Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:22:14 (5003)


[18:22]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þótt menn greini á jafnvel um tæknileg atriði þá beini ég því eindregið til hv. þm., sem er góður og gegn maður, að leggja af þann ósið að bregða mönnum alltaf um óheilindi eða óheiðarleika alveg að ósekju.
    Það sem um er að ræða hérna er tvennt. Tollígildin eru reikningsdæmi miðað við grunnverð sem var til fyrir 6--7 árum síðan. Það er ekki til lengur. Síðan var gerð tillaga um að veitt yrði gjaldtökuheimild á grundvelli þessa tilbúna verðs sem hefði ekki staðist milliríkjaskuldbindingar og þegar við leggjum fram þessar tölur þá er tvennt að segja: Þær tölur endurspegluðu á sínum tíma verðmuninn sem var á heimsmarkaðsverðinu og hámarksvernd innan lands. Þær gera það ekki lengur og munu ekki gera það í framtíðinni. Það sem við vorum að andmæla og förum með réttar tölur um er að það væri gefin heimild til að misnota þessi heimildarákvæði í formi verðjöfnunargjalda sem hefðu, ef þeim hefði verið beitt að fullu, brotið í bága við samninga og bitnað á neytendum með þeim hætti sem ekki hefði verið við unað.
    Að því er varðar forræði á tollum eftir gildistöku GATT þá get ég ekki svarað því með öðru en þessu: Nefndin mun skila sínum tillögum og það mun síðan koma til kasta Alþingis að útkljá það á grundvelli tillagna um breytingar á tollalögum hvar þau verða vistuð.