvers vegna ekki? Vegna þess að Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur í hendi sér að heimila engan innflutning ef hún telur að innlend framleiðsla fullnægi markaðseftirspurn. Með öðrum orðum: Hæstv. landbrh. og undirstofnun hans, Framleiðsluráð, hefur fullt forræði og heimildir til að banna innflutning. Ef þeir vilja gera undanþágu og heimila einhvern innflutning þá gerist það á 30% tollum. Það er því út af fyrir sig ekki yfir miklu að kvarta í þeim efnum.
    En ég er orðinn svo vanur því af hálfu sumra hv. þm. að þeir hirða ekkert um hvort þeir fari með rétt mál eða rangt. Þeim nægir að fara með áróðursklisjurnar sínar og endurtaka þær í síbylju eða landráðabrigsl eða eitthvað í þeim dúr, sem endar auðvitað með því að það tekur enginn neitt einasta mark á málflutningi slíkra manna. ( GÁ: Við hverja áttu?) Það segir sig sjálft.